Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Greiðslur auknar til dagforeldra

Framlög til dagforeldra aukast um 32% 1. janúar 2007.

Þann 1. janúar 2007 eykst framlag Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar með börnum hjá dagforeldrum um 32%. Markmiðið með því að auka framlag til dagforeldra er fyrst og fremst að lækka kostnað foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra en einnig að tryggja grundvöll fyrir þjónustunni, þ.e. að þjónusta dagforeldra verði áfram til staðar í borginni.

Borgarstjórn samþykkti breytingartillögu leikskólaráðs á fjárhagsáætlun 19. desember sl. þar sem óskað var eftir verulegri hækkun framlaga borgarinnar með börnum sem njóta þjónustu dagforeldra í borginni. Nýleg könnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem gerð var fyrir Menntasvið sýndi að yfir 90% foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra eru mjög ánægðir með þjónustuna. Dagforeldrar eru mjög mikilvægur liður í þjónustu við foreldra strax eftir að fæðingarorlofi lýkur. Þrátt fyrir þetta hefur dagforeldrakerfið á undanförnum árum fengið lítinn stuðning borgaryfirvalda. Lítill stuðningur við þetta mikilvæga kerfi undanfarin ár hefur til dæmis leitt af sér 37% fækkun dagforeldra frá árinu 2000.

Miðað er við að þessi aukning framlags til dagforeldra kosti Reykjavíkurborg 85 milljónir á ári. Áhrif þessara breytinga felur í sér að barn hjóna sem er í 8 tíma vistun hjá dagforeldri fær niðurgreiðslu frá Reykjavíkurborg um kr. 31.880 á mánuði en fékk áður kr. 21.600. Niðurgreiðslan hækkar því hjá hjónum og foreldrum í sambúð um kr.10.280 eða um ríflega 110.000 kr. ár ári. Barn einstæðs foreldris og foreldrum sem báðir stunda nám og er í 8 tíma vistun hjá dagforeldri fær niðurgreiðslu frá Reykjavíkurborg um kr. 49.440 á mánuði en fékk áður kr. 33.520. Niðurgreiðslan hækkar því hjá einstæðum foreldrum og foreldrum sem báðir stunda nám um kr. 15.920 eða um 175.000 kr. á ári.

Fjölskylduborgin Reykjavík?

Borgarfulltrúi Dagur B. Eggertsson gagnrýndi í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag nýjan meirihluta borgarstjórnar og sagði vísitölutengdar hækkanir leikskólagjalda vera ,,stefna tekin frá fjölskylduvænni borg?. Borgarfulltrúi líttu þér nær og kynntu þér þróun fjölskylduvænu borgarinnar í tölulegu samhengi. Þegar tölurnar eru rýndar koma upp í hugann fjölmargar spurningar til Dags B. Eggertssonar um fjölskyldustefnu þá sem hann leiddi meðal annara síðustu 12 ár.

7,4% fækkun leikskólabarna frá 1997

Það leikur enginn vafi á að flestir Reykvíkingar telji að borgin eigi að vera fyrsta flokks og til fyrirmyndar fyrir fjölskyldur með ung börn. Tölur um íbúaþróun gefa þó skýrar vísbendingar um að svo sé ekki. Tölur Hagstofu Íslands sýna að börnum á leikskólaaldri hefur fjölgað í Kópavogi um 26%, í Hafnarfirði um 15% og í Garðabæ um 15% frá 1997 til 1. desember 2006. Á sama tíma fækkaði sama aldurshópi í Reykjavík um 7,4%. Á þessu sama tímabili hefur Íslendingum fjölgað um 12% og aðfluttum börnum á leikskólaaldri til höfuðborgarsvæðisins fjölgað um ríflega 20% á tímabilinu. Framtíðarspár sem ganga út frá núgildandi aðalskipulagi fyrrverandi meirihluta gera ráð fyrir áframhaldandi fækkun barna í borginni og núverandi spá gerir ráð fyrir að frá 2005 til 2030 muni börnum á leikskólaaldri fækka um ríflega 8% en að eldri íbúum muni fjölga um ríflega 20%. Þessar tölur eru sláandi og ég tel mikilvægt að borgarbúar átti sig á og ræði þessa grundvallarbreytingu sem hefur átt sér stað í Reykjavík.

Hvar skal skjóta rótum?

Þessar tölur eru staðfesting á mikilvægi þeirra aðgerða sem nýr meirihluti í Reykjavík stendur fyrir með áherslu sinni á málefni fjölskyldunnar. Stofnun leikskólaráðs, gerð menntastefnu borgarinnar í fyrsta sinn, stofnun starfshóps um gerð fyrstu fjölskyldustefnu borgarinnar, lækkun leikskólagjalda, fegrun umhverfisins, efling dagforeldrakerfisins, aukið lóðaframboð og frístundakort fyrir börn eru allt upphafið að öflugri sókn til að sýna fjölskyldum hvað borgin býður upp á. Þessu til viðbótar er aðalskipulag í endurskoðun hjá skipulagsráði en skipulag er ein mikilvægasta stefnumörkunin í þessu samhengi. Afar mikilvægt er að í þeirri vinnu sé hlutföllum um fjölda sérbýla og fjölbýla verði breytt frá því sem verið hefur þannig að meira framboð verði af sérbýlum og stærri íbúðum sem fjölskyldur velja fremur þegar börnum fjölgar. Að auki verður í aðalskipulagi að gera ráð fyrir leikskólum og útivistarsvæðum fyrir yngstu börnin, en í núgildandi skipulagi er það ekki gert.

Börnin aftur í borgina

Í öllum ákvörðunum borgarinnar verður að huga að aðstæðum yngstu borgarbúanna og hugsa hlutina út frá þeirra þörfum. Barnafjölskyldur hafa nefnilega val. Þær geta á einfaldan hátt kynnt sér þjónustu fjölmargra sveitarfélaga í kringum borgina, skoðað valkosti og stærð húsnæðis, hreinlæti, öryggi og umhverfi, útivistarsvæði, samgöngur til og frá og síðast en ekki síst áherslur og kraft skólastarfs í sveitarfélaginu. Þessi samanburður hefur því miður leitt til fækkunar barnafólks í Reykjavík síðustu 10 árin. Reykjavík á að vera fyrsta val barnafjölskyldna og það er markmið nýs meirihluta í borgarstjórn að gerða það með því að veita ungum börnum og fjölskyldum þeirra örugga og fjölbreytta þjónustu þar sem áherslan er á val, gæði og lausnir.


Góðar fréttir fyrir Víkinga og Fossvogsbúa

Loksins sér fyrir endann á tímafreku ferli deiliskipulags í Traðarlandi á íþróttsvæði Víkings. Um er að ræða gervigrasæfingarsvæði. Tillagan er nú í kynningu en hún felur í sér að Kópavogur leigi borginni land til þess að flóðljósin sem tengjast svona velli trufli ekki íbúa í Traðarlandi. Að auki er komið til móts við íbúa varðandi bílastæði því gert er ráð fyrir 85 nýjum álagsstæðum á opnu svæði norð-austan við núverandi íþróttahús. Ég vona fyrir hönd Víkinga að þetta verði samþykkt og hægt sé að tímasetja vígslu nýs vallar í Fossvogsdal.

Af hverju hvalveiðar?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki ákvörðun flokksbræðra minna að fara í veiðar á hval í atvinnuskyni. Ég hef ekki heyrt rökin, ég hef ekki heyrt efnahagsleg rök né vísindaleg rök. Svo virðist sem langreyður er í útrýmingarhættu, í þessi 17 ár hafa engar hvalveiðar ekki haft áhrif á atvinnuleysi eða efnahag landsmanna og á sama tíma hefur ferðamannaiðnaður margfaldast. Þetta hljómar óskynsamlega í mínum eyrum. Ég hlakka til að heyra skýr rök.

Ég tek það fram að ég er engin tepra í þessu máli ég held bara að hér fari meiri hagsmunir fyrir minni. Það breytir ekki neinu að mínu mati að við séum að veiða miklu minna en Hafrannsóknarstofnun sagði samrýmast markmiðum um sjálfbæra nýtingu. Umræðan er sú sama í erlendum fjölmiðlum og mun að mínu mati hafa áhrif á ákvörðun ferðamanna um hvort þeir komi hingað.

Samgönguvikan

Samgönguvikan 2006 var sett á föstudaginn. Gísli Marteinn setti formlega vikuna með því að segja áhorfendum frá mikilvægi hreins lofts í umhverfinu. Áherslan í ár er sett á aðra valkosti við bílinn enda ekki hægt að halda til streitu bíllausa deginum sem var hálfgerður brandari hér í tíð R-listans.

Í gær var sérstök áhersla á hjólreiðar sem samgöngumáta og því hjóluðu Reykvíkingar og Hafnfirðingar úr hverfunum og hittust svo við tjald í Hljómskálagarðinum. Þar var boðið upp á mat og drykk, hjólaþrautabraut og hjólalistir. Hápunkturinn var að mínu mati hjólreiðamaraþonið sem var haldið í annað sinn og felur í sér alvöru hjólreiðakeppni í kringum Tjörnina. Okkur finnst nú að það megi alveg kalla þetta Tour de Tjörn og festa þetta almennilega í sessi sem árlegan viðburð. Sif Gunnarsdóttir verkefnastjóri á höfuðborgarstofu og ég ákváðum líka að á næsta ári yrðu sérstakar hjólreiðatreyjur sem myndu skarta merki borgarinnar.

Ég fékk að blása af stað hjólreiðakeppnina og hún var ansi skemmtileg. Við stóðum á brúnni á Skothúsveginum og hvöttum 15 hjólreiðakappa áfram af miklum krafti en Íslandsmeistarinn Hafsteinn Geirsson sigraði annað árið í röð (mynd). Það væri verðugt markmið að draga fleiri Reykvíkinga á þennan viðburð og hafa hvatningarhring í kringum Tjörnina á næsta ári. Ekki aðeins til að efla vitund manna á kapphjólreiðum heldur einnig á því hvað það er gaman að hjóla. Mark Twain á að hafa sagt einhvert sinni: ,,Lærðu að hjóla. Þú sérð ekki eftir því ef þú lifir það af". Fulltrúar Hjólreiðafélags Reykjavíkur (HFR) stýrðu keppninni afar vel og vissu nákvæmlega af hverju þyrfti að huga.

Menntun hefst við fæðingu

Óteljandi fjöldi vísindalegra rannsókna hafa viðurkennt mikilvægi þess að börn fái örvun og kennslu á fyrstu árum sínum. Í dag eru nánast allir fræðimenn í þroskafræðum sammála um að strax við fæðingu er heili mannsins hannaður til að taka við upplýsingum frá umhverfinu. Margt þarf að læra til að sjálfstæði sé náð. Íslendingar hafa í þessum efnum sem öðrum verið fljótir að tileinka sér nýja þekkingu og aðferðir til þess að veita ungum börnum það umhverfi sem gefur þeim kost á að tileinka sér hæfileika og færni. Sveitarfélög um allt land hafa sett mikinn metnað í að búa til sterka umgjörð fyrir leikskólann. Ísland er eina þjóðin á Norðurlöndum sem hefur viðurkennt leikskólann sem fyrsta skólastigið og hefur því verið leiðandi í að kynna og miðla reynslu um þessa farsælu stefnumótun.

Leikskólaráð veitir aukin tækifæri
Nýr meirihluti í borgarstjórn leggur mikinn metnað og mikla áherslu á fjölskyldumál og skólamál reykvískra barna. Metnaðarfullar hugmyndir flokkanna um eflingu dagvistarþjónustu við foreldra yngstu barnanna frá því að fæðingarorlofi lýkur og aukinn styrk leikskólans sem fyrsta skólastigið eru efstar á baugi. Áhersla er lögð á val, gæði, árangur og lausnir. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ætla sér að vinna faglega og láta verkin tala. Ákvörðun meirihlutans um að stofna leikskólaráð er einmitt í takt við þessar hugmyndir. Leikskólaráð fær sérstakan vettvang til að ræða og útfæra m.a. menntunarhlutverk leikskólans, þróun leikskólastigsins, bætta þjónustu við foreldra barna í Reykjavík, tengsl leikskólans við aðra þætti borgarlífsins eins og listasöfn og eldri borgara. Fleiri tækifæri gefast til að styðja við þróunarverkefni og eflingu tengsla skólastiganna. Tíminn sem kjörnir fulltrúar og áheyrnarfulltrúar hafa til að ræða innra starf og þjónustu við yngri börn margfaldast. Leikskólaráð mun þannig sinna einu mikilvægasta hlutverki borgarinnar, að mennta og tryggja yngstu borgarbúunum öruggt og þroskandi umhverfi. Nú þegar hefur borgarráð samþykkt tillögu meirihlutans um að lækka leikskólagjöld í Reykjavík frá og með 1. september. Námsgjald, sem áður var nefnt kennslugjald, verður lækkað um 25% en auk þess verður veittur 100% systkinaafsláttur af námsgjaldinu með öðru eða fleiri börnum.

Móttækilegir litlir svampar
Börnin okkar soga í sig þekkingu, tungumál, færni og kunnáttu eins og svampar draga í sig vatn. Kennarar og starfsfólk vinna hörðum höndum allan daginn að því að kenna börnum okkar að vera kurteis, að syngja, að læra stafi, að umgangast aðra, að ganga vel um, að borða með hníf og gaffli og ýmsan fróðleik. Allt er þetta að eiga sér stað á meðan foreldrar vinna sína vinnu. Leikskólinn og dagforeldrar tryggja að auki öruggt umhverfi þar sem starfsfólk sinnir börnum annara sem sínum. Þetta eru lífsgæði sem verður að varðveita, efla og tryggja. Nýr borgarstjórnarmeirihluti ætlar sér að gera það.

Ráðhúsið

Það tók smá tíma að jafna sig eftir kosningar. Vinnan beið og mörg verkefni sem höfðu setið á hakanum. Nú glittir hins vegar í að sjálfstæðismenn fái lyklana af ráðhúsinu og Vilhjálmur skipti um skrifstofu. Þetta hefur verið fjarlægur draumur í langan tíma og ég held að margir átti sig ekki á því að loksins getum við farið að breyta og bæta út frá hugmyndum sjálfstæðismanna. Á þriðjudaginn verður borgarstjórnarfundur þar sem skipað verður í nefndir og ráð borgarinnar. Þriðjudagurinn 13. júní verður því sögulegur þriðjudagur í mínu lífi að minnsta kosti.

Ég þekki ekki til Björns Inga og hlakka til að kynnast honum. Það verður ansi lágur meðalaldur (rétt tæplega 40 ár) í borgarstjórnarflokksmeirihlutanum og líklega koma með okkur nýjar hefðir og ný vinnubrögð. Ég hlakka til að taka til hendinni og koma hugmyndum okkar í framkvæmd. Það er kominn tími til.

Líflegt í miðbænum

Við frambjóðendur fórum yfir mikið svæði í borginni í dag til að sýna okkur og sjá aðra. Það var þröngt á þingi í Lágmúla 7, einni af kosningaskrifstofum flokksins, þar sem eldri borgurum var boðið í kaffi. Sama má segja um kosningaskrifstofu Heimdalls sem er á Austurvelli. Þar stóð ég meðal annars og grillaði pylsur með Helgu Kristínu og það er hægt að segja að það hafi skipst á skin og skúrir. Rétt hjá í Landsímahúsinu var kosningaskrifstofa vesturbæjarfélaga og miðbæjar með grillveislu líka og mér sýndist pylsurnar rjúka út þar. Á Austurvelli var unga fólkið og hlustaði á tónleika sem ég held að BÍSN eða iðnnemar hafi staðið fyrir.

Ég og Jórunn fórum svo í ráðhúsið þar sem allir þeir sem urðu 70 ára voru boðnir í veitingar hjá borgarstjóra. Mér finnst þetta skemmtileg hefð sem hefur skapast og tíðkast í yfir 20 ár. Mér datt strax í hug að það væri frábært að gera þetta fyrir alla þá sem verða 6 ára á árinu og bjóða börnin velkomin í skólakerfið. Ég verð að viðurkenna að mér fannst ansi langt gengið af öllum framboðum að spranga þarna um í leit af atkvæðum og ég lét mig fljótlega hverfa af vettvangi.

Vikan framundan er þéttbókuð hjá mér, bæði í framboðsmálum og í vinnu. Helgin hefur verið löng en samt gjöful, sérstaklega þó fyrirlestur Mitchel Resnicks í Orkuveituhúsinu þar sem hann kynnti verkefnið Prolonging Kindergarten Education. Verkefnið byggir á hugmyndafræði leikskólans þar sem börn læra í gegnum leik. Verkefnin tengjast sköpun í gegnum tölvur og í OR var sýning nemenda á verkefnum sem þau höfðu unnið með teymi Resnicks. Frábærar hugmyndir og það sem var mikilvægast, frábærlega áhugasamir nemendur og foreldrar. Ég vona að við getum fundið þessu góða verkefni stað í kerfinu hjá okkur.

Grein af Mbl: Tími til að leyfa fagfólki að blómstra

Fjölskyldustefna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík tekur á málefnum skólabarna á heildstæðan hátt. Fyrst og síðast er horft út frá þörfum reykvískra nemenda. Til að ná fram sem bestum upplýsingum um þarfir líðan nemenda þarf að huga sérstaklega að skoðunum foreldra og kennara með það að leiðarljósi að búa til enn betra skólakerfi. Fjölskyldustefna Sjálfstæðisflokksins tekur mið af mörgum þeim kröfum sem heyrst hafa hjá þessum mikilvægu hagsmunaaðilum barna.


Foreldrar óska eftir nánara samstarfi við grunnskólann og sérstaklega við bekkjarkennara barna sinna. Upplýsingar um líðan og árangur í skólanum skipta þá höfuðmáli. Betri upplýsingar til foreldra geta krafist viðbótar framlags af kennurum. Viðbótarframlag foreldra í skamskiptum við skólana getur orðið til þess að börnum gengur betur að fóta sig í námi og starfi. Gott samstarf foreldra og kennara hefur bein áhrif á líðan barna. Við viljum efla foreldrastarf með því að gefa skólum og nærþjónustu úr hverfum meira frelsi til að byggja upp markviss tengsl milli heimila og skóla á sínum forsendum.


Kennarar hafast við á ólíkan hátt og kenna á ólíkum hugmyndafræðilegum grunni. Þeir vilja sveigjanleika í starfi og umhverfi til þess að njóta sín sem best og á sínum faglegu forsendum. Skólar eiga að vera fjölbreyttir og hafa ólíkar hugmyndafræðilegar stefnur til að mynda það andrúmsloft sem hentar hverjum skóla fyrir sig. Það eru óteljandi aðferðir til að nálgast sömu markmiðin í leik, uppeldi og námi. Við viljum leyfa kennurum að njóta þess að kenna miðað við sína styrkleika með því að minnka miðstýrða stjórnun og styrkja endurmenntun í fagkennslu fremur en kennsluaðferðum.


Stefnumótandi aðilar um skólastarf eiga að stefna að minni miðstýringu. Skólastjórnendur og kennarar þurfa að fá meira sveigjanleika til að stýra skólum sínum að settum markmiðum enda menntaðir vel til starfsins. Kennarinn er fagmaðurinn um kennslu barna og aðhlynningu þeirra á skólatíma og leiðtogi starfsins í nemendahópnum. Foreldrar, nemendur, stjórnendur og ýmsir aðrir hagsmunaaðilar og þjónustuaðilar skólans eru hluti af liði kennarans. Huga þarf að upplýsingastreymi milli allra þessara aðila til að barninu líði sem best og eigi ánægjulegan vinnudag í skólanum. Við viljum hvetja til þessara vinnubragða í átt að fjölbreytileika, árangurs og gæða með sérstökum skólasamningum sem veita skólastjórnendum og kennurum meiri sveigjanleika og frelsi um skipulag, hugmyndafræði, skólanámskrá, fjármuni og faglega stjórn.

Álver í Helguvík

Á fimmtudaginn á stjórnarfundi í Orkuveitunni samþykkti stjórnin að forstjóri kannaði fýsileika þess að aðstoða við uppbyggingu á Suðurnesjum með athugun á raforku til álvers í Helguvík. Ég hef lýst skoðun minni opinberlega á þessari álversvæðingu okkar en samþykkti hiklaust þessa tillögu. Hún felur ekki í sér neinar skuldbindingar fyrir Orkuveitu Reykjavíkur þrátt fyrir að sumir fjölmiðlar kjósi að túlka þetta þannig og er viðleitni okkar Reykvíkinga til þess að aðstoða þegar þessi breyting á sér stað á varnarmálunum.

Ég lýsti þó yfir á fundinum að ég vildi að það yrði sérstaklega tekið mið að því að stækkun álversins í Straumsvík skipti höfuðmáli við ákvarðanatöku sem þessa því jafnvel gæti stækkun Alcan haft jafn mikil eða meiri áhrif á fjölgun starfa fyrir Suðurnesin eins og að ráðast í nýtt álver. OR og Alcan eru enn í viðræðum um kaup á raforku frá OR fyrir stækkunina. Að vísu ræðst það líklega í bæjarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði hvort að af stækkun verður því núverandi meirihluti hyggst bera það undir kjósendur hvort stækkun eigi að verða eður ei.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband