Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Fyrsti fundur leikskólaráðs

Fyrsti fundur leikskólaráðs var haldinn á föstudaginn. Þetta var að mínu mati góður fundur og þarna gafst tími til að ræða mörg stefnumótandi mál skólastigsins.

Ráðið fagnaði nýlegum lækkunum á leikskólagjöldum með bókun og stofnaði formlega til hvatningaverðlauna leikskólaráðs. Markmið verðlaunanna er að veita leikskólum jákvæða hvatningu í starfi, vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fer fram í leikskólum Reykjavíkur og stuðla að auknu nýbreytni- og þróunarstarfi í leikskólum Reykjavíkur. Auglýst verður eftir tilnefningum í byrjun nóvember og foreldrar, kennarar, skólar, starfsmenn og aðrar borgarstofnanir geta tilnefnt til verðlaunanna. Verðlaunin verða veitt sex skólum á hverju ári. Í valhópnum verða þrír fulltrúar úr leikskólaráði, fulltrúi leikskólasviðs, fulltrúi samtakanna Börnin okkar og fulltrúi félags leikskólakennara.

Kallað var eftir mikið af gögnum til að hægt verði að taka ákvörðun um stuðning við yngstu börnin í borginni. Það er allt of mikið bil á milli þeirra greiðslna sem foreldrar þurfa að inna af hendi fyrir þjónustu fyrir 18 mánaða þegar leikskólar taka við. Foreldrar þurfa að greiða fyrir þjónustu dagmæðra frá 45.000-60.0000 á mánuði en síðan þegar barn fær vistun í leikskóla hrapar gjaldið niður í tæpr 20.000 kr á mánuði. Þennan mun verður að jafna. Fundargerð 1. fundar.

Verkefni á strætófundi

Á stjórnarfundi Strætó bs. í dag lagði ég fram skemmtilega tillögu sem ég og formaður SHÍ sköpuðum. Hún er eftirfarandi:

,,Stjórn Strætó leggur til að vísa til umhverfisráðs Reykjavíkurborgar að mynda starfshóp með nemendum í Háskóla Íslands og fulltrúm borgarinnar og Strætó BS til að skilgreina þörf, kröfur og útlit nemendavæns strætóskýlis við Hringbraut. Skýlið á að sameina fagurfræðilega hönnun, umhverfissjónarmið, þægindi og hagkvæmni."

Í umhverfisráði verður svo starfshópurinn gerður formlegur og við getum farið að teyma verkfræðinema og listnema og fleiri góða að borðinu til að búa til flott nemendaskýli. Hver veit nema að þetta verði til þess að við eignumst einstaklega gott módel sem þolir veður allra átta!

Að auki lagði ég fram eftirfarandi fyrirspurn. Ég tel að það sé kominn tími til að félagið Strætó bs. gerist sjálfhverft að hluta og eyði í sjálft sig. Þá á ég við að vagnleiðir séu kynntar betur svo að kúnnarnir læri og skilji betur kerfið. Það er hægt að gagnrýna margt og hvernig þetta var gert allt saman en mikilvægast er að sníða nú kerfið að notendunum og notendurna að þjónustunni sem fyrir er.

,,Einn af mikilvægari þáttum þess að fjölga notendum þjónustu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu er að kynna þjónustuna sem best. Nýtt leiðakerfi breytti samgönguleiðum töluvert og því afar mikilvægt að kynna vel fyrir notendum nýtt leiðakerfið. Ein leið til þess að kynna samgöngukerfið í heild sinni er að nýta vagnana sjálfa. Stjórn Strætó bs. óskar eftir upplýsingum um kostnað og mögulegar leiðir þess efnis að setja í alla vagna mynd af leiðakerfinu. Að auki óskar Stjórn Strætó bs. eftir upplýsingum um kostnað við að búa til auglýsingar um ólíkar leiðir til og frá stórum vinnustöðum eða verslunarkjörnum og kostnaðinn við að auglýsa svona utan á vögnunum sjálfum."

Mikið visað í greinina okkar

Eftirfarandi er tilvísun í grein sem ég skrifaði ásamt prófessornum mínum og samnemenda í mastersnáminu mínu.

http://jar.sagepub.com/reports/mfr1.dtl

Greinin er ein af þeim sem er mest vísað í í þessu tímariti (Journal of Adoloscent Research). Þetta er gaman að sjá. Það var afar gaman að vinna þetta verkefni í háskólanum mínum í Bandarikjunum en ekki síst að kynnast prófessornum sem ég hef enn náin samskipti við.

Samgönguvikan

Samgönguvikan 2006 var sett á föstudaginn. Gísli Marteinn setti formlega vikuna með því að segja áhorfendum frá mikilvægi hreins lofts í umhverfinu. Áherslan í ár er sett á aðra valkosti við bílinn enda ekki hægt að halda til streitu bíllausa deginum sem var hálfgerður brandari hér í tíð R-listans.

Í gær var sérstök áhersla á hjólreiðar sem samgöngumáta og því hjóluðu Reykvíkingar og Hafnfirðingar úr hverfunum og hittust svo við tjald í Hljómskálagarðinum. Þar var boðið upp á mat og drykk, hjólaþrautabraut og hjólalistir. Hápunkturinn var að mínu mati hjólreiðamaraþonið sem var haldið í annað sinn og felur í sér alvöru hjólreiðakeppni í kringum Tjörnina. Okkur finnst nú að það megi alveg kalla þetta Tour de Tjörn og festa þetta almennilega í sessi sem árlegan viðburð. Sif Gunnarsdóttir verkefnastjóri á höfuðborgarstofu og ég ákváðum líka að á næsta ári yrðu sérstakar hjólreiðatreyjur sem myndu skarta merki borgarinnar.

Ég fékk að blása af stað hjólreiðakeppnina og hún var ansi skemmtileg. Við stóðum á brúnni á Skothúsveginum og hvöttum 15 hjólreiðakappa áfram af miklum krafti en Íslandsmeistarinn Hafsteinn Geirsson sigraði annað árið í röð (mynd). Það væri verðugt markmið að draga fleiri Reykvíkinga á þennan viðburð og hafa hvatningarhring í kringum Tjörnina á næsta ári. Ekki aðeins til að efla vitund manna á kapphjólreiðum heldur einnig á því hvað það er gaman að hjóla. Mark Twain á að hafa sagt einhvert sinni: ,,Lærðu að hjóla. Þú sérð ekki eftir því ef þú lifir það af". Fulltrúar Hjólreiðafélags Reykjavíkur (HFR) stýrðu keppninni afar vel og vissu nákvæmlega af hverju þyrfti að huga.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband