Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Nemendur með lestrarerfiðleika

Ég hef alltaf sagt að eins og skólakerfið okkar er orðið gott þá eru nokkrir hópar með sértæka erfiðleika og sértækar gáfur oft útundan í kerfinu.   Þeirra á meðal eru nemendur með lestrarerfiðleika.   Á síðustu 18 mánuðum hafa fulltrúar menntamálaráðherra skilað vinnu sem afmarkar hvaða verkefni þurfi að vinna til að bæta umhverfið.   Menntamálaráðherra opnaði í kjölfar þessarar vinnu tvo vefi til stuðnings nemendum með lestrarörðugleika og foreldrum þeirra. 

Annar þeirra, Lesvefurinn, er vefur sem veitir ólíkum hagsmunaaðilum upplýsingar um lestur og lestrarerfiðleika.  Á Lesvefnum verður í framtíðinni sett inn mikið efni til upplýsinga og einnig geta foreldrar og kennarar sett þarna inn fyrirspurnir.

Hinn vefurinn, Lesvélin, er vefur sem auðveldar aðgengi fólks með lestrarerfiðleika að texta á netinu. Um er að ræða upplestrarþjónustu lesvélarinnar Ragga.  Aðgangur að lesvélinni er öllum opinn.

Ég er viss um að þessir tveir vefir komi strax til góðra nota og ég vona að þetta verði kynnt vel.  Þetta er líka vonandi fyrsta skrefið af mörgum til að bæta þjónustu við börn með leserfiðleika í skólakerfinu.


Tugmilljarða skemmdarverk?

Össur Skarphéðinsson, ráðherra í ríkisstjórn Íslands, skrifar pistil á heimasíðu sína aðfararnótt laugardags sem er í besta falli niðurlægjandi fyrir hann sjálfan. Þar ræðst hann á mig og aðra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á ómálefnalegan hátt með orðfæri og lágkúrulegum uppnefningum sem hæfa engan veginn manni sem vill láta taka sig alvarlega, hvað þá ráðherra í ríkisstjórn. Ég mæli eindregið með að allir sem hafa áhuga á pólitík lesi þennan pistil og velti fyrir sér um leið stöðu þess sem hann skrifar.
 

Ég ætla ekki elta ólar við allt sem Össur segir í pistli sínum, ummæli hans dæma sig sjálf. Það eru samt nokkur atriði hjá Össuri sem eru svo skemmtilega galin að það verður ekki hjá því komist að fjalla stuttlega um þau.

 

Við borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eigum samkvæmt Össuri að hafa unnið “gríðarleg skemmdarverk” á REI og hann hikar ekki við að meta kostnaðinn af skemmdunum á tugi milljarða. Þessi ummæli minna á fræg ummæli verðbréfasala nokkurs í sjónvarpi í miðri netbólunni um sl. aldamót, en hann sagði það vera meiri áhættu að kaupa ekki  hlutabréf  í tilteknu félagi en að kaupa þau! Sá góði maður hafði vitaskuld kolrangt fyrir sér þá, alveg eins og Össur hefur kolrangt fyrir sér í dag. Verðbréfasalinn hafði þó atvinnu af því að fá fólk til að kaupa og selja hlutabréf. Hvað er það eiginlega sem drífur Össur áfram í skrifum sínum spyr ég?


Það er lykilatriði í fjárfestingum að hagnaður verður ekki til fyrr en fjárfestingin er seld. Það myndast enginn hagnaður við sjálf kaupin. Enginn. Við kaupin tekur kaupandinn hins vegar áhættuna af kaupunum inn á sínar bækur, sem í tilfelli REI/GGE hefði verið áhætta upp á tugi milljarða. Það að taka ekki þátt veldur því að sjálfsögðu aldrei fjárhagslegu tjóni. Það er ekki gott þegar ráðherra Össur skilur ekki slíkt grundvallaratriði.
 


Það er aldrei áhætta í því fólgin að taka ekki þátt í áhættufjárfestingum. Það er heilbrigð skynsemi að fara varlega með fjármuni og sérstaklega fjármuni annarra (opinbert fé). 

Eitt er það hvort opinberir starfsmenn hjá OR og Reykjavíkurborg eigi að spila með fjármuni borgarbúa í ”útrás” og hitt síðan hvernig það er gert. Með skrifum sínum lýsir Össur því yfir hátt og snjallt að hann telur framkvæmdina eins og hún var útfærð í góðu lagi. Aðgerð sem nýr meirihluti í borginni með fulltingi Samfylkingar hefur samt ógilt að öllu leyti.  

Össuri finnst það sem sagt í lagi að Bjarni Ármannsson fengi að kaupa hlutabréf í opinberu fyrirtæki REI fyrir hundruð milljóna króna án útboðs. Össuri finnst það í lagi að binda hendur OR með 20 ára þrælasamningi. Össuri finnst það í lagi að taka við GGE á 27 milljarða króna án þess að hafa verðmat af neinu tagi við hendina. Össuri finnst í lagi að veita GGE ótakmarkaðan aðgang að starfsmönnum OR í 20 ár! Össuri finnst í lagi að stjórnsýslulög og jafnræðisregla hafi að öllum líkindum verið þverbrotin. 


Ég hef nú ekki hitt marga á förnum vegi síðustu vikurnar sem hafa ekki lýst því yfir að framkvæmd samrunans sem slík hafi verið algerlega galin. Raunar hef ég engan heyrt lýsa ánægju sinni með hana annan en Björn Inga. Össur hefur því með skrifum sínum myndað tveggja manna lið með Birni Inga.
 


Ég er stolt af hlutdeild minni í að stöðva þann vitleysisgerning sem samruni REI og GGE svo sannarlega var. Að stöðva hann var þjóðþrifaverk en ekki skemmdarverk.


Af hverju klára þeir ekki málið?

Eina ferðina enn gerir fréttastofa Stöðvar 2 sig seka um ótrúlegan fréttaflutning í tengslum við málefni Orkuveitunnar og REI.  Enn einu sinni byggja þeir fréttaflutning sinn næsta einvörðungu á bloggi frá Birni Inga Hrafnssyni og Össuri Skarphéðinssyni.  Og eina ferðina enn gera þeir það án þess að spyrja nokkurra gagnrýnna spurninga, skoða helstu staðreyndir málsins eða fá andstæð sjónarmið frá þeim sem um er fjallað.  Spyr sig enginn um tengsl fréttastjóra og Björns lengur?

Í nýjustu færslum Össurar og Björns Inga er því haldið fram að við sjálfstæðismenn í borgarstjórn höfum skipt um skoðun í stóra REI málinu.  Því fer auðvitað víðs fjarri.  Við höfum alltaf verið þeirrar skoðunar að OR eigi ekki að vera á kafi í áhættufjárfestingum, en höfum ekki lagst gegn því að OR væri stuðningsaðili við útrás án þess að í því fælist áhætta með opinbert fé.  Við sex vorum þau einu sem mótmæltum búningi málsins og spillingunni sem í því fólst. Þetta vita þeir báðir, en kjósa að snúa málinu á hvolf þegar aðalfréttin ætti auðvitað að vera um 180° viðsnúning þeirra beggja í málinu.  Skoðum viðsnúninginn aðeins.

Í fyrsta lagi sleit Björn Ingi meirihluta til að tryggja þennan mikla samruna og í öðru lagi studdi Samfylkingin, með öflugum stuðningi iðnaðarráðherra, þennan sama samruna.  Stærsta spurningin er því hvers vegna það hefur breyst og hvers vegna flokkar sem nú eru báðir við völd í Reykjavík, þ.e. Samfylking og Framsóknarflokkur, eru ekki að klára samrunann nú þegar þeir hafa til þess tækifæri?  Björn Ingi setti okkur í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna afarkosti í þessu máli, afarkosti sem við gátum ekki gengið að vegna þeirra veiku forsendna sem og undarlegu hagsmuna sem réðu hans för í þessu máli.

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar ekki lengur með Birni Inga í meirihluta og ættum þess vegna ekki að vera að þvælast fyrir honum í málinu.  Því er eðlilegt að spyrja, hvað hefur breyst í hans afstöðu?  Og fulltrúar iðnaðarráðherrans, fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarstjórn, eru ekki lengur í valdalausum minnihluta í Reykjavík.  Öðru nær, þá er Samfylkingin í oddvitahlutverki í Reykjavík og því nær að spyrja hvers vegna iðnaðarráðherrann lætur ekki af næturbloggi sínu um sjálfstæðismenn og ræðir bara við samflokksmenn sína í borgarstjórn og tryggir að þeir klári málið með þeim hætti sem hann telur að sé borgarbúum og landsmönnum til heilla?

Dagur B. Eggertsson vill fara í útrás og hefur að auki sagst vilja vinna með Geysi Green Energy.   Björn Ingi vill það augljóslega líka.   Hvers vegna klára þeir ekki málið, eru þeir ekki með meirihluta í nýja meirihlutanum?

Markaðsumhverfi Filippseyja

,,Útrásarorðið er slíkt töframerki  að jafnvel þegar menn virðast gera innrás í opinber fyrirtæki almennings, þá er innrásin kölluð útrás."

Davíð Oddsson seðlabankastjóri 
á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007.

Útrás Orkuveitu Reykjavíkur (OR) sem er að fullu í eigu sveitarfélaga hefur á undanförnum árum einkennst af kynningarstarfsemi á verkefnum okkar í jarðhitavirkjun, sala á ráðgjöf og stuðningur við verkefni sem að hafa verið skilgreind sem þróunarverkefni.   Félögin sem hafa staðið í þessari útrás OR (Enexog fleiri) hafa enn sem komið er ekki skilað OR neinum arði.  Verkefni hafa verið í El Salvador (þar sem m.a. morð var framið á starfsmanni Enex), hönnunarvinna á virkjun í Þýskalandi,  aðkoma að verkefni í USA (óljóst hversu mikill þáttur Enex er þar), rannsóknarverkefni í Ungverjalandi, verkefni í Kína til að byggja upp jarðvarmahitakerfi í Xianyang og ýmsar þarfagreiningar fyrir fleiri aðila.

Nú eru allir sammála um að umfang þessarar þjónustu gæti aukist verulega enda búið að marka ákveðin spor í kynningu á þekkingu og umhverfisvænum orkugjöfum landsins.  Hins vegar er að mínu mati alveg ljóst að næsta skref í að selja þjónustu með það að markmiði að hagnast vel á henni er að fara í fjárfestingar á orkuverum, breyta þeim í grænni og betri orkuver, stækka þau og selja aftur.   Þannig yfirfærist þekking okkar á arðbærastan hátt.   Þetta er til dæmis það sem félagið Geysir Green Energy ætlar að gera til að verða arðbært fyrir hluthafa.

Það þarf hins vegar að huga vel að því hvar er fjárfest.   Við viljum síður vera þátttakendur í verkefnum sem erfitt er að verja pólitískt og alls ekki  að lenda í umhverfi eins og Enex lenti í í El Salvador.   Filippseyjar eru vafasamar að mínu mati og ég hef áhyggjur af þessum fjárfestingum.   Við þekkjum öll sögurnar af spillingarmálum fyrrum forseta Filippseyja, Joseph Estrada og nýlegri náðun hans af hendi núverandi forseta Arroyo.  Til viðbótar má geta þess að í úttekt Transparency International á spillingu þjóða voru Filippseyjar númer 131 af 180 löndum, samhliða Íran, Líbýu og Nepal.

 

 

 


mbl.is Íslenska tilboðið það hæsta í filippseyska orkufyrirtækið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíðinda að vænta?

Á morgun er aukafundur í borgarráði vegna málefna OR og seinna er svo eigendafundur OR.   Það lítur út fyrir að fyrir liggi einhvers konar niðurstaða í málum OR, REI og GGE sem ég sem borgarfulltrúi hef ekki séð.   Ætlar nýi meirihlutinn sem ætlaði að koma með öll skjölin fram og hafa allt lýðræðislegt ekki að fjalla um þessar ákvarðanir í borgarstjórn?  Hvaða tillaga er þetta sem Margrét kynnti á borgarráðsfundinum?  Hvað annað hefur verið lagt til annað en að staðfesta ógildingu eigendafundarins?   Af hverju má ekki leggja þessa tillögu fram í borgarstjórn?   Ætlar nýr meirihluti að éta allt sem þau sögðu sem minnihluti?

,,Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fulltrúi sjálfstæðismanna, lagði fram bókun þar sem óskað er eftir skriflegum rökstuðningi og skýringum vegna tillögu borgarstjóra. Þá óskaði Vilhjálmur eftir, að tillaga um niðurstöðu í málum REI og GGE, sem lögð hafi verið fyrir stýrihóp um málefni OR og Margrét Sverrisdóttir, forseti borgarstjórnar hafi kynnt á borgarráðsfundinum sem sáttatillaga í málinu, verði lögð fram á aukafundi borgarráðs á morgun."


mbl.is Lagt til að leitað verði sátta í máli Svandísar gegn OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nemandi eða barn?

Á föstudaginn í síðustu viku talaði ég á málþingi í tilefni bókar Dr. Sigrúnar Aðalbjarnardóttur, Umhyggja og Virðing.  Bókin er mikil smíði og á erindi til kennara og foreldra en hún dregur saman áratuga rannsóknarvinnu Sigrúnar sem hefur verið ein sú öflugasta í rannsóknarstarfi á líðan barna, siðferðisþroska barna og starfsþróun kennara. 

Þetta var mjög tímabær umræða sem fór fram á þinginu og mjög góðir fyrirlestrar.   Hér að neðan er fyrirlesturinn minn sem voru hugleiðingar mínar út frá sjónarhóli stefnumótunaraðila eins og löggjafa og sveitarfélaga og hins vegar út frá sjónarhóli foreldra. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Að vinna heimavinnuna

Í lok síðustu færslu kom ég aðeins inn á ótrúlega staðreynd varðandi sameiningu REI og Geysi Green Energy, sameining sem Björn Ingi talar um sem “frábæran viðskiptasamning”. Það er sú staðreynd að þeir sem komu að málinu fyrir hönd borgarbúa sáu aldrei reikninga Geysi Green Energy og enginn hefur enn séð þá samkvæmt mínum upplýsingum.   Samt sem áður tók samþykkir stjórn og stjórnendur OR 3. október að taka við verðmati sem hljóðaði upp á 27,5 milljarða.Það er ekki verið að tala um neina skiptimynt í þessum viðskiptum. Til að setja hlutina í samhengi má geta þess að heildartekjur Orkuveitunar árið 2006 voru 18,1 milljarður (66% af yfirlýstu “virði” Geysi Green Energy). Einnig var eigið fé OR í lok árs 2006 66,7 milljarðar. Stjórn Orkuveitunnar ætlaði því að taka við eignum sem metnar voru á 40% af bókfærðu eigin fé Orkuveitunnar án þess svo mikið sem skoða reikninga viðkomandi félags.

Þetta hljómar fáránlega að þetta sé rétt en er staðreynd engu að síður. Satt best að segja hef ég aldrei heyrt um neinn samning um samruna fyrirtækja eða kaup á hlutafé fyrir meira en nokkrar milljónir króna þar sem menn leggjast ekki yfir reikninga viðkomandi félaga. Hér var ekki nóg með að menn hafi sleppt því að skoða grunngögnin í málinu; menn gerðu ekki einu sinni þá kröfu að fá þessi gögn.

Og hafa ekki enn.   Ætlar Svandís ekki að draga allt fram í dagsljósið?


Skammir eða hól?

“Við mig hefur verið sagt að ég hafi gert frábæran viðskiptasamning sem mér yrði hælt fyrir í viðskiptalífinu en af því ég er í stjórnmálum þá er ég skammaður.” 


Af þessum orðum Björns Inga á borgarstjórnarfundi 10. október er ljóst að hann taldi samninginn um samruna REI og Geysis Green Energy bæði frábæran og sitt eigið verk.  Þetta er áhugavert að hafa í huga þegar helstu niðurstöður eru skoðaðar úr álitsgerð sem Ársæll Valfells vann fyrir hönd Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands að beiðni stýrihóps um málefni OR. Í niðurstöðum álitsins sem eru birtar að hluta í Morgunblaðinu í gærmorgun kemur m.a. fram að: 

  1. Ekki komi fram hvernig 16 milljarða kr. verðmæti REI og 27,5 milljarða verðmæti GGE sé fundið
  2. Ekki komi fram í samningnum hver áhætta OR sé vegna skuldbindingar um að selja hlutafé eða hvernig meta beri áhættuna
  3. Ekki heldur hvernig gengið 2,77 við útgáfu hlutabréfa REI sé fundið
  4. Ekki liggi fyrir mat á aukningu rekstraráhættu OR eða annarra áhrifa á rekstur eða rekstrarhæfi OR vegna ótakmarkaðs aðgangs REI að tilteknum framleiðsluþáttum þess
  5. í þjónustusamningi á milli OR og REI sé hvergi fjallað um verð framleiðsluþátta eða magn, en slíkt sé þó grundvöllur mats á verðmætum í skiptum

Og þetta telur Björn Ingi “frábæran viðskiptasamning”?  Þeir aðilar sem ég hef talað við úr viðskiptalífinu segjast aldrei hafa heyrt um eins “bjánaleg vinnubrögð” í samningagerð. Það væri kannski ekki úr vegi að Björn Ingi upplýsi hvaða fólk í viðskiptalífinu hann vitnar í hér að ofan? 

Það er óásættanlegt fyrir borgarbúa ef Björn Ingi sest aftur í stjórn Orkuveitunnar eftir að hafa brugðist trausti borgarbúa eins hrapalega í samningum fyrir þeirra hönd og kemur fram í punktunum fimm hér að ofan. 

Að lokum: Ég veit ekki til þess að neinn sem tengist málinu fyrir hönd Reykjavíkurborgar hafi enn svo mikið sem séð efnahags- eða rekstrarreikninga Geysis Green Energy.


X-listinn hækkar gjöld

Nýr meirihluti í borginni, X-listinn eins og hann kallar sig í fundargerðum borgarstjórnar, tók fyrsta tækifæri sem bauðst og hækkaði mat í leikskólum.   Ég minni á að allir þessir flokkar, allir fjórir vildu gjaldfrjálsan leikskóla í síðustu kosningabaráttu og nýlega var VG með tillögu um gjaldfrjálsa skóla (og vísuðu þá líka til að matur væri foreldrum að kostnaðarlausu).  

Borgarstjóri, Dagur B. Eggerstsson sagði á síðasta borgarstjórnarfundi að þessi meirihluti ætlaði ekki að koma með málefnaskrá fyrir borgarbúa.   Ætla Reykvíkingar að leyfa þeim að komast upp með það að semja um málefni?  Á að brjóta alla hugmyndafræðilegar áherslur og láta málin bara dúllast áfram?   Þetta verður afar dýr meirihluti.


Smjörklípuleikurinn

Mér finnst mikilvægt að birta hvað forsætisráðherra, Geir H. Haarde sagði, þegar hann var spurður í kjölfar yfirlýsinga fyrrverandi kosningastjóra Framsóknarflokksins og fyrrverandi upplýsingafulltrúa Félagsmálaráðherra Árna Magnússonar.  Pétur Gunnarsson segir á síðu sinni að Geir hafi gefið samþykki og blessun sína á samruna REI.  Í kjölfarið á smjörklípu númer skrilljón í þessu máli vitnar Björn Ingi í vin sinn Pétur Gunnarsson á sinni síðu og ,,staðfestir" að ,,Geir hafi litist vel á ráðahaginn" á heimasíðu sinni. 

Það vill svo til að ég og margir aðrir sátu á þessum fundi líka og það eina sem var sagt að iðnaðarráðherra og forsætisráðherra hefði verið kynntur samruninn.  Engar gildishlaðnar setningar fylgdu um skoðun þessara manna.  Framsóknarmenn halda bara uppteknum hætti að taka sannleikskorn úr fórum sínum og spinna miklum ásökunum í kringum þau.

Þetta er allt skemmtilegur spuni hjá Framsóknarmönnunum en endurspeglar helst hversu óöruggir þeir eru orðnir og hversu mikið sokknir þeir eru í drulluna.   Geir H. Haarde segir við fréttastofu útvarpsins að þarna sé tóm vitleysa á ferðinni, honum hafi verið sagt frá þessu lauslega í tveggja manna tali og aldrei skýrt frá málavöxtum.  Hér eru hans eigin orð þegar Einar Þorsteinsson spyr hann um málið í fréttum útvarps:

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins:

Sko fréttirnar af þessu eru alveg furðulegar og til marks um afar óvandaðan málatilbúnað af hálfu þeirra sem hafa í Framsóknarflokknum verið að setja þetta á flot. Fyrrverandi borgarstjóri sagði mér frá því lauslega í tveggja manna tali að þetta hefði borist í tal. Mér voru ekki sýndir neinir pappírar eða beðinn um afstöðu í þessu máli og það er algerlega fjarri því. Og þeir sem eru að draga þetta fram núna eru að reyna að draga athyglina frá aðalatriðinu, semsagt því hvernig þessu máli var klúðrað í, í þessu samrunaferli.

Einar Þorsteinsson: Kynnti hann þér ekki þessar fyrirætlanir efnislega, nákvæmlega?

Geir H. Haarde: Nei. Það stóð aldrei til.

Einar: Ekki með tuttugu ára samninginn eða?

Geir H. Haarde: Nei nei nei, aldeilis ekki. Engin efnisatriði. Heldur var mér sagt, sagði hann mér frá því að, að þetta hefði borist í tal. Og hvenær sagði hann mér frá því, það var 28. september svo við höfum það nú alveg nákvæmt. Einar: Þannig að þú hefur ekki lagt blessun þína yfir samninginn?

Geir H. Haarde: Nei ég var ekki beðinn um neitt álit á því. Og, og lagði hvorki blessun mína né annað yfir, yfir það mál.

Ætlar Björn Ingi að draga þessar ásakanir sínar til baka?  Eða ætlar hann að þræta fyrir hvað hver sagði í Stöðvarstjórahúsinu og í samtölum borgarstjóra fyrrverandi og forsætisráðherra? Ætlar Valgerður Sverrisdóttir að spara stóru orðin?   Hvenær ætlar þetta fólk að líta í eigin barm?  En Guðni Ágústsson, þurfti Björn Ingi ekki blessun hans á málinu eins og gefið er í skyn að borgarstjóri hefði þurft?   Þetta er allt mjög ótrúverðugur spuni sem sýnir örvæntingu Framsóknarflokksins og tilraunir þeirra til að hreinsa sig af þessu skítuga máli.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband