Ekkert annað hægt en að ógilda

Úr fundargerð borgarráðs:

  1. Borgarráð fellst ekki á samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy og telur jafnframt að þjónustusamningur Orkuveitunnar og Reykjavík Energy Invest sé óásættanlegur.
  2. Borgarráð telur að eigendafundur Orkuveitu Reykjavíkur 3. október síðastliðinn og þær ákvarðanir sem þar voru teknar séu haldnar miklum annmörkum og mikinn vafa leika á um lögmæti fundarins.
  3. Borgarráð samþykkir jafnframt að beina því til fulltrúa borgarinnar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að ljúka málinu í samræmi við þessa niðurstöðu borgarráðs.
    greinargerð fylgir tillögunni

Þetta eru að mínu mati ánægjuleg tíðindi úr ráðhúsinu.   Málið var orðið að slíkri ormagryfju að ekki hefði verið hægt að laga eða bæta samrunann að nokkru ráði.   Þrælasamningur til tuttugu ára, mjög vafasöm lögfræðileg atriði og jafnræðisspurningin, ekkert af þessu hefði verið hægt að laga og því aðeins eitt í stöðunni, að stoppa þetta allt.  Það kom líka fram í borgarráði í dag að stýrihópurinn á að fá lögfræðilega ráðgjafa til að skera úr um lögfræðileg álitaefni varðandi forsendur og framkvæmd samrunans.

Nú er hins vegar ljóst að nýr meirihluti verður að fara að koma með skýra línu um hvað eigi að gera næst.  Ætlar nýr meirihluti að endurtaka samrunann?   Fjárfestar að baki Geysi Green Energy hafa engan áhuga á samruna nema tvennt fylgi, annars vegar 20 ára samningurinn um þekkingu OR og starfandi félag í raforkuframleiðslu (Hitaveita Suðurnesja).  Eru fulltrúar VG í borgarstjórn sammála eða ósammála forystu VG um að OR eigi ekki að stunda útrás nema sem þróunaraðstoð?  Eru fulltrúar Samfylkingarinnar ekki sannfærð um að þetta sé gott og mikilvægt til að Reykvíkingar græði á þekkingunni sem í Orkuveitunni er?  Hvað með Frjálslynda flokkinn eða hina óháðu eins og Margrét Sverrisdóttir kallast þessa dagana?   

Vitum við skoðun Framsóknarmanna á málinu?   Eru Framsóknarmenn, og þá sérstaklega forystaflokksins, sammála Birni Inga um skoðun hans?   Eru Framsóknarmenn sammála því sem Björn Ingi Hrafnsson sagði í borgarstjórn 10. október sl.: ,,Ég tel að við eigum að vera í fyrirtæki af þessu tagi.  Ég tel að hlutur okkar muni vaxa að verðmæti á næstu árum landi og þjóð til heilla.”  eða ánægðir með sýn hans á tengsl viðskiptalífs og einstakra borgarfulltrúa  ,,Við mig hefur verið sagt að ég hafi gert frábæran viðskiptasamning sem mér yrði hælt fyrir í viðskiptalífinu en af því ég er í stjórnmálum þá er ég skammaður.”

Getur ekki verið að einhverjir Framsóknarmenn spyrji sig hvers vegna Björn sleit meirihlutanum út af þessu máli þegar hann beygir sig í duftið í dag og gefur allt eftir? Hvers vegna hann fórnaði mjög fínum málum sem voru á góðri leið með að verða að veruleika (eins og t.d. mislæg gatnamót) og yfirgefur gott samstarf í fjórhöfða REI stjórn sem enn hefur ekki sett nein stefnumál fram.  

Líklega eru ekki öll kurl komin til grafar og það er ljóst á fréttum kvöldsins að fjárfestar telja borgina ekki hafa nein völd til að stöðva málið. En spurning dagsins er, hvernig ætlar REI stjórnin að standa að útrás OR á kjörtímabilinu? Ætlar hún að tryggja að FL group haldi fjárfestingu sinni inni á ársfjórðungnum svo hægt sé að sýna viðskiptatækifæri og samninga sem nást aðeins með aðkomu OR?  Ætlar hún að tryggja að Bjarni Ármannsson verði áfram andlit Orkuveitu Reykjavíkur hérlendis sem erlendis í áhættufjárfestingum borgarbúa?  Ætlar hún að tryggja að starfsmenn OR séu leigustarfsmenn áhættufyrirtækis með þriggja mánaða fyrirvara?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lýður Árnason

Sæl, Þorbjörg Helga.

Er sammála því að BIH sé holdgervingur óheiðarleikans í þessu máli öllu og hreinlega óþolandi að hann skuli halda sínu og láta sem ekkert sé.  Á hinn bóginn hafa borgarfulltrúar sjálfstæðisflokksins allir gert sig seka um kostulegt andvaraleysi og forkólfurinn um hreina glópsku.  Þið uppskerið nú í samræmi við það sem niður og fór og reyndar var ég mjög hlessa að þið skilduð líta við framsóknarmanninum á sínum tíma þegar þið höfðuð annan kost mun betri.   Vona samt að fólk læri af mistökunum og gangi þér vel í hvívetna.

Lýður Árnason, 2.11.2007 kl. 02:57

2 Smámynd: Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir

Ég er sammála þér Lýður, auðvitað átti ég og aðrir að veita málum meira aðhald.  Ég hef aðeins verið hugsi yfir þessu því þrátt fyrir að hafa óskað ítrekað eftir kynningu á málum OR fór það ofan garð og neðan.  Ég sit nú í minnihluta út af málinu og tel alla hafa gert mistök í málinu.  Mér finnst hins vegar ósanngjarnt að Vilhjálmur fyrrverandi borgarstjóri hafi setið undir þungum ásökunum, beðið afsökunar og missti völdin í borginni en sá maður sem vissi allt um málið (20 ára samning, kauprétti ofl.) finni ekki jafn mikið fyrir sínum þætti í málinu.

Takk fyrir góðar kveðjur.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, 2.11.2007 kl. 08:03

3 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sæl Þorbjörg,

Framhjá því verður ekki litið að Sjálfstæðismenn leiddu stjórn OR á þessum tíma.  Því bera þeir mesta ábyrgð á bæði því sem fór vel og því sem fór úrskeiðis eins og aðrir sem leiða stjórnir fyrirtækja.

Oddvitar allra flokka voru í stjórn OR.  Betri tengingu inn í borgarráð og borgarstjórn er varla hægt að hugsa sér.  Með slíka stjórn í fyrirtækinu (í raun  var nokkurn veginn allt borgarráð í stjórninni) hljóta stjórnendur þess að gefa sér að viðkomandi aðilar hafi umboð í sínu baklandi til að greiða atkvæði í stjórninni.  Efist þeir um umboð sitt hljóta þeir að fresta atkvæðagreiðslu og láta fara fram umræðu um viðkomandi mál í sínum ranni.

Samskiptamál innan hóps Sjálfstæðismanna virðast hins vegar ekki hafa virkað, þið gerðuð opinbera uppreisn í stað þess að ræða bara saman sem hópur og því fór sem fór.  Björn Ingi nennti ekki að vinna með ykkur og lái honum hver sem vill miðað við þær aðstæður sem voru uppi og ykkar málflutning á þessum tíma.

Nú er hins vegar farið að róast og markmiðið að læra af hildarleiknum.  Nú hefur nást þverpólitísk samstaða um að stoppa.  Það er í raun þverpólitísk samstaða um ekki neitt.  Eins og þú segir hér að ofan þá er lykilspurningin núna: Hver verða næstu skref?  Það er hin raunverulega spurning sem verður að fá svar gagnvart og það strax því sú óvissa sem niðurstaðan í gær skapaði er óþolandi.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 2.11.2007 kl. 11:33

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

ÞEtta lögðu menn til við ykkur í fyrri meirihluta, þið hefðuð betur farið að þeim ráðleggingum.

En betra er seint en ekki.

Með góðum kveðjum

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 2.11.2007 kl. 14:15

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Má vera að þið endurvinnið traust með tímanum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 2.11.2007 kl. 15:05

6 Smámynd: Gísli Hjálmar

Maður verður að spyrja sig í ljósi þess sem þú gefur í skyn í pistlum þínum; hvar varst þú, og allir hinir úr Íhaldinu, á meðan að þessi aðdragandi sameiningarinnar stóð yfir?

Kær kveðja, GHs 

Gísli Hjálmar , 4.11.2007 kl. 14:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband