Skammir eða hól?

“Við mig hefur verið sagt að ég hafi gert frábæran viðskiptasamning sem mér yrði hælt fyrir í viðskiptalífinu en af því ég er í stjórnmálum þá er ég skammaður.” 


Af þessum orðum Björns Inga á borgarstjórnarfundi 10. október er ljóst að hann taldi samninginn um samruna REI og Geysis Green Energy bæði frábæran og sitt eigið verk.  Þetta er áhugavert að hafa í huga þegar helstu niðurstöður eru skoðaðar úr álitsgerð sem Ársæll Valfells vann fyrir hönd Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands að beiðni stýrihóps um málefni OR. Í niðurstöðum álitsins sem eru birtar að hluta í Morgunblaðinu í gærmorgun kemur m.a. fram að: 

  1. Ekki komi fram hvernig 16 milljarða kr. verðmæti REI og 27,5 milljarða verðmæti GGE sé fundið
  2. Ekki komi fram í samningnum hver áhætta OR sé vegna skuldbindingar um að selja hlutafé eða hvernig meta beri áhættuna
  3. Ekki heldur hvernig gengið 2,77 við útgáfu hlutabréfa REI sé fundið
  4. Ekki liggi fyrir mat á aukningu rekstraráhættu OR eða annarra áhrifa á rekstur eða rekstrarhæfi OR vegna ótakmarkaðs aðgangs REI að tilteknum framleiðsluþáttum þess
  5. í þjónustusamningi á milli OR og REI sé hvergi fjallað um verð framleiðsluþátta eða magn, en slíkt sé þó grundvöllur mats á verðmætum í skiptum

Og þetta telur Björn Ingi “frábæran viðskiptasamning”?  Þeir aðilar sem ég hef talað við úr viðskiptalífinu segjast aldrei hafa heyrt um eins “bjánaleg vinnubrögð” í samningagerð. Það væri kannski ekki úr vegi að Björn Ingi upplýsi hvaða fólk í viðskiptalífinu hann vitnar í hér að ofan? 

Það er óásættanlegt fyrir borgarbúa ef Björn Ingi sest aftur í stjórn Orkuveitunnar eftir að hafa brugðist trausti borgarbúa eins hrapalega í samningum fyrir þeirra hönd og kemur fram í punktunum fimm hér að ofan. 

Að lokum: Ég veit ekki til þess að neinn sem tengist málinu fyrir hönd Reykjavíkurborgar hafi enn svo mikið sem séð efnahags- eða rekstrarreikninga Geysis Green Energy.


X-listinn hækkar gjöld

Nýr meirihluti í borginni, X-listinn eins og hann kallar sig í fundargerðum borgarstjórnar, tók fyrsta tækifæri sem bauðst og hækkaði mat í leikskólum.   Ég minni á að allir þessir flokkar, allir fjórir vildu gjaldfrjálsan leikskóla í síðustu kosningabaráttu og nýlega var VG með tillögu um gjaldfrjálsa skóla (og vísuðu þá líka til að matur væri foreldrum að kostnaðarlausu).  

Borgarstjóri, Dagur B. Eggerstsson sagði á síðasta borgarstjórnarfundi að þessi meirihluti ætlaði ekki að koma með málefnaskrá fyrir borgarbúa.   Ætla Reykvíkingar að leyfa þeim að komast upp með það að semja um málefni?  Á að brjóta alla hugmyndafræðilegar áherslur og láta málin bara dúllast áfram?   Þetta verður afar dýr meirihluti.


Smjörklípuleikurinn

Mér finnst mikilvægt að birta hvað forsætisráðherra, Geir H. Haarde sagði, þegar hann var spurður í kjölfar yfirlýsinga fyrrverandi kosningastjóra Framsóknarflokksins og fyrrverandi upplýsingafulltrúa Félagsmálaráðherra Árna Magnússonar.  Pétur Gunnarsson segir á síðu sinni að Geir hafi gefið samþykki og blessun sína á samruna REI.  Í kjölfarið á smjörklípu númer skrilljón í þessu máli vitnar Björn Ingi í vin sinn Pétur Gunnarsson á sinni síðu og ,,staðfestir" að ,,Geir hafi litist vel á ráðahaginn" á heimasíðu sinni. 

Það vill svo til að ég og margir aðrir sátu á þessum fundi líka og það eina sem var sagt að iðnaðarráðherra og forsætisráðherra hefði verið kynntur samruninn.  Engar gildishlaðnar setningar fylgdu um skoðun þessara manna.  Framsóknarmenn halda bara uppteknum hætti að taka sannleikskorn úr fórum sínum og spinna miklum ásökunum í kringum þau.

Þetta er allt skemmtilegur spuni hjá Framsóknarmönnunum en endurspeglar helst hversu óöruggir þeir eru orðnir og hversu mikið sokknir þeir eru í drulluna.   Geir H. Haarde segir við fréttastofu útvarpsins að þarna sé tóm vitleysa á ferðinni, honum hafi verið sagt frá þessu lauslega í tveggja manna tali og aldrei skýrt frá málavöxtum.  Hér eru hans eigin orð þegar Einar Þorsteinsson spyr hann um málið í fréttum útvarps:

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins:

Sko fréttirnar af þessu eru alveg furðulegar og til marks um afar óvandaðan málatilbúnað af hálfu þeirra sem hafa í Framsóknarflokknum verið að setja þetta á flot. Fyrrverandi borgarstjóri sagði mér frá því lauslega í tveggja manna tali að þetta hefði borist í tal. Mér voru ekki sýndir neinir pappírar eða beðinn um afstöðu í þessu máli og það er algerlega fjarri því. Og þeir sem eru að draga þetta fram núna eru að reyna að draga athyglina frá aðalatriðinu, semsagt því hvernig þessu máli var klúðrað í, í þessu samrunaferli.

Einar Þorsteinsson: Kynnti hann þér ekki þessar fyrirætlanir efnislega, nákvæmlega?

Geir H. Haarde: Nei. Það stóð aldrei til.

Einar: Ekki með tuttugu ára samninginn eða?

Geir H. Haarde: Nei nei nei, aldeilis ekki. Engin efnisatriði. Heldur var mér sagt, sagði hann mér frá því að, að þetta hefði borist í tal. Og hvenær sagði hann mér frá því, það var 28. september svo við höfum það nú alveg nákvæmt. Einar: Þannig að þú hefur ekki lagt blessun þína yfir samninginn?

Geir H. Haarde: Nei ég var ekki beðinn um neitt álit á því. Og, og lagði hvorki blessun mína né annað yfir, yfir það mál.

Ætlar Björn Ingi að draga þessar ásakanir sínar til baka?  Eða ætlar hann að þræta fyrir hvað hver sagði í Stöðvarstjórahúsinu og í samtölum borgarstjóra fyrrverandi og forsætisráðherra? Ætlar Valgerður Sverrisdóttir að spara stóru orðin?   Hvenær ætlar þetta fólk að líta í eigin barm?  En Guðni Ágústsson, þurfti Björn Ingi ekki blessun hans á málinu eins og gefið er í skyn að borgarstjóri hefði þurft?   Þetta er allt mjög ótrúverðugur spuni sem sýnir örvæntingu Framsóknarflokksins og tilraunir þeirra til að hreinsa sig af þessu skítuga máli.


Launin þurfa að fara á dagskrá

Ég var með erindi í morgun á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga um starfsmannamál á þenslutímum.   Erindið er hér í viðhengi en í raun eru svona glærur aldrei neitt sérstaklega góðar fyrir áhugasama til að setja umræðuna í samhengi.

Ég sagði frá stöðunni í borginni og vakti oftar en einu sinni athygli á því að það yrði að vera hægt að semja út frá sérstöðu sveitafélaga.   Við erum í þeirri stöðu í Reykjavíkurborg að við getum ekki greitt samkeppnishæf laun og nú ætla ég ekki að miða við einhverjar stéttir aðrar en kennara heldur benda á að leiguverð á íbúð um 100.000 kr. á mánuði í borginni.   Þessi leiga hækkar mjög hratt enda er leigumarkaðurinn ekki kominn í jafnvægi miðað við fasteignamarkaðshækkanir undanfarin ár.  Útborguð laun starfsfólk í leikskóla eru á bilinu 100-180.000 kr.  

Til viðbótar þessu fór ég yfir að samgöngukostnaður í borginni er orðinn mikill.   Við eigum í erfiðleikum með að manna skóla og stofnanir sem eru í útjaðri borgarinnar og ég tel án þess að hafa fyrir því tölfræði að það sé að hluta til vegna fjarlægða milli staða í borginni og þess tíma sem það tekur að ferðast á hverjum degi.  Ég setti hér inn færslu fyrir nokkru síðan sem reifaði hugmyndir tengt þessu.   Höfuðborgarsvæðið verður að geta mætt þessum eðlilega kostnaði sem hlýst af því að búa í borg.  Alls staðar erlendis er þetta raunin, börnum fækkar í borgum og skólastarf eflist í úthverfum á kostnað þéttbýlisins - oftast þar sem ekki er hægt að greiða kennurum hærri laun fyrir mismunandi aðstæður.

Að lokum ræddi ég komandi kjarasamninga.  Ég tel mjög mikilvægt að kynnt verði fyrsta skref, kannski af mörgum til lengri tíma, að hæfnismati kennara.   Kennarar hljóta að vera tilbúnir í þessa vinnu þegar þeir sjá aftur og aftur nýja og ferska starfsmenn gefast upp eða óhæfa starfsmenn hækka í launum.   Það getur ekki verið hollt árið 2007 að vera með samninga þar sem orðin hæfni, mat og gæði koma ekki fyrir.

Ég vona að sveitastjórnarmenn taki þessa umræðu lengra og setji skýrar línur um hvernig þeir ætli að láta launastefnu endurspegla aukin gæði fyrir foreldra, börn og samfélagið allt.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Össur í nammilandi

Össur minnti mig á eitt barnið í myndinni um Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna í dag í Silfrinu.   Verður maður ekki að krefjast þess af ráðherrum að þeir séu yfirvegaðir og varfærnir þegar þeir tala um milljarða fé skattgreiðenda?   Að slengja því fram fullyrðingum eins og að Íslendingar eigi eftir að fjárfesta um 2000 milljarða á næstu árum í orkuiðnaði erlendis eins og þetta sé bara allt á hálfvirði og gefa í skyn að engin áhætta sé fólgin í fjárfestingum af þessu tagi er í besta falli óábyrgt.  Öll fjárfesting er áhætta og þessi bransi er mjög áhættusamur.   Össur talaði líka mjög óskýrt um hvort hann liti á þessi verkefni sem þróunaraðstoð eða sem hagnaðarvon.

Mér finnst líka áhugavert að heyra Össur gagnrýna félaga mína, Kjartan Magnússon og Júlíus Vífil,  í stjórn OR og segja þá skipta um skoðun þegar þeir sátu hjá við ákvörðun um stuðning OR við 15 milljarða króna fjárfestingar á Filipseyjum.  Hann er upptekinn af þessu, svo upptekinn að hlýtur að missa svefn yfir skoðanaskiptum Samfylkingarinnar í  stóra REI málinu.  Fulltrúar Samfylkingarinnar voru nefnilega sammála samruna og 20 ára samningi fyrst en svo ógilti fulltrúi þeirra samrunann í stjórn OR á föstudaginn.  Sinnaskipti, hugmyndafræðileg breyting eða afleiðingar meirihlutasamstarfs við þrjá aðra flokka?

Rifjum upp setningar úr grein Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Sigrúnar E. Smáradóttur sem tekur við formennsku í stjórn OR fljótlega ( önnur greinin birtist 7. október sl. og hin 9. október).:

,, ... samruni REI og GGE getur þrátt fyrir allt verið skref í rétta átt í útrás íslenskra orkufyrirtækja. Ekki leikur vafi á því að sameinað fyrirtæki stendur sterkar að vígi í verkefnum sínum erlendis en fyrirtækin sitt í hvoru lagi. "

,,...ánægjulegt við þennan samrunasamning er að viðskiptavild og orðspor Orkuveitu Reykjavíkur er metið í samningnum á 10 milljarða. Þessir 10 milljarðar eru þannig metnir til viðbótar við framlag OR í peningum og efnislegum eignum, meðan aðrir eignast sinn eignarhlut í félaginu með því að leggja eignir og peninga inn í félagið. Í samningnum um samrunann er Orkuveita Reykjavíkur því að njóta þeirrar þekkingar og reynslu sem orðið hefur til í fyrirtækinu og íslenska orkuútrásin byggist á.“

,,...með þessu er ég ekki að segja að OR eigi að vera í útrásarverkefnum til framtíðar, einungis að velja þurfi tímasetninguna til að selja tugmilljarða hlut Orkuveitunnar í REI útfrá öðrum þáttum en innanflokksátökum í Sjálfstæðisflokknum."

1. nóvember samþykktu fulltrúar Samfylkingarinnar að ógilda samrunann.  Samt voru þau sammála samrunanum, sammála útrás OR og sammála 20 ára samningnum. 

Hvað finnst Össuri um þessi sinnaskipti ef hann agnúast yfir hjásetu við 15 milljarða króna fjárfestingar á Filipseyjum (þar sem ríkir mjög óstabílt stjórnar og efnahagsástand)?


Borgarfulltrúi hittir fjárfesta í London

Það er áhugaverð fréttaskýringin í Morgunblaðinu í dag, sunnudag.   Þarna kennir ýmissa grasa og ég fagna þessu því í Kastljósi 1. nóvember sl. voru söguskýringar Björns Inga með ólíkindum um málið.   Sérstaklega þykir mér áhugavert að heyra að 17. - 18. september fer Bjarni með stjórn REI, Birni Inga og Hauki Leóssyni, og heldur kynningarfundi í London með fjárfestum, s.s. Barcleys, JP Morgan, Morgan Stanley, Merryl Lynch og Novator.   Þarna kemur líka í ljós að Björn Ingi sat fyrstu samningafundi um samruna. Síðan tóku við samningafundir með mönnum sem lifa í viðskiptalífinu og skynja engan veginn kröfur um meðferð á opinberu fé og hvernig stjórnsýsla virkar.

Mér finnst þetta sérstaklega áhugavert út frá ýmsum orðum borgarfulltrúans Björns Inga sem hafa fallið og hafa gefið í skyn að hann sé blásaklaus af allri þessari framvindu (allt gert undir forystu Sjálfstæðismanna, áttar sig ekki á hvers vegna málið þurfti að ganga svona hratt, heldur að hann hafi ekki beitt sér með óeðlilegum hætti) og að hann líti ekki á það sem sitt hlutverk að upplýsa borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir að sitja með okkur meirihlutafundi tvisvar í viku og þó að við á þessum tíma værum á hverjum fundi að óska eftir upplýsingum um málefni OR.

Hvernig ætli Björn bloggi á morgun um málið?


Ekkert annað hægt en að ógilda

Úr fundargerð borgarráðs:

  1. Borgarráð fellst ekki á samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy og telur jafnframt að þjónustusamningur Orkuveitunnar og Reykjavík Energy Invest sé óásættanlegur.
  2. Borgarráð telur að eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur 3. október síðastliðinn og þær ákvarðanir sem þar voru teknar séu haldnar miklum annmörkum og mikinn vafa leika á um lögmæti fundarins.
  3. Borgarráð samþykkir jafnframt að beina því til fulltrúa borgarinnar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að ljúka málinu í samræmi við þessa niðurstöðu borgarráðs.
    greinargerð fylgir tillögunni

Þetta eru að mínu mati ánægjuleg tíðindi úr ráðhúsinu.   Málið var orðið að slíkri ormagryfju að ekki hefði verið hægt að laga eða bæta samrunann að nokkru ráði.   Þrælasamningur til tuttugu ára, mjög vafasöm lögfræðileg atriði og jafnræðisspurningin, ekkert af þessu hefði verið hægt að laga og því aðeins eitt í stöðunni, að stoppa þetta allt.  Það kom líka fram í borgarráði í dag að stýrihópurinn á að fá lögfræðilega ráðgjafa til að skera úr um lögfræðileg álitaefni varðandi forsendur og framkvæmd samrunans.

Nú er hins vegar ljóst að nýr meirihluti verður að fara að koma með skýra línu um hvað eigi að gera næst.  Ætlar nýr meirihluti að endurtaka samrunann?   Fjárfestar að baki Geysi Green Energy hafa engan áhuga á samruna nema tvennt fylgi, annars vegar 20 ára samningurinn um þekkingu OR og starfandi félag í raforkuframleiðslu (Hitaveita Suðurnesja).  Eru fulltrúar VG í borgarstjórn sammála eða ósammála forystu VG um að OR eigi ekki að stunda útrás nema sem þróunaraðstoð?  Eru fulltrúar Samfylkingarinnar ekki sannfærð um að þetta sé gott og mikilvægt til að Reykvíkingar græði á þekkingunni sem í Orkuveitunni er?  Hvað með Frjálslynda flokkinn eða hina óháðu eins og Margrét Sverrisdóttir kallast þessa dagana?   

Vitum við skoðun Framsóknarmanna á málinu?   Eru Framsóknarmenn, og þá sérstaklega forystaflokksins, sammála Birni Inga um skoðun hans?   Eru Framsóknarmenn sammála því sem Björn Ingi Hrafnsson sagði í borgarstjórn 10. október sl.: ,,Ég tel að við eigum að vera í fyrirtæki af þessu tagi.  Ég tel að hlutur okkar muni vaxa að verðmæti á næstu árum landi og þjóð til heilla.”  eða ánægðir með sýn hans á tengsl viðskiptalífs og einstakra borgarfulltrúa  ,,Við mig hefur verið sagt að ég hafi gert frábæran viðskiptasamning sem mér yrði hælt fyrir í viðskiptalífinu en af því ég er í stjórnmálum þá er ég skammaður.”

Getur ekki verið að einhverjir Framsóknarmenn spyrji sig hvers vegna Björn sleit meirihlutanum út af þessu máli þegar hann beygir sig í duftið í dag og gefur allt eftir? Hvers vegna hann fórnaði mjög fínum málum sem voru á góðri leið með að verða að veruleika (eins og t.d. mislæg gatnamót) og yfirgefur gott samstarf í fjórhöfða REI stjórn sem enn hefur ekki sett nein stefnumál fram.  

Líklega eru ekki öll kurl komin til grafar og það er ljóst á fréttum kvöldsins að fjárfestar telja borgina ekki hafa nein völd til að stöðva málið. En spurning dagsins er, hvernig ætlar REI stjórnin að standa að útrás OR á kjörtímabilinu? Ætlar hún að tryggja að FL group haldi fjárfestingu sinni inni á ársfjórðungnum svo hægt sé að sýna viðskiptatækifæri og samninga sem nást aðeins með aðkomu OR?  Ætlar hún að tryggja að Bjarni Ármannsson verði áfram andlit Orkuveitu Reykjavíkur hérlendis sem erlendis í áhættufjárfestingum borgarbúa?  Ætlar hún að tryggja að starfsmenn OR séu leigustarfsmenn áhættufyrirtækis með þriggja mánaða fyrirvara?


Ástæða til upprifjunar

Nú þegar líður að ákvörðun stýrihóps um hvort endurtaka eigi eigendafundinn eða ógilda samruna REI og GGE finnst mér  ástæða til að endurbirta hér frétt úr Morgunblaðinu 14. október.  Þessu til viðbótar er við hæfi að rifja upp orð Björns Inga á þessum sama fundi um að þessi samruni snerist um hans pólitísku framtíð.

Og þá kemur greining Þorsteins Pálssonar í leiðara Fréttablaðsins upp í hugann, hver lútir í gras, Björn Ingi eða Svandís Svavarsdóttir.



Sunnudaginn 14. október, 2007 - Innlendar fréttir

Vildi styðja samrunann aftur þó fundur yrði dæmdur ólöglegur

Á SÍÐASTA meirihlutafundi fráfarandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur lagði Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, fram minnisblað, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins litu á sem úrslitakosti af hans hálfu fyrir áframhaldandi samstarfi. Þeir litu svo á, að í hugmyndum Björns Inga fælist ekkert annað en að haldið yrði áfram óbreyttri stefnu í málefnum Orkuveitunnar og því væru þær ekki aðgengilegar af þeirra hálfu.

Morgunblaðið hefur þetta blað undir höndum og er texti þess á þennan veg:

"1. REI er eðlilegt framhald á útrásarverkefnum Orkuveitu Reykjavíkur. Ákveðið að styðja við bakið á því. Bjarni Ármannsson verði áfram stjórnarformaður, aðrir fulltrúar OR innan stjórnar verði ekki stjórnmálamenn, en tenging við stjórn OR verði tryggð.

2. Ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að vera einn af lykileigendum slíks fyrirtækis til lengri framtíðar, þar sem slíkt krefðist aukins áhættufjármagns og þátttöku í aukningu hlutafjár. Hlutverkið fremur að gera verðmæti úr þeirri þekkingu og reynslu sem OR og starfsfólk hennar býr yfir.

3. Ákveðið að í kjölfar skráningar félagsins verði stærstur hluti hlutabréfanna seldur, enda hafi þá gefist kostur á að auka virði þess til hagsbóta fyrir eigendur. Annaðhvort verði borgarbúum gefinn kostur á að taka þátt, eða þeir njóti þess með beinum hætti.

4. Verði eigendafundur af einhverjum ástæðum dæmdur ólögmætur verði boðað til hans aftur og þá muni fulltrúar Reykjavíkur styðja samrunann aftur í samræmi við fyrri stefnumótun.

5. Upplýsingagjöf vegna fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar og/eða dótturfyrirtækja þeirra verði efld og haldnir reglulegir kynningarfundir með kjörnum fulltrúum.

6. Fulltrúar Reykjavíkur bera fullt traust til starfsmanna Orkuveitunnar og dótturfyrirtækja hennar."




Siglfirðingar framhald

Ég fékk tölvupóst í gegnum föður minn frá áhugamanni um ættfræði Siglfirðinga.   Það hefur einhver tekið að sér að skoða borgarfulltrúana líka, kannski vegna færslu minnar um daginn.  Birti tölvupóstinn hér að neðan en enn vantar upplýsingar um Sóleyju Tómasdóttur.

Pabbi er að vísu fæddur í Reykjavík en flutti nokkurra vikna norður.  Afi er ættaður úr Fljótunum en amma var frá Vestmannaeyjum og hitti afa fyrir norðan.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og borgarstjóri, er sonur Eggerts Gunnarssonar dýralæknis og Bergþóru Jónsdóttur lífefnafræðings. Bergþóra er fædd á Siglufirði, dóttir Jóns Hjaltalíns Gunnlaugssonar, sem var heimilislæknir þar frá 1947 til 1955.

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er dóttir Þórunnar Jensen og Frímanns Gústafssonar trésmiðs, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði, sonur Gústafs Guðnasonar olíubifreiðastjóra og Jórunnar Frímannsdóttur sem býr á Siglufirði.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er dóttir Vigfúsar Árnasonar endurskoðanda, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði, sonur Helgu Hjálmarsdóttur og Árna Friðjónssonar síldarsaltanda (bróður Vigfúsar Friðjónssonar). Móðir Þorbjargar Helgu er Ólöf G. Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur. Afi hennar var Sveinbjörn Jónsson byggingameistari, framkvæmdastjóri Ofnasmiðjunnar, en hann var oft á Siglufirði á fyrri hluta tuttugustu aldar.

 

Þá má geta þess að Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, á mikið af skyldfólki á Siglufirði. Afi hennar í móðurætt er Benedikt Kristinn Franklínsson, bróðir Guðbjargar, Guðborgar, Margrétar og Nönnu Franklínsdætra. Afabróðir Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, var Ólafur Ragnars síldarsaltandi á Siglufirði.

 


Nýjar útfærslur

Það er nú ekki nema rétt rúm vika síðan að áhugasamir Fossvogsbúar áttu viðtal hjá fyrrverandi borgarstjóra, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, um þetta mál.   Þessir nágrannar mínir eru með mjög skemmtilegar hugmyndir um laug í dalinn og nokkrar nýstárlegar útfærslur.  Ég fagna því að þetta mál fari á hreyfingu hjá nýjum borgarstjóra enda teljum við Fossvogsbúar að dalurinn verði enn eftirsóttara útivistarsvæði ef laug kemur hingað.   Fossvogsskóla sárlega skortir laug til að kenna í en börnin eru að fara í rútum eftir skólatíma í Breiðholtslaug.

Ég verð samt að segja að mér finnst nýr meirihluti ekki mikið vera að horfa til þess að borgarsjóður stendur höllum fæti.   Að mínu mati eru laugar ekki forgangsverkefni þó ég styðji málið.   Við tókum við borgarsjóði í 7 milljarða króna halla eftir kosningar og tókum ærlega til hendinni.   Áætlanir voru um að gatið yrði 4 milljarðar um næstu áramót en stefndi í 1 milljarð.   Þessi lína heyrist ekki hjá hinum nýja meirihluta, þ.e. að spara eigi í rekstri og ná niður skuldahalanum.


mbl.is Sundlaug í Fossvog
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband