Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Ein tölva fyrir hvert barn

Draumur Nicholas Negroponte stofnanda Rannsóknarseturs í upplýsingatækni hjá MIT hefur ræst með framleiðslu XO tölvunnar.   Fartölva á barn (one laptop per child) hefur verið verkefni á borðinu hjá Negroponte í 5 ár.   Draumurinn var að börn í þróunarlöndum fengju tækifæri til að læra á tölvur eins og önnur börn í heiminum, og að tölvan kostaði ekki meira en 100$.   Framleiðslan er nú hafin og miðað er við að fyrstu börnin fái tölvur í október á þessu ári.  XO kostar nú 176$ en vonast er til að framleiðslan gangi svo vel að eftir ár eða svo verði tölvan á 100$ hver.Skjámyndin

Margt þurfti að þróa og tryggja áður en að framleiðsla gat hafist.   Fyrsta vandamálið var að finna orkugjafa.  XO tölvan gengur fyrir batteríum, sólarorku, lítilli vindmillu og fót- og handstigi.   Tölvan er helmingi léttari en venjuleg fartölva og gengur helmingi lengur á fullri rafhlöðu.  Mikið hefur verið lagt í að tryggja að vélarnar komist á netið.  Vélin er hönnuð þannig að hún hitnar ekki mikið og þarf því ekki nein viftukerfi.  Allir takkar og kerfi eru hönnuð fyrir notkun úti við og skelin er úr gúmmíi.  Ég fer nú ekki yfir meira af tæknilegum þáttum hér, en áhugasamir geta skoðað meira á þessari síðu.

Þetta er alveg stórkostlegt mál.  Ég hugsa að ekkert verkefni styðji jafnvel við menntun í vanþróaðri löndum  eins og þetta mun gera.  Við ræðum oftar en ekki um neikvæðu hliðar tölvuvæðingar en þetta mun á nokkrum árum hafa jákvæð áhrif í fátækari hluta heimsins.  Þetta vekur þó upp fjölmargar spurningar um afleiðingar í samfélagslegum skilningi.

Meira um þetta magnaða verkefni:  OLCP, grein úr The Economist

 


Stæði í vinnu hlunnindi?

Ég velti því fyrir mér eftir umræður við góðar vinkonur í gærkvöldi hvers vegna bílastæði við vinnustað séu ókeypis.  Eins og við vitum öll þá er ekkert ókeypis og mjög dýrt fyrir fyriræki og stofnanir að vera með land og umhirðu í kringum stæði og bíla. 

Ef að við gefum okkur að allir séu sammála um að það kosti fyrirtæki pening að reka stæði fer maður að hugsa hvort að sá sem velur Strætó sem ferðamáta í vinnunna ætti ekki að fá sambærileg hlunnindi og sá sem leggur í stæðið.   Það er aðeins munur þarna á, starfsmaðurinn á bílunum greiðir jú fyrir bílinn sinn og umhirðu við hann en samt mætti segja að þar sem starfsmaðurinn sparar fyrirtækinu rekstur eins stæðis þá ætti hann kannski réttilega að fá í staðinn aurinn sem fyrirtækið sparar.

Þessi hugsun grundvallar þau nútímalegu fyrirtæki sem setja sér samgöngustefnu og leggja ólíka ferðamáta að jöfnu.  Fyrirtæki reikna sér til þá upphæð sem þeir telja sig geta lagt til starfsmann sem ferðamátahlunnindi.  Síðan eru í boði ólíkir ,,pakkar".   Einn pakkinn er stæðið og starfsmaður greiðir þá viðbótarkostnað við stæðið í vinnunni ef það er dýrara en ferðamátahlunnindaupphæðin.  Einn pakkinn er fyrir göngugarpinn og hjólamanninn og er ákveðinn fjöldi leigubíla og kannski eingreiðsla.   Þriðji pakkinn er árskort í Strætó og ákveðinn fjöldi daga sem þú getur lagt, dagana sem þú verður að skutlast í búð eða í leikfimi.

Mér finnst þetta eina vitið og hvet fyrirtæki til að byrja á því að skoða hvað landið kostar sem öll bílastæðin sitja á og hvort þeir geti sparað peninga um leið og þeir hvetja til umhverfisvænni ferðamáta.


Æ, en leiðinlegir bakþankar

Eins og ég er alltaf ánægð með bakþanka og þætti Dr. Gunna þá finnst mér pistillinn í dag (26. júlí) afar súr.   Pistillinn er neikvæður og endurspeglar hugmyndir þeirra sem finnst Ísland vera smáborgaralegt land.  Endurspeglar gagnrýni á landsbyggðina og líkir henni við Strætó.  Ég vona að Dr. Gunni ætli ekki hringinn á næstunni því hann á ekki marga vini úti á landi eftir þennan pistil.

Almennt finnst mér steikt að dæma harkalega hópa sem maður samsamar sig ekki sem hluta af.   Eins og í þessu tilfelli notendur Strætó og íbúa úti á landi.   Okkar hlutverk er að skilja aðstæður allra og styðja við framþróun í þeirra málum ef þess er kostur - ekki að gagnrýna og nöldra.  Það hefði að minnsta kosti hinn mikli höfðingi Einar Oddur sagt.

 


138 biðstöðvar fá nafn á næstunni

Þetta er eitt af grænu skrefum borgarinnar í átt að bættri þjónustu við notendur Strætó.   Ekki síst þykir mér þetta framtak vera gott fyrir foreldra sem vilja mögulega fara að kenna börnum sínum á borgina og hvernig vagnarnir virka.   Við verðum að átta okkur á því að borgin er orðin ansi stór og að sama skapi eru kennileiti í borginni mörg.   Við eigum að nota þau í miklu meira mæli.  Það var skemmtilegt að taka þátt í að keyra um borgina og finna nöfn á öll þessi skýli.   Það er ýmislegt augljóst við nafngiftina (t.d. að Vonarstræti heiti Ráðhús) en annað vekur kannski upp spurningar fyrir suma (Gamla sjónvarpshúsið). 

Því miður verður ekki hægt að nefna allar biðstöðvar með skiltum í borginni fyrr en skýlin endurnýjast en smátt og smátt verður hægt að nefna flest skýli.   Þessi 138 eru þau skýli sem eru á fjölförnustu vegunum og sjást vel.  Á þau mun líka koma nafn á hlið skýlis auk þess sem að númer þeirra vagna sem stöðvast við þetta skýli verður líka við hlið nafnsins á skýlinu.

19. ágúst hefst vetrarleiðakerfi Strætó bs.   Þá verða komnar tímatöflur í öll skýli sem eru lík þeim sem sjá má erlendis og gefa upplýsingar um hvenær vagninn er á þeirri stöð sem viðkomandi er á.   Hingað til hafa notendur leið 18 á Bústaðavegi þurft að áætla komu vagnsins út frá t.d. Mjódd og Borgarsspítala en nú mun á stoppistöðinni Grímsbær standa hvenær vagninn á að mæta á stoppistöðina Grímsbæ.

Nú líður líka að því að frítt í strætó verkefnið okkar hefjist.  Framhaldsskólanemar og háskólanemar í Reykjavík og vonandi í nágrannasveitarfélögunum fá frítt í Strætó í vetur.   Það verður gaman að sjá viðbrögð samfélagsins.  Mikilvægt er að á sama tíma taki skólar og stofnanir sig til og skoða hjá sér hvort þær geti ekki lagt sitt af mörkum, t.d. með gerð samgöngustefnu fyrir fyrirtækið eða með því að setja gjaldskyldu á stæðin sín.   Það kostar fyrirtæki miklu meira að halda úti stæðum fyrir starfsfólk heldur en að styrkja það með strætókorti og ákveðnum fjölda leigubílaferða.


mbl.is Fyrsta strætóstöðin nefnd „Verzló"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarfrí - færri færslur í bili

Nú er komið að mér að njóta sumarsins á Íslandi.    Lítið verður því um blogg þar til í ágúst.  Að vísu er veðurspáin ekki neitt sérstök nú loksins þegar ég get notið þess að vera úti.   En það skiptir ekki öllu, það er nóg að gera, góðar bækur (Women in the fifth, Court of the red Czar og The intrepretation of murder), góð tónlist (Amy Winehouse, nýja platan með Travis og svo nokkrir klassískir eins og James Taylor og Ray Charles eru nýjustu plöturnar á Itunes hjá mér).   Ekki má gleyma nokkrum DVD myndum sem ég hef fjárfest í en ekki enn gefið mér tíma í að sjá (Brokeback mountain og Borat) og svo ef rignir eru alltaf hægt að koma sér í góðan fíling með klassískum eins og Groundhog day, Pretty women og Friends þáttum.   Að auki er planið að fara ,hálfan hringinn' í kringum landið með góðum vinum, ganga Hornstrandir um verslunarmannahelgina og kíkja hvort að ekki sé hægt að rífa eina bleikju eða svo upp úr einhverri á.  Ekta fínt plan.

Njótið sumarsins kæru vinir.  Happy


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband