Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Gagnleg heimsókn í leikskóla í Danmörku og Svíþjóð

Í síðustu viku fóru fulltrúar leikskólaráðs Reykjavíkurborgar og starfsmenn Leikskólasviðs í kynnisferð til Danmerkur og Svíþjóðar í þeim tilgangi að skoða almennt það sem gengur og gerist í leikskólamálum.  Við skoðuð marga ólíka leikskóla og hittum embættismenn og stjórnmálamenn.

Það var margt sem við lærðum og ekki síst lærðum við hvað kerfið er gott hér heima.   Hins vegar erum við alltaf að reyna að gera betur en í gær og fjölmargar hugmyndir og upplýsingar komu fram.   Mér fannst áhugavert að bæði í Danmörku og Svíþjóð eru ekki neinar reglur eða viðmið um stærð leikskólabygginga eða rýmiskrafa á hvert barn.   Í Svíþjóð er búið að afnema hámarkslaun kennara þannig að nú keppa sveitarfélög og hverfi í sveitarfélögum um kennara á forsendum faglegs starfs og aðbúnaðs.   Í Svíþjóð eru 45% leikskóla einkareknir.   Í Danmörku er mikill stuðningur við faglegt starf skólanna til að efla skólanámskrárgerð.   Bæði löndin eru með miðlæga skráningu fyrir börnin.  Svíar eru með 15 mánaða fæðingarorlof en lofa börnum plássi við 15 mánaða aldur ef barnið hefur verið skráð við 12 mánaða aldur (að vísu ekki í fyrsta val foreldra um skóla).  Foreldrar í báðum löndum borga fyrir þjónustu allt árið og yfirvöld gera ekki neina kröfu um að barn fari í frí(við rukkum fyrir 11 mánuði á þessum forsendum).  Í Stokkhólmi hafa yfirvöld mikil áhrif á hvaða hugmyndafræði er notuð í leikskólum (Reggio Emelio).

Það var margt annað áhugavert sem mun koma fram í skýrslu frá ferðahópnum.   Vona að sem flestir áhugamenn kynni sér hana.  Ég mun setja hlekk á síðuna þegar hún verður tilbúin fyrir áhugasama.

 


Yngri pólitík í borginni

Það verður áhugavert að vita hvort að einhverjar breytingar verða á borgarstjórn í ljósi þess að tveir borgarfulltrúar eru nú einnig orðnir þingmenn.    Árni Þór Sigurðsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingmenn Reykjavíkurkjördæmis gætu hugsað sér til hreyfings.

Annars fannst mér gaman að sjá hversu mikið meðaltalið í borgarráði lækkaði um daginn, nánar tiltekið 16. maí sl.  Mér telst til að meðalaldur kjörinna fulltrúa  sem sátu allan fundinn (Árni Þór vék af fundi) hafi verið 37 ár.   Allt í lagi, 39 ár ef Árni er talinn með!  Miðað við að meðalaldur þingmanna hafi hækkað nú efitr kosningar þá finnst mér gaman að vekja athygli á þessu. 

Oddný (1976)
Björn Ingi (1973)
Gísli Marteinn (1972)
Kjartan Magnússon (1967)
Hanna Birna (1966)
Björk Vilhemsdóttir (1963)
Árni Þór (1960)


Ný ríkisstjórn fæðist

Þetta var spennandi dagur í dag fyrir stjórnmálaáhugamenn og stjórnmálamenn.  Ég er í útlöndum núna og viðurkenni að ég var mikið að senda sms og kíkja á vefinn.  Nú liggur þetta ljóst fyrir og mér líst við fyrstu sýn vel á útdeilingu embætta.  Enn á hins vegar eftir að sjá hvernig nefndir þingsins skiptast sem að mínu mati fá of litla athygli og umræðu.  Aðalmálið er svo samningur nýrrar ríkisstjórnar um málefni sem verður kynntur á morgun.

Ég er sérstaklega ánægð fyrir hönd Þorgerðar Katrínar sem ég veit að hafði mikinn áhuga og metnað til að halda áfram í ráðuneyti menntamála.  Hún hefur oftar en ekki sagt að menntamálaráðuneytið sé mikilvægasta fagráðuneytið og ég er auðvitað sammála því.  Ég hefði viljað sjá fleiri konur í ráðherrastóla hjá mínum flokki og ég veit að Geir hefði viljað það sama.  Hins vegar er erfitt að ganga fram hjá efstu mönnum á lista flokksins eftir að prófkjör hafa farið fram.  Það má heldur ekki gleyma því að við missum eitt ráðuneyti frá okkur m.v. fráfarandi ríkisstjórn og kveðjum Sturla Böðvarsson sem hefur verið einstaklaga sterkur stjórnamálamaður og samgönguráðherra.

Mér líst vel á ráðherra Samfylkingarinnar.  Ég sakna að sjá ekki Ágúst Ólaf á ráðherralistanum, hann hefði vafalaust orðið öflugur viðskiptaráðherra fyrir flokkinn.  Ég vona að tími hans muni koma eins og tími Jóhönnu kom í dag.


Af hverju Ingibjörg frekar en Jón?

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins hefur verið til umræðu í dag.   Þar eru settar fram kenningar um að Ingibjörg Sólrún gæti auðveldlega slitið stjórnarsamstarfi eftir tvö ár og búið til minnihlutastjórn.  Að mínu mati er þetta ótrúleg fullyrðing um Ingibjörgu umfram aðra flokksformenn.  Hefði Jón eitthvað verið traustari til samstarfsins með mjög lítinn meirihluta og jafnvel betri kjötkatla í boði með vinstri stjórn?  Ég hefði nú viljað sjá sterkari rökstuðning á Mogganum gegn samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.

Hins vegar get ég alveg tekið undir ýmsar vangaveltur um hvernig er allt í einu að vinna með fólki í Samfylkingunni nú þegar allt stefnir í sterka ríkisstjórn þessara tveggja flokka.  Ég að minnsta kosti finn að það er pínu skrýtið að heilsa þessu annars ágæta fólki (stjórnmálamenn í öllum flokkum eru að mínu mati hið mætasta fólk) sem samherja.   Þetta er án efa skrýtið fyrir alla í báðum flokkum og mun taka smá tíma að venjast.   Þetta er spurning um að byggja upp nýja samskiptahætti og traust. 

En nú bíð ég eins og aðrir frétta um nýja ríkisstjórn og stjórnarsáttmála.  Nú þarf að fara að byrja og láta hendur standa fram úr ermum.


Stjórnarandstaða Framsóknarflokksins hafin

Það eru spennandi samningaviðræður sem standa yfir milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.   Ætli við förum ekki að kalla hina nýju stjórn ,,SS-stjórnina" í gríni?   Það er spurning hvort að Framsóknarmenn, sem eru eðli málsins samkvæmt byrjaðir í stjórnarandstöðu af fullum þunga, nái að kalla stjórnina Baugsstjórn út kjörtímabilið.  Ég held að ef málefnasamningar verði vel unnir þá geti þessi stjórn náð miklum framförum á ýmsum sviðum og nafnið komi í kjölfarið.

En þeir eru alltaf kraftmiklir Framsóknarmennirnir.  Strax byrjaðir að hamra á nýrri stjórn, Geir og Ingibjörgu.   Þeir hafa aldrei verið kallaðir latir frammarar!  Mér finnst hálfskondið að Framsóknarmenn skuli vera svona bitrir nú.  Þó að einhverjar þreifingar hafi átt sér stað á milli XS og XD þá hefðu þeir heldur betur gert það nákvæmlega sama.


Sterk staða Sjálfstæðisflokksins

Afar áhugaverð skoðanakönnun Fréttablaðsins sýnir að 35% vilji stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.    Það kemur mér á óvart hversu mikil breidd er á skoðunum fólks varðandi stjórnarsamstarf.   Það kemur minna á óvart hversu mikill munur er á skoðunum landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis í þeim efnum.

Það sem mér finnst áhugaverðast kemur ekki fram í fréttinni.  Það er að rúmlega 81% kjósenda vilja hafa Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.   Að aðeins tæplega 19% kjósenda vilji vinstri stjórn segir ansi mikla sögu.


Guðjón Arnar orsök?

Ég var að velta fyrir mér eftir fjölmarga spjallþætti gærkvöldins hvernig Frjálslyndi flokkurinn ætlaði að tækla öll þau samstarfsboð sem útilokuðu hann algjörlega.   Þá rann upp fyrir mér að orsök þess að stjórnarandstaðan hafi ekki náð betri árangri væri hreinlega Guðjón Arnar sjálfur og mistök hans.   Hann lét Nýtt Afl vaða yfir flokkinn, studdi ekki Margréti og ýtir henni út.   Í kjölfarið fer hún í framboð fyrir annan flokk og gagnrýnir Frjálslynda flokkinn harkalega.  

Íslandshreyfingin verður til og Margrét fær til liðs við sig Ómar Ragnarsson (og það er önnur pæling hvers vegna hann en ekki hún var í forsvari fyrir flokkinn).   Íslandshreyfingin tekur töluvert af fylgi af VG og jafnvel fleirum og kjósendum finnst fjölmargir flokkar allt í einu vera að tala um umhverfismál og setja þau á oddinn.  Þar með eru umhverfismálin minna rædd.  Hundruð atkvæða falla niður dauð og ríkisstjórnin heldur velli að lokum eftir mjög skamma kosningabaráttu.

Líkur eru á ef Guðjón hefði náð að sætta sjónarmið, komið fram með hógværa stefnu í innflytjendamálum og Margrét orðið þingmannsefni að ásýnd flokksins væri önnur.   Og jafnvel þannig að flokkurinn hefði stolið atkvæðum af Sjálfstæðisflokknum eins og hann gerði fyrir réttum fjórum árum.


Hrós á fallegum degi

Það var notaleg og hátíðleg stund í Höfða í dag þegar borgarstjóri afhenti fyrir hönd leikskólaráðs hvatningarverðlaun leikskóla í fyrsta sinn.    Allir starfsmenn þeirra 6 leikskóla sem fengu hvatningarverðlaun leikskólaráðs komu og tóku við verðlaunum og nutu tónlistaratriða og veitinga.   Borgarstjóri sagði nokkur vel valin orð og afhenti verðlaunahöfunum innrammaða viðurkenningu, blómvönd og fallega leirskál hannaða af Helgu Unnarsdóttur.

Hér er nánari lýsing á verðlaunaverkefnunum:  

Hvatningarverðlaun leikskólaráðs 2007 Dvergasteinn

Samstarf Myndlistaskóla og leikskóla var sett á laggir sem þróunarverkefni til að efla myndmennt og myndskilning og unnið á árunum 1999 – 2003. Verkefnið hefur hlotið styrki á hverju ári fram til þessa. Börn frá 3ja ára aldri sækja tíma í Myndlistarskóla Reykjavíkur í ákveðinn tíma á hverju ári. Reynt er að tvinna áhuga barnanna á þeirra eigin þekkingarheimi við markvissu fræðslu þar sem leitast er við að skerpa sýn og næmi þeirra fyrir myndsköpun og opna um leið hug þeirra fyrir stærra samhengi hlutanna. Í verkefninu er líka fólgin sú hugsun að óvænt atburðarás í sköpun sé ævinlega tilefni til að leita nýrra leiða og nýrra möguleika.   

Ótrúleg eru ævintýrin er verkefni þar sem fengist er við eina þjóðsögu/ævintýri hverju sinni og er efni hennar og úrvinnsla á því tengt flestum námsgreinum þannig að námið verður heildstætt. Unnið er í nokkrar vikur eða mánuði með afmarkað verkefni á öllum deildum leikskólans - en útfærslan er löguð að aldri, áhuga og getu hvers nemendahóps.

 Fellaborg

Mannauður í margbreytileika er þróunarverkefni sem fyrst hlaut styrk þróunarsjóðs leikskólaráðs árið 2006. Markmið þess er að vinna með viðhorf barna og fullorðinna til margbreytileika mannlífsins. Með því að leggja áherslu á margbreytileikann hefur sjóndeildarhringur starfsfólks víkkað og þar með er það hæfara og virkara í að takast á við viðfangsefni í daglegu skólastarfi.

Leikskólinn Fellaborg kemur einnig að þróunarverkefninu Tannvernd í samvinnu við Lýðheilsustöð. Þetta frumkvöðlaverkefni hlaut styrkveitingu árið 2007, en það byggir á því að fylgjast með tannheilsu leikskólabarna og fræða foreldra um tannvernd.

Hamraborg

Vísindaverkefni var upphaflega unnið sem þróunarverkefni. Markmiðið var að efla áhuga leikskólabarna á eðli hluta og efna. Kristín Norðdahl og Haukur Arason lektorar við KHÍ þróuðu hugmyndir að verkefninu. Börnin vinna með lögmál náttúrufræðinnar og raunvísinda í gegnum leikinn. Þau skoða fyrirbæri í umhverfi sínu frá nýjum sjónarhóli og þroska skilning sinn á náttúrunni. Orð föður eins drengs í leikskólanum lýsa þessu vel: “Drengurinn hefur smitað aðra í fjölskyldunni með áhuga sínum á því hvernig efni, orka, hreyfingar og kraftar tengjast og oft liggur öll fjölskyldan yfir hinum ýmsu vísindaverkefnum”.

 Nóaborg  

Stærðfræði með elstu börnunum í Nóaborg var hrundið af stað sem þróunarverkefni á árunum  1999-2000.  Aftur var sótt um styrk til þróunarverkefnis vegna fagvinnu með yngri börnunum og veturinn 2001-2002 var unnið með 2-4 ára börnum að tilraunaverkefni í stærðfræði.  Stærðfræðiverkefni eru nú snar þáttur í starfsemi Nóaborgar. Áhersla er lögð á uppgötvunarnám og að börnin læri stærðfræði í gegnum leik. Foreldri orðaði það svo : “Börnin fá á frumlegan hátt að kynnast tölum, formum og litum með spilum, þrautum, söngvum og leikjum”.

Sólborg

Sameiginlegt nám fatlaðra og ófatlaðra barna. Starfsgrundvöllur leikskólans Sólborgar byggir á hugmyndafræði og kennsluaðferðum sameiginlegs náms fatlaðra og ófatlaðra barna.  Þar dvelur fjölbreyttur barnahópur og lærir saman í gegnum leik og daglegt starf.  Í leikskólanum vinna ólíkar starfsstéttir saman af fagmennsku að því að mæta þörfum hvers og eins og leita sífellt nýrra leiða til að ná markmiðum leikskólans.

Samvinna og fagstarf. Við upphaf starfsemi leikskólans Sólborgar árið 1994 var strax mótaður starfsgrundvöllur með þá hugsjón að leiðarljósi að þar færi fram nám án aðgreiningar og að skólastarfið byggði á hugmyndafræði heiltækrar skólastefnu. Sólborg var fyrsti leikskólinn til að vinna samkvæmt slíkri stefnu. Ein af leiðunum til að framfylgja henni er samstarf fag- og uppeldisstétta. Sólborg leggur mikinn metnað í samstarf bæði innan skólans og við foreldra og er velgengni barnanna ekki síst því góða samstarfi að þakka.

Steinahlíð

Í túninu heima er þróunarverkefni í náttúru og umhverfisvernd sem unnið var á árunum 2003-2005.  Leikskólinn Steinahlíð er einn elsti leikskólinn í Reykjavík og var húsnæðið gefið Barnavinafélaginu Sumargjöf árið 1949 með því skilyrði að “þar skyldi alltaf lögð áhersla á trjárækt og matjurtarækt”. Það hefur verið gert í gegnum árin og umhverfismál hafa verið vaxandi þáttur í starfi leikskólans. Steinahlíð var  fyrsti leikskólinn sem sótti um alþjóðlegu umhverfisviðurkenninguna Grænfánann og fékk hann árið 2003.

Orð foreldra barns í Nóaborg segja allt sem segja þarf:

Krakkarnir læra að breyta rusli og matarafgögnum í mold, skipst er á um að vera moldarbarn, og það fær þann heiður þann daginn að fara út með matarafganga í safntunnuna. Börnunum er kennt að nota minna af sápu og pappír og þau læra að rækta jörðina og nýta þennan stóra garð sem þau hafa í alls kyns verkefni þessu tengdu. 3 ára dóttir mín stoppar mig reglulega við pappírs- og sápunotkun og segir að þetta sé aðeins of mikið - fiskarnir verði bara hræddir…   Sömu sögu segir faðirinn sem kvartaði undan því að hann fengi ekki frið við raksturinn því hann mætti ekki leyfa vatninu að renna…..

   

 

 


mbl.is Sex leikskólar fá hvatningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða einstakra grunnskóla í Reykjavík

Ég vil vekja sérstaka athygli á þeim gögnum sem nú liggja fyrir handa foreldrum grunnskólabarna í Reykjavík um stöðu skólanna.   Á heimasíðu menntasviðs er nú hægt að nálgast ólíkar upplýsingar um skólana sem eru afar upplýsandi fyrir foreldra og aðgengilegar.   Þarna er hægt að skoða viðhorf foreldra og starfsmanna til skólans, líðan barna og framfarastuðul samræmdra prófa sem mér finnst vera afar vel hannaður mælikvarði hjá Námsmatsstofnun.

Þetta er afar mikilvægt og gagnlegt framtak hjá menntaráði Reykjavíkurborgar því upplýsingar um árangur skóla skilar sér í aukinni umræðu og eftirfylgni foreldra sem að mínu mati verður að fara að auka.

Hér er  hægt að skoða til dæmis samantekt um Fossvogsskóla sem synir mínir stunda nám í og ég er afar ánægð með í alla staði. 


Hvatningarverðlaun leikskóla

Á morgun er stór dagur.  Fyrstu hvatningarverðlaun leikskóla í Reykjavík verða afhent með pompi og prakt í Höfða í boði borgarstjórans í Reykjavík.  Tilnefningar voru rúmlega 30 og 6 verkefni fá verðlaun á morgun. 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband