Íslenski grunnskólinn einn af 5 bestu?

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um það háleita markmið rektors HÍ að koma Háskóla Íslands í röð 100 bestu háskóla heims. Þetta markmið er góð leið til að ræða stöðu háskóla landsins sem hafa undanfarin 10 ár stækkað hratt og orðið miðstöðvar grósku og nýsköpunar. Auðskiljanlegt markmið sem þetta hefur sárlega vantað í umræðu um skólamál og þá sérstaklega er varðar grunnskólastigið.

Grunnskólinn á Íslandi hefur farið í gegnum miklar breytingar á síðustu 10 árum og kennarar átt fullt í fangi með að taka við hinum ýmsu verkefnum. Grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga, skólar urðu einsetnir, rúmlega 2.300 kennslustundir hafa bæst við, nýjar námskrár hafa verið innleiddar og ýmis forvarnarverkefni og hugmyndafræði hafa fest sig í sessi. Á sama tíma hefur grunnskólunum verið gert að innleiða sjálfsmat og að setja sér markmið fram í tímann. Allir þessir þættir eru breytingar sem við teljum hafa leitt til betra skólakerfis. Þó er þetta mat okkar að mestu byggt á tilfinningu og minnst á rannsóknum eða mati á árangri.

Alþjóðlegt mat til staðar
Efnahags og framfarastofnunin (OECD) er sú stofnun sem veitir ítarlegastar upplýsingar um stöðu landsins miðað við önnur aðildarlönd í efnhagsmálum og skólamálum. Á vettvangi OECD er að finna PISA könnunina en niðurstöður hennar gera okkur kleift að bera saman árangur íslenskra grunnskólabarna við önnur börn í aðildarríkjum OECD í lestri, stærðfræði og vísindalæsi. Ísland er og verður þátttakandi í könnuninni og skólafólk og stjórnvöld hafa litið á niðurstöður PISA sem greinargóðar og nýtilegar upplýsingar. Ekki er vitað til þess að sveitarfélög hafi nýtt sér með formlegum hætti þessar upplýsingar til umbóta.

Ísland tekur á þessu ári þátt í PISA rannsókninni í þriðja sinn. Taflan sýnir hvernig árangur Íslands hefur verið í samanburði við önnur OECD ríki. Af henni er hægt að lesa að árangur Íslands er í meðaltali OECD ríkjanna og að litlar framfarir hafi átt sér stað á milli mælinga.. Hins vegar er hægt út frá þessum niðurstöðum að setja fram markmið um betri árangur í framtíðarkönnunum PISA og nýta þannig dýrmætar upplýsingar sem fást úr þessum rannsóknum til umbóta. Til dæmis er hægt að sjá í skýrslum PISA að íslenskir nemendur standa sig afar vel í tölfræðihluta stærðfræðinnar og að hlutfallslega fáir nemendur eru í besta námsmannahópnum miðað við önnur OECD ríki. Skýr markmið um betri árangur í þeim þáttum sem verið er að kanna hverju sinni er góð leið til þess að nýta jafn ítarlegar upplýsingar og PISA könnunin gefur.

Mikil aukning fjármagns til grunnskólans
OECD setur fram mikilvægar athugasemdir í nýjustu skýrslu stofnunarinnar á stöðu efnahags- og framfaramála á Íslandi. Þar er meðal annars bent á að íslenska menntakerfið allt og þá sérstaklega að grunnskólinn fái hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en næstum öll önnur OECD löndin. Í skýrslunni er bent á að enn eigi þetta aukna fjármagn í skólakerfinu eftir að skila betri árangri í alþjóðlegum samanburðarkönnunum en að árangur Íslands í PISA sé ekki sem stendur í samhengi við fjárframlög til menntamála. Einnig varpa þeir fram þeirri spurningu hvort að tilfærsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga hafi bætt gæði skólastarfs.

Ísland
Pisa 2000 (29 lönd) Pisa 2003 (27 lönd)
Meðaltal Staða Meðaltal Staða
lestur 507 11.-16. sæti 492 14.-20. sæti
stærðfræði 514 11.-16. sæti 515 10.-13. sæti
vísindalæsi 496 14.-20.sæti 495 16.-19. sæti


Setjum háleit markmið
Umræðan um árangur íslenska grunnskólans má ekki vera meira feimnismál en árangur annarra skólastiga. Stjórnvöld og skólafólk þurfa að vera samstíga og óhrædd við að að setja viðmið um árangur skólastarfs til viðbótar við hefðbundin próf, sjálfsmat og samræmd próf. . Markmiðin verða að vera skýr og endurspegla raunhæf skref að settu marki. Íslenska grunnskólakerfið á að vera á heimsmælikvarða og Íslendingar eiga að sameinast um það markmið að Ísland raði sér meðal fimm efstu þjóða OECD í náinni framtíð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2006

Blair í bobba

Jón Baldvin Hannibalsson var ansi kindarlegur þegar Egill Helgason spurði hann um sl. helgi hvort að hugmyndafræði Alþýðuflokksins væri ekki liðin undir lok. Egill vísaði í Tony Blair sér til stuðnings og nefndi þau miðju og hægri mál sem hann hefur ýtt úr farvegi. Jón vildi nú ekki tengja sína hugmyndafræði eða Samfylkingarinnar við Blair og gaf til kynna að hann væri ekki raunverulegur jafnaðarmaður. Ingibjörg Sólrún og Össur hafa hins vegar oft vísað í þennan slungna stjórnmálamanns sem fulltrúa jafnaðarmennskunnar,

Í valdatíð Tony Blair (sem hófst 1997) hefur Blair leyft kröftum einkaframtaksins að njóta sín í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu þegar hann á sama tíma innheimtir meiri gjöld fyrir þjónustuna. Þessi tvö mál hafa aldrei verið á dagskrá vinstri flokka á Íslandi. Hann hefur að auki þurft að afsaka sig fyrir þjóðinni að hafa óafvitandi blekkt almenning þegar ráðist var inn í Írak og tekið rangar ákvarðanir í því ferli öllu. Samfylkingin hefur fordæmt innrásina í Írak!

Í gær átti Tony erfiðan dag. Umbótaáætlunin hans í menntamálum var samþykkt í dag með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Áætlun Blairs er að veita skólum aukið sjálfræði til að efla skóla landsins. 52 samflokksmenn Blair greiddu atkvæði gegn þessum áætlunum því þeir töldu þessar aðgerðir búa til tvöfalt menntakerfi í landinu. Þó að segja megi að Blair hafi fengið meginefni áætlunarinnar í gegn er ljóst að breytingarnar eru það margar að umbæturnar eru ekki fugl eða fiskur lengur. Til dæmis er búið er að henda út ákvæði sem leyfði skólum að búa til inntökunefndir á grundvelli árangurs eða viðtala til að velja inn í skólana.

Þessi niðurstaða hlýtur að vera neikvæð fyrir Blair sem í enn eitt skipti er harðlega gagnrýndur af mörgum í Verkamannaflokknum. Þó eru aðrir sem segja þetta aðeins vera eitt lítið verkefni af svo mörgum að þetta falli fljótt í skuggann á öllum þeim góðu málum sem Blair hefur sannarlega komið í gegn í þinginu. Það breytir því þó ekki að nú sem áður bíða margir eftir því að hann víki því það er töluverður tími síðan að hann gaf út þau skilaboð að hann myndi ekki leiða Verkamannaflokkinn í næstu kosningum. Blair er því fljótlega á leið úr pólitík. Samfylkingin þarf þá á ný að stilla sig saman við nýjan leiðtoga Verkamannaflokksins.

Fóstureyðingar og Bandaríkin

Ég bara trúði ekki mínum eigin eyrum í gærmorgun þegar ég lá mjög syfjuð uppi í rúmi og hlustaði á Björn Malmquist segja frá afleiðingum nýrra laga gegn fóstureyðingum í Suður-Dakota sem taka gildi í sumar. Það hefði eðlilega verið hægt að segja, ,,æ þessir suðurríkjamenn þarna í Bandaríkjunum" og þrýsta á snooze takkann. En Björn hélt áfram að segja frá umræðunni í Bandaríkjum á skýran og skilmerkilegan hátt og sagði að tilgangur laganna væri lögsóknir svo að hnekkja mættir Roe vs. Wade dómnum sem að mínu mati er einn sögulegasti hæstaréttardómur Bandaríkjanna.

Sá dómur varð til þess að konur áttu rétt á fóstureyðingum og þessi dómur hefur haldið í 33 ár. Ríkisstjórinn sagði þegar hann skrifaði undir að þau væru bein árás á úrskurðinn um Roe vs. Wade. Bendi á heita umræðu á vefritinu www.tikin.is um ummæli ungra frjálshyggjumanna í tilefni þessa máls. Ef málaferli er það sem stuðningsmennirnir biðja um er þetta einhver leikflétta sem tengist breytingum í hæstarétti Bandaríkjanna undanfarið ár. Bush hefur skipað John Roberts sem Chief Justices og núna í janúar Samuel Alito sem Associate Justices. Þetta verður verulega heitt og umdeilt mál og alls ekki ljóst hvorum flokki þetta mál hjálpar yfirleitt.

Þeir sem hafa búið í Bandaríkjunum vita að það er ótrúlegur munur á þankagangi eftir búsetu eins og kemur svo vel fram eftir kosningabaráttur um forsetastólinn. Eins og sést á þessu korti eru rauðu fylkin (Repúblikanar) með afgerandi aðra landfræðilega stöðu en þau bláu (Demókratar). Þetta breytist ekkert strax og þeir sem halda að Hillary Clinton sigri næstu kosningar ættu að liggja aðeins yfir þessu korti. Á meðan að kortið er svona rautt er líklegt að umræðan um fóstureyðingar verði á jafnmiklum villigötum og hún er í Bandaríkjunum í dag.

Breytingar á ríkisstjórn

Nú þegar þjóðin hefur melt þessi ráðherraskipti eru fjórar spurningar sem sitja eftir að mínu mati.

  1. Er þetta breytingin á ríkisstjórn sem að Halldór boðaði þegar hann tók við forsætisráðherrastólnum 2004?
  2. Er glundroðinn í Framsóknarflokknum það mikill að Árni Magnússon yfirgefur sviðið áður en það brotnar?
  3. Er viturlegt fyrir Framsóknarflokkinn sem missti frá sér framtíðargæðing í dag að skipta um í heilbrigðisráðuneytinu sem er heitasti málaflokkurinn í dag. Siv er óneitanlega mjög kokhraust og sagði hér ?Ég er að taka við mjög góðu búi hjá Jóni Kristjánssyni. Ég er full tilhlökkunar og veit að þetta mun takast mjög vel til hjá okkur?. [Myndir af blómasendingum til Sivjar og umfjöllun Össurar um starfshætti Sivjar í þessu samhengi eru skemmtilegar. ]
  4. Er álagið á ráðherrum og stjórnmálamönnum orðið of mikið samanber brotthvarf þó nokkuð margra yngri stjórnmálamanna á undanförnum árum (Árni Magnússon, Bryndís Hlöðversdóttir, Ásdís Halla Bragadóttir) eða er spennandi hluti stjórnmálanna horfinn til viðskiptalífsins?

Ef að bleiku skæruliðarnir eru samkvæmir sjálfum sér hljóta þeir að fagna þessum breytingum á ríkisstjórn Íslands. Líklega heyrist þó ekkert frá þeim í þetta sinn þar sem fagna ætti fleiri konum í ríkisstjórn sem Samfylkingin stendur ekki að. Ekki frekar en að feministar hafi sagt neitt þegar Samfylkingin hafnaði konu í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningar í nýliðnum mánuði.

Það er í raun alveg magnað hvernig fjölmiðlar kynna Feministafélag Íslands sem ópólitískt félag. Af hverju ætli félagið hafi farið í spurningakönnun og kynningu á frambjóðendum Samfylkingarinnar í miðju prófkjöri? Sérstaklega ber að lesa eftirfarandi fullyrðingu vel og vandlega sem finnst á vefsíðu feministafélagsins. Bendi lesendum á að orðið feministi þýðir jafnréttissinni en er ekki lýsandi fyrir aðferðir þær sem notaðar eru til að ná jafnrétti.


Jafnrétti er ekki bara að jafna höfðatölu kvenna og karla heldur að taka tillit til sjónarmiða og veruleika beggja kynja, viðmiða þeirra og gilda, í allri ákvarðanatöku og stefnumótun. Einkavæðing, markaðsvæðing, útboðsstefna og hagræðingar eru t.d. þættir sem geta haft kynbundnar afleiðingar þótt þær virðist kynhlutlausar á yfirborðinu. Oft eru lægstu störfin boðin út fyrst (ræsting, þvottar), gjarna með kynbundnum afleiðingum. Þá geta markaðsvæðing eða hlutafélagavæðing borgarfyrirtækja gert erfiðara að fylgjast með launum kynjanna og bregðast við honum. Hver er þín afstaða í þessum málum í rekstri borgarinnar?


Strætó fyrir hverja?

Við hjónin eigum einn 10 ára strák sem er farinn að flakka um borgina til að heimsækja vini og vandamenn. Í gær hjólaði hann til vinar síns í Laugardalnum í ótrúlegum umferðarþunga og svifryki yfir hættumörkum sem fræðingar segja að stytti líf manns um 60 daga.

Og er þetta ekki eðlilegt? Jú, líklega en mér finnst þetta ekki besta leiðin fyrir hann að ferðast. Ég vil að Strætó (www.bus.is) sé notaður á dögum eins og þessum, þegar það er kalt og skítugt. Ég vil að Strætó virki sérstaklega vel fyrir þarfir þeirra sem ekki geta keyrt, þ.e. yngri og eldri Reykvíkinga.

Gott og vel. Kíkjum á heimasíðu Strætó og skoðum hvernig hann kemst í Laugardalinn. Fyrsta tillagan er hér að neðan, 28 mínútur, 2 vagnar, skipti á Hlemmi og samtals tæplega 300 m. ganga. Algjörlega furðulegur ferðamáti. Það tekur minni tíma fyrir mig að skutlast heim úr miðbænum og koma honum í Laugardalinn og fara aftur í vinnuna. Þetta getur ekki verið.

Skoðum þetta nánar, hann hlýtur að geta farið án þess að skipta um vagn og fara niður á Hlemm.

Önnur tillagan er líka hér að neðan, en hún er valin af korti eftir stærri götum en áður. Til þess að finna þetta notaði ég mjög flott kerfi á heimasíðunni, í raun flottara en leiðakerfið sjálft. Þessi leið gerir ráð fyrir að sonur minn gangi rúmlega 700 metra til og frá stoppistöðvum (að lágmarki). Hann þarf t.d. að ganga frá Bústaðakirkju og næstum að Borgarspítla á þessa stoppistöð.

Þessi leið gæti vel gengið (og ekki þarf 10 ára barn að kvarta yfir hreyfingunni sem af þessu hlýst) en þegar skoðað er hversu lítið þétt þetta strætisvagnanet er eftir mörg hundruð milljóna króna breytingar verður maður ansi pirraður útsvarsgreiðandi. Og í þokkabót er komið fargjald fyrir ungmenni (12-18 ára). Hefði ekki verið betra að þétta betur grindina í Reykjavík en að setja allt fjármagn Reykjavíkur í uppbyggingu kerfisins í nágrannasveitarfélögunum?

Ljóst er að markmiðið með breyttu strætókerfi er að keyra alla niður í bæ. Ekki er gert ráð fyrir að fólk þurfi að fara mikið til vina og ættingja eða þá í vinnu í öðrum bæjarhlutum, nema jú þú búir niður í bæ. Þetta er kannski stefnan, að sem flestir búi niðri í bæ og vinni í úthverfum eða búi í úthverfum og vinni niðri í bæ.

Tillaga 1: Vagnar 11 og 14
28 mínútur
Kjalarland: Gengið 170 metra
Bústaðavegur 22:09 Leið 11
Hlemmur (bið 5 mínútur) 22:28 Leið 14
Sundlaugavegur v/Laugardalslaug 22:33 Gengið 90 metra að Laugalæk

Tillaga 2: Vagn 14
18 mínútur
Kjalarland gengið að Eyrarlandi 500 metrar
Bústaðavegur 15:59 Leið 14
Sundlaugavegur v/Laugardalslaug 16:15 Gengið að Laugalæk 150 metrar


Aðferðafræðin er aukaatriði


Það er ekkert annað en lóðaskortsstefna R-listans er að valda þessum vandræðagangi bæði núna við útboð í Úlfarsfelli og lottóið í Lambaseli. Þrátt fyrir að borgarfulltrúar meirihlutans og nýkjörinn oddviti skýri betur út hverjir mega bjóða í lóðirnar þá hefði klúðið orðið eitthvað annað - til dæmis hefði viðkomandi verktaki fengið vini og vandamenn og fjölskyldu sína til að bjóða í lóðirnar með sínum kennitölum. Vatnið leitar alltaf leiða til að komast niður fjallið í svona efnum. Þegar skortur á lóðum er viðvarandi eins og núna verður aldrei friður í kringum úthlutun lóða.

Það er ljóst að auka þarf hratt og örugglega framboð á lóðum til þess að hægt sé að veita Reykvíkingum tækifæri á að finna sér viðunandi heimili í borginni. Það er hægt að gagnrýna allar aðferðir útboðsleiða en málið snýst einfaldlega ekki um aðferðafræði í þessu máli. Það snýst um það að allt of fáar lóðir hafa verið boðnar út síðustu 12 ár og því mikil eftirspurn eftir lóðum í Reykjavík. Útboð eins og í Úlfarsfelli með þetta fáar lóðir er því gert til að ýta undir verð á lóðum.

Moli: ný könnun í borginni

Könnun: D og Sf með jafnmarga menn í Reykjavík
Sjálfstæðiflokkur og Samfylking fengju 7 borgarfulltrúa kjörna og Vinstri hreyfingin-grænt framboð einn ef gengið yrði til kosninga nú. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir Samfylkinguna. Ef skoðuð eru svör þeirra er tóku afstöðu fengi Sjálfstæðisflokkur tæp 46% atkvæða, Samfylking rúm 40%, Vinstri grænir fengju rúm 8% atkvæða, Framsóknarflokkurinn tæp 4% og Frjálslyndi flokkurinn um 1,5%. Sjöundi borgarfulltrúi Sf stendur þó mjög tæpt og litlu munar að D-listi nái 8. manni inn. Úrtak könnunarinnar var 800 hundruð manns í Reykjavík, á aldrinum 18-80 ára. Svarhlutfall var rúm 70%.

Moli: Nemendur með íslensku sem annað mál

Í nýjum tölum frá Hagstofunni kemur fram að tæplega 1600 grunnskólabörn hafa erlent tungumál að móðurmáli. Í haust voru 1.594 börn í grunnskólum með annað móðurmál en íslensku og hefur fjölgað 225 frá síðastliðnu skólaári, sem er rúmlega 16% fjölgun.

Um 3,6% allra grunnskólanemenda hafa annað móðurmál en íslensku. Alls hafa 264 börn pólsku sem móðurmál, 173 ensku og 144 tala filippseysk mál. Pólska hefur verið algengasta erlenda móðurmálið í grunnskólum frá haustinu 2002 en árin þar á undan var enska algengasta erlenda móðurmál grunnskólanema.

Moli: Málþing um fjölmiðla á morgun

Menntamálaráðuneyti og Rannsóknasetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands bjóða til málþings um fjölmiðla, miðvikudaginn 22. febrúar. Málþingið verður í Þjóðminjasafni Íslands milli kl. 13.00 ? 16.00.

DAGSKRÁ MÁLÞINGSINS

13.00 Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flytur ávarp
13.15 Sigve Gramstad, fyrrverandi forstjóri Medietilsynet og sérfræðingur Evrópuráðsins, fjallar um fjölmiðlalögin í Noregi og ber saman við íslenskar aðstæður
13.45 Guðbjörg Hildur Kolbeins, fjölmiðlafræðingur, skoðar hvernig hægt sé að stofna nýjan fjölmiðil á Íslandi í dag
14.15 ? 14.30 Kaffihlé
14.30 Elfa Ýr Gylfadóttir, fjölmiðlafræðingur, fjallar um forsendur og markmið nýrra fjölmiðlalaga
15.00 Þorbjörn Broddason stýrir panelumræðum. Í panel sitja Páll Magnússon, útvarpsstjóri, Magnús Ragnarsson, forstjóri Skjás Eins, Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins og Ari Edwald, forstjóri 365.

Fundarstjóri er Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands.

Málþingið er öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu. Ekki þarf að tilkynna þátttöku.
Frekari upplýsingar veitir Elfa Ýr Gylfadóttir, deildarstjóri í menntamálaráðuneyti.

Hver tilboðshafi bauð að meðaltali í 13 lóðir

Það er með ólíkindum hversu illa R-listinn klúðrar öllu er viðkemur lóðum og skipulagi. Lotterí í Breiðholti, skipulagsslysið Hringbrautin, bútasaumurinn í Vatnsmýrinni og nú þetta ótrúlega klúður við úthlutun lóða í Úlfarsfelli.

Í útboðsskilmálum kemur fram að lögaðilar geti ekki gert kauptilboð í byggingarrétt á lóðum fyrir einbýlishús en umrædd tilboð gerði Benedikt Jósepsson, eigandi fyrirtækisins ByggBen ehf., í eigin nafni. Að meðaltali hljóðuðu tilboð Benedikts upp á 20 milljónir króna fyrir hverja lóð. Benedikt fékk 39 lóðir af 40 mögulegum.

Tekjur Reykjavíkurborgar af sölu byggingarréttar á 120 lóðum í suðurhlíðum Úlfarsfells eru samkvæmt þessum útboðstölum allt að 4,3 miljörðum króna. Byggingarréttur fyrir hverja íbúð er að meðaltali um 10,5 miljón. Alls gerðu 313 aðilar 4.240 tilboð í lóðir. Þetta þýðir að hver og einn af þessum 313 aðilum gerðu 13 tilboð í hverja lóð að meðaltali sem sýnir að þarna voru töluvert margir í sama tilgangi og Benedikt.

Dagur ósýnilegur sem formaður skipulagsráðs

Það er merkilegt að Dagur hinn yfirleitt mjög sýnilegi í öllum skipulagsmálum sé gjörsamlega ósýnilegur í þessu máli. Ætli það sé verið að verja nýja oddvitann fyrir hnjaski? Á hann að sleppa við pólitík og öll önnur óþægindi? Hvar er sýnilega, opinbera og lýðræðislega stjórnsýslan hans Dags?

Klúðrið í Úlfarsfelli er margfalt. Í fyrsta lagi var engin samstaða um þessa aðferðafræði í borgarráði. Í öðru lagi var lágmarksupphæð sú sem gefin var fyrir einbýlishúsalóð mikið hærri en lottótalan í Breiðholt og of há miðað við markaðsverð sambærilegra lóða í nágrannasveitarfélögunum. Í þriðja lagi er alls ekki skýrt að það hagnist einstaklingum, þ.e. Reykvíkingum, betur að einstaklingar byggi húsin sjálfir. Færa má sterk rök fyrir því að byggingaraðilar geti byggt á hagkvæmari hátt og uppboð því eðilegri og betri leið fyrir reykvískar fjölskyldur. Í fjórða lagi er gefið að þessi vandi heldur áfram að vera vandi á meðan að slíkur skortur er á lóðum eins og raun ber vitni.

Nú segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, það ekki koma til greina að sami einstaklingur fái allar einbýlishúsalóðirnar sem boðnar voru út í Úlfarsárdal nú fyrir helgi. R-listinn ætlar að nýta sér fyrirvara sem eru í reglunum en þá er líklega borgin skaðabótaskyld. Enn hafa þessir fyrirvarar ekki verið opinberaðir og virðist enginn stjórnmálamaður hafa þá á hreinu. Eini maðurinn sem sá og sér ljósið er Árni Þór Sigurðsson oddviti Vinstri grænna þegar hann sagði í gær: ,, ...sú aðferð Reykjavíkurborgar að efna til útboðs við úthlutun einbýlis- og parhúsalóða í landi Úlfarsárdals [hefur] beðið skipbrot."

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband