Vísindi í grunnskólum

Íslendingar fjúka upp alla lista í samanburði við önnur lönd í flestu sem við getum borið okkur saman í. Ein tafla sker sig þó úr og sýnir lágt hlutfall íslenskra nemenda sem fara í vísinda- og tækninám í háskólum. Við sjáum fleiri og fleiri velja náttúruvísindabraut í framhaldsskóla en þrátt fyrir það er hlutfallið á milli raunvísinda og félagsvísinda ólíkt öðrum löndum þegar háskólanám er skoðað.

Lykillinn er að byrja á fyrstu skólastigunum, í leikskóla og í grunnskóla. Í leikskóla er hægt að kynna með leik eins og víða er gert hin mismunandi efni sem jörðin gefur okkur. Í Montessori hugmyndafræðinni er mikið lagt upp úr því að leyfa börnum að snerta á ólíkum efnum, fljótandi og í föstu formi, að blanda saman hlutum og byggja upp þann þankagang sem undirbyggir tilraunastarfsemi.

Í grunnskóla ættu tæki og tól fyrir raunvísindakennara að vera mun betri en þau eru í dag. Mér dettur í hug að hafa sameiginlegt geymslurými sem sveitarfélög geta sameinast um þar sem dýrari tækin eru til útláns. Það sem er svo spennandi við vísindin eru tilraunirnar og börnum (yngri en 13 ára) finnst þetta leikur einn. Sonur minn er í Ísaksskóla og þar eru þau t.d. byrjuð að telja dagana sem það tekur að láta vatn gufa upp. Allt þetta miðar að því að kveikja í börnunum, sýna þeim hvað vísindi eru spennandi og hvernig hlutir bæði breytast og verða til fyrir framan okkur.

Þá komum við að vandanum. Kennara skortir sem hafa góðan bakgrunn í að kenna ungum börnum vísindi. Sami vandi blasir við í Kaliforníu um þessar mundir og þessi grein er áhugaverð með tilliti til þess hvernig þeir nálgast vandann með ýmsum úrræðum. Scwarzenegger hefur ákveðið að láta peningana tala.

Þetta er hugmyndafræði sem að við höfum ekki nýtt okkur mikið. Íslendingar eiga alltaf erfitt með að ræða um styrki og peninga í tengslum við menntun (og heilbrigðismál). En þetta eru góðar hugmyndir. Ég sé fyrir mér að ÞEGAR við Sjálfstæðismenn vinnum borgina gætum við boðið styrki til þeirra námsmanna sem velja að fara í kennaranám með áherslu á vísindakennslu í kennaraháskólum landsins með því skilyrði að þeir kenni í 4 ár í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Þessir nemendur gætu þá minnkað lántöku sína hjá LÍN og verið tryggir með vinnu að loknu námi.

Tækifærin sem enginn velur að sjá

Steinar Ólafsson skrifaði grein á Hugsjónir.is 27. mars sl. um áætlanir ríkisstjórnarinnar um að breytta námsskipan til stúdentsprófs. Ég get ekki setið hljóð hjá þegar hægri menn, félagar mínir, skrifa með þessum hætti. Mér þykir miður þegar að einstaklingar skrifa greinar án þess að kynna sér málin að minnsta kosti að einhverju leyti. Ég geri því hér tilraun til að upplýsa og leiðrétta félaga mína á þessu fína vefriti.

Sú grunnhugmyndafræði sem við hægri menn aðhyllumst er lögð til grundvallar í öllum verkefnum í menntamálaráðuneytinu undir styrkri stjórn ráðherrans, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Leiðarljós allra verkefna eru hugtökin valfrelsi, einkarekstur, fjölbreytni, árangur og sjálfstæðir skólar. Það er algjör firra að tala um forræðishyggju, ríkisrekstur og einsleitni þegar rætt er um verkefni menntamálaráðherra.

Ákvörðun um breytta námsskipan til stúdentsprófs á sér 10 ára aðdraganda. Nefnd um mótun menntastefnu lagði til 1994 að námsárum til stúdentsprófs yrði fækkað um eitt ár og árlegur kennslutími grunn- og framhaldsskóla lengdur. Nefndin taldi nauðsynlegt að lenging skólatíma grunnskólans yrði komin að fullu til framkvæmda og reynsla komin af nýrri aðalnámskrá (frá 1999) áður en að til styttingar kæmi. Í kjölfarið hafa margar skýrslur komið út og mikil umræða farið fram og mikið vatn runnið til sjávar. Næstum allir eru sammála um að nýta megi tímann betur í skólakerfinu. Nú sem fyrr er leitast við að nálgast verkefnið þannig að sjónarmið okkar hægri manna fái að njóta sín enda ráðuneytið búið að vera undir styrkri stjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1991.

Tíminn. Af hverju þarf að nýta tímann betur, eru nemendur ekki sveittir við nám í öllum skólum landsins alla daga? Jú, aukning skólatíma bæði í grunn- og framhaldsskóla sem lögð var til 1994 er nú komin til framkvæmda og hefur kennslustundum fjölgað um 2.310 í grunnskóla og í framhaldsskóla um 400 frá árinu 1994. Þessi fjölgun kennslustunda er staðreynd og flestir eins og sagði áðan sammála um að þétta þurfi kerfið, þ.e. færa kennsluefni til að nýta þann tíma sem kominn er inn í kerfið. Þessi fjölgun gerir okkur Íslendinga líka methafa í kennslustundum hjá OECD en alls ekki methafa hvað varðar gæði kerfisins.

Þá situr eftir spurningin um hvernig eigi að framkvæma verkefnið að breyta námstímanum. Það er eðilegt að skiptar skoðanir séu um aðferðina. Sumir segja styttum grunnskólann. Aðrir segja styttum framhaldsskólann. Enn aðrir segja búum til gamla landsprófið og röðum í bekki og flýtum þannig sumum en öðrum ekki. Allir hafa eitthvað til málana að leggja og hægt er að samþykkja rök í öllum tillögum. Margir fagmenn hafa komið að málinu undanfarin 10 ár og þegar fyrir lá að breyta námstíma til stúdentspróf úr 14 árum í 13 var ákveðið út frá sterkum rökum að betra væri að breyta framhaldsskólanum en grunnskólanum.

Nú veit ég ekki hvort ég hafi tapað lesendum frá skjánum við þessa tæknilegu útlistun en því miður er málið umfangsmikið og það tekur töluvert á að sýna fram á markmiðin í málinu. Ég vil þó núna víkja að fullyrðingum Steinars sem segir að Þorgerður Katrín sé að ráðskast með framhaldsskóla landsins. Ég bið hann um að byrja á því að kíkja á lög um framhaldsskóla, lög um grunnskóla, lög um framhaldsskóla og aðalnámskrár þessara skólastiga og hefja umræðuna þar. Sem alvöru frjálshyggjumaður ætti hann fyrst og fremst miðað við skoðanir hans í umræddri grein að leggja til að þessi lög öll verði lögð niður. Er það ekki alvöru frjálshyggja? Er það ekki alvöru einkavæðing á menntakerfinu? Engar námskrár til að breyta, engin skilyrði til að uppfylla, ,,back to basics?.

Ef hann er sammála mér um að gott menntakerfi sé allri þjóðinni til heilla og að hann vilji ekki að foreldrar hans borgi himinhá skólagjöld frá leikskóla að framhaldsskóla þá verður hann að vera sammála því að löggjafinn hlýtur að setja skólakerfinu einhvern ramma. Og þá, ef breytingar eiga sér stað, þarf að breyta rammanum. Ramminn hins vegar er eitthvað sem við, hægri menn, vinnum að jafnt og þétt að losa sem mest án þess að víkja frá gildum um jafnan rétt til náms. Einkarekstur er til staðar í framhaldsskólakerfinu, skólameistarar hafa mikinn sveigjanleika og reka skólana eins og fyrirtæki, samkeppni er mikil á milli framhaldsskóla og kennsluaðferðir og menning skólanna ólík. Í breyttri námsskipan til stúdentsprófs felast mörg frábær tækifæri til að losa áfram ramma, auka fjölbreytni og bjóða nemendum upp á meira val.

Og að lokum. Ef skólakerfið í heild sinni væri einkavætt þá væri fyrst tryggt, kæri Steinar að nám yrði stytt!

Birt á vefritinu www.hugsjonir.is í dag 30. mars.

Hvar vil ég eldast?

Áherslur frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir vel heppnað prófkjör í haust voru skýrar. Frambjóðendur voru á einu máli um að vinna skuli af heilindum og af framkvæmdagleði við að bæta það umhverfi og þá þjónustu sem við bjóðum eldri Reykvíkingum. Þeir sem eldri eru eiga það skilið frá okkur sem yngri erum að tryggt sé að raunverulegt val um eigin búsetu og fjölbreytta valkosti í þjónustu, aðstöðu og umhverfi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gjörbreyta þjónustu Reykjavíkurborgar við eldri borgara og hefur nú kynnt áherslur sínar í málaflokknum.

Áhersla á valkosti
Sjálfstæðismenn standa fyrir hugmyndum um fjölbreytta valkosti og jafnan rétt einstaklinga að þjónustu þess opinbera. Þessi hugmyndafræði er grundvöllur ákvarðanatöku í öllum málaflokkum, jafnt í þjónustu við unga Reykvíkinga og við eldri Reykvíkinga. Í Reykjavík ætla Sjálfstæðismenn að leggja áherslu á að eldri borgurum verði gert kleift að búa á eigin heimili svo lengi sem þeir kjósa með því að efla og samræma heimaþjónustu og heimahjúkrun. Fyrir þá sem eru tilbúnir til að yfirgefa heimili sitt eða þurfa meiri aðstoð leggjum við áherslu á aukið val um búsetukosti fyrir eldri borgara við gerð skipulags. Mikilvægt er að hefjast strax handa við að því að tryggja einstaklingum með afar brýna þörf fyrir þjónustuíbúð eða hjúkrunarrými viðeigandi úrræði í góðri samvinnu við ríkið, sjálfseignarstofnanir, samök eldri borgara, sjúkrasjóði og lífeyrissjóði. Staðan í dag er hreinlega óviðunandi.

Áhersla á fjölbreytni
Eldri Reykvíkingar eiga að hafa sama val og aðrir Reykvíkingar um fjölbreytta búsetukosti. Hefja þarf undirbúning að því að hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir, leiguíbúðir og almennar íbúðir verði byggðar í hverfum og stuðla þannig að því að hjón og sambýlisfólk geti búið saman eða með börnum sínum. Draga þarf úr stofnanatilfinningu og falla frá hugmyndum um sérstök þorp fyrir aldraða. Fremur þarf að berjast gegn sundrung og einangrun einstaklinga og fjölskyldna með því að búsetukostir séu á ólíkum stöðum í hverfum. Samfara því þarf að efla félagsstarf og aðkomu einkaaðila að ýmissri þjónustu. Málshátturinn hvað ungur nemur gamall temur ætti að vera til hliðsjónar til að ýta undir aukin samskipti kynslóðanna.

Horfum til framtíðar og vinnum að úrbótum
Íslendingar þurfa að hugsa til framtíðar og ímynda sér framtíð sína sem eldri borgarar. Þeir sem eldri eru eiga skilið að þessi framtíðarsýn sé sett í framkvæmd strax í dag. Reykjavík hefur sem sveitarfélag lagaskyldu um að eiga frumkvæði að uppbyggingu stofnana eða því hvaða aðili skuli vera ábyrgur fyrir því að þessi þjónusta sé fyrir hendi. Stefnumótun með hagsmunaaðilum er tímabær og nauðsynleg til þess að hefja áætlanagerð um búsetukosti fyrir eldri borgara. Við stefnumótun þarf að taka mið af ólíkum fjárhagslegum, félagslegum og heilsufarslegum þörfum og aðstæðum aldraðra. Öll úrræði á hverju þessara sviða skulu saman miða að því að aldraðir geti búið sem lengst á eigin heimili. Tryggjum öldruðum frelsi til að velja í Reykjavík.

Greinin birtist í dag í Morgunblaðinu

Condi í Meet the Press

Uppáhaldsspjallþátturinn minn er Meet the Press á NBC með Tim Russert. Hann er einstaklega hæfur spyrill og er alltaf búinn að kynna sér málin mjög vel. Hann er ávallt með einn gest í lengri eða skemmri tíma og er birtir alltaf staðreyndir til að leiða umræðuna. Stjórnmálamenn komast að auki ekki upp með að svara óskýrt því Tim spyr alltaf aftur þar til hann er sáttur við svarið eða sér að hann kemst alls ekki lengra (gerist mjög sjaldan).

Á sunnudaginn var utanríkisráðherra Bandaríkjanna Condoleezza Rice í viðtali hjá honum. Viðtalið er sérstaklega áhugavert fyrir þá sem fylgjast vel með Íraksstríðinu. Það segir mikið hversu mikill tími fer hjá Rice að réttlæta stríðið nú þegar að fjórða árið er að hefjast og Bandaríkjamenn hafa sett í stríðið 350 billjónir dollara.

Rice says Iran cannot have nukes

Hvar er Guðmundur Magnússon?

Ég er dyggur lesandi Guðmundar Magnússonar sem hefur undanfarið skrifað frá degi til dags. Undanfarna daga hefur allt legið niðri. Vona að það lagist fljótt.

Felum ekki byggðamarkmið í nýsköpunarorðinu

Ég verð að segja eins og er að ég hélt að þetta hefði bara verið hugdetta hjá Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra að sameina þessar stofnanir þrjár eins og lesa má hér. Mér finnst byggðastefnupólitík Framsóknarflokksins hafa fengið allt of mikið vægi undanfarin ár og síðan kemur þetta. Ég er ættuð af Sjávarborg í Skagafirði þarna rétt fyrir utan Sauðárkrók þannig að erfitt er að saka borgarpólitíkusinn um eitthvað. En þetta er bara of mikið og ég hef bara því miður ekki trú á að þessar stofnanir muni blómstra á Sauðárkróki frekar en í Reykjavík. Í fréttatilkynningunni segir:

,,Hér er mörkuð framsækin nýsköpunar-, atvinnu- og byggðaþróunarstefna og jafnframt stuðlað að hagræðingu í ríkisrekstri með því að fækka opinberum stofnunum og sjóðum sem í mörgum tilvikum eru að fást við svipuð verkefni."

Gott og vel, Sjálfstæðismenn kaupa þetta. Stærri spurningar sitja þó eftir, t.d. hvernig hagræðing á sér stað þegar ekki á að segja neinum upp? Og hvernig nýsköpunarhlutverk hinnar nýju stofnunar á að vera uppfyllt 4 klukkustunda ökufjarlægð frá öflugri háskólum landsins og framtíðar vísindaþorpi í Vatnsmýrinni? Og hvað með höfðuborgina, á alltaf endalaust að sitja hjá og segja pass í svona málum. Eru allir í félagslegri rétthugsun og enginn segir neitt þegar stórar stofnanir eru fluttar úr höfðuborginni? Ég mótmæli sem Reykvíkingur.

Stofnfundur AFA

Ég og Atli sonur minn skunduðum í Hafnarfjörðinn í gær til að vera viðstödd stofnfund AFA, aðstaðdendafélags aldraðra. Ég skráði mig stolt í félagið og ber miklar vonir til þess að þetta félag sinni af heilindum og krafti stefnumálum sínum sem öll miða að því að fara að framkvæma og koma úrræðum í framkvæmd fyrir eldri borgarana okkar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti okkar í Reykjavík á glæsta sögu að baki þegar þessi málaflokkur er skoðaður því hann hefur verið drifkraftur í málefnum eldri Reykvíkinga öll þau ár sem hann hefur verið í borgarstjórn. Hann hefur líka þekkingu á málaflokknum í gegnum stjórnarsetu sína á hjúkrunarheimilum eins og Eir. Ég heimsótti nokkur hjúkrunarheimili í prófkjörinu og varð sannfærðari við þær heimsóknir um nauðsyn þess að setja málefni eldri borgara á oddinn. Hann Atli minn sem er nýorðinn 6 ára kom með mér á Hrafnistu í heimsókn í haust. Það situr í mér margt úr þeirri heimsókn sem ég mun geta nýtt í málefnavinnu en sérstaklega sá ég hvað gladdi marga að sjá litla strákinn valhoppandi þarna um. Auðvitað er gaman fyrir alla að sjá börnin glöð og saklaus. Af hverju erum við ekki meira að hugsa í samfélögum frekar en stofnunum?

Skýr munur á afstöðu til Evrópusambandsins

Ný skoðanakönnun Gallup (sem var kynnt í fréttum NFS kl. 12.00) sýnir að skýr munur er á milli stjórnmálaflokka gagnvart mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu og Evrunni. Næstum 60-70% Samfylkingarinnar er hlynntur aðild að Evrópusambandinu, 50% framsóknarmanna og 30% af fylgismönnum VG og Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er dálítið fyndin niðurstaða í ljósi þess að formaður Samfylkingarinnar og Jón Baldvin Hannibalsson voru nýlega með blaðamannafund þar sem þau kynntu hugtakið Sjálfstæða utanríkisstefnu. Ég tek undir mikilvægi þess að umræða þurfi að hefjast um hvaða varnir Íslendingar telji mikilvægar en sjálfstæð utanríkisstefna verður hún ekki samfara aðild að Evrópusambandinu. Langt í frá.

Er Össur hnakki?

Össur hvatti okkur tíkarpenna til að segja skoðun okkar á því sem hann kallar flatneskju ómengaðar kvenfyrirlitningar. Þarna er Össur að vísa í brandara sem að Geir sagði á opnum fundi í Valhöll um varnarmálin. Á heimasíðu Össurar er eftirfarandi spurning sett fram:

Hvað ætli vinkonur mínar í Tíkunum segi um þetta framlag formanns síns til umræðunnar um stöðu konunnar í Sjálfstæðisflokknum sem stundum geisar einsog eldgos á síðum þeirra? Hvað ætli þær hefðu skrifað marga álnarlanga dálka um mig ef ég hefði látið jafn ótrúleg ummæli um munn fara á opnum stjórnmálafundi?

Í fyrsta lagi finnst mér mjög fyndið að hann Össur setji sig á sama stall og formaður Sjálfstæðisflokksins varðandi ummæli Tíkarpennar um menn og málefni. Össur, þú verður að fara að átta þig á því að þú ert hvorki formaður né varaformaður flokksins þíns.

Í öðru lagi er Geir sá maður sem hefur hvað ötulast talað fyrir framgöngu kvenna í Sjálfstæðisflokknum. Geir er sá karlmaður í Sjálfstæðisflokknum sem hefur sýnt samstarfi kvenna í flokknum hvað mesta athygli enda framsýnn maður með eindæmum. Ég held að allar þær konur sem starfa í flokknum viti þetta af eigin reynslu eða samtölum við Geir.

Í þriðja lagi eru brandarar misvel heppnaðir. Það er alveg eins hægt að vísa í sárindi Össurar yfir yfirlýsingum Hallgríms Helgasonar um aldur Styrmirs Gunnarssonar í Morgunblaðsgrein í dag og segja að það sé ekki fair play að taka brandara úr samhengi eins og gert er við orð Geirs í þessari varnarmálaumræðu. Maður leggst bara ekki svona lágt.

Í fjórða lagi eru Tíkur ekki sammála því að ekki megi gera grín af konum eins og konur gera grín af körlum. Að minnsta kosti er ég orðin dauðleið á þeim pólitíska réttrúnaði að ekki megi gera grín af konum. Ég tel það ala á ójafnræði kynjanna sem fyrirsláttur um að konum þurfi að sýna einhverja vægð. Ef kona hefði sagt þennan brandara hefði hún líklega aldrei fengið þessa umfjöllun.

Það væri til dæmis lítið mál fyrir hvern og einn að fara að rýna í öll misheppnuðu kommentin hjá Össuri eftir að hann tapaði formannsslagnum. Þau mættu jafnvel teljast sem einn allsherjar brandari.

Ágreiningurinn hefur alltaf verið til staðar

Eftirfarandi fréttir sýna skýrt hversu ósammála R-listinn er í orkumálum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að þessi staða kemur upp en nýjasta dæmið er uppákoman um rannsóknir á orkuöflun í Kerlingarfjöllum. Vinstri grænir hafa hingað til verið lempaðir í umræðunni en nú virðist vera komið annað hljóð í fólkið. Það verður áhugavert að fylgjast með þessu næstu daga.

20.3.2006 NFS Fréttir
Stjórnvöld máttu vita í byrjun febrúar að herinn færi. Nú er atvinnulífið á Suðurnesjum í uppnámi, en álversframkvæmdir gætu samt hafist í Helguvík þegar á næsta ári. Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur hefur tilkynnt forsætisráðherra að Orkuveitan geti komið að orkusölu til stóriðju á Suðurnesjum mun fyrr en áður var talið. Í umræðum síðustu daga um atvinnumál á Suðurnesjum hefur komið fram að Norðurál treystir sér strax á næsta ári til að hefja framkvæmdir við álver í Helguvík sem hæfi rekstur eftir 3 ár. Til þess þurfi þó 200 Megavött af raforku, þar af geti Hitaveita Suðurnesja útvegað 100 megavött fyrir þann tíma, en leita þurfi Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar um það sem á vantar. Í viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Alcan fyrir 2 mánuðum skuldbatt Landsvirkjun sig hins vegar til þess að ræða ekki við aðra aðila um orkusölu til stóriðju fyrr en séð yrði hvort samningar tækjust um Straumsvík. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar: Við hófum samningaviðræður við Alcan í Straumsvík og ég á ekki von á því að þeim ljúki fyrr en seint á þessu ári og á meðan við ræðum við þá, getum við ekki talað við aðra. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur: Ja, ég vil nú geta þess að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hefur leitað til Orkuveitu Reykjavíkur og spurst fyrir um það hvort að Orkuveitan gæti útvegað viðbótarraforku til stóriðju í Helguvík. Ég hef tjáð forsætisráðherra að við séum jákvæðir og munum skoða það vandlega hvort að við getum ekki gert þetta og svona í fljótu bragði þá virðist mér ekkert standa í vegi fyrir því að svo geti orðið. Orkuveitan hefur einnig ritað undir viljayfirlýsingu gagnvart Straumsvík, en Alfreð telur að fyrirtækið geti samhliða þjónað Helguvík. Alfreð Þorsteinsson: En svona almennt séð, þá held ég að við ættum að geta bæði útvegað orku til Alcans og til Helguvíkur. Ekki eru nema 10 mánuðir frá því að stjórn Orkuveitunnar hætti við að skrifa upp á viljayfirlýsingu um orkusölu til álvers í Helguvík vegna andstöðu Vinstri-grænna í borgarstjórn Reykjavíkur. En gæti slík mótstaða truflað þessi áform? Alfreð Þorsteinsson: Ja, ég tel nú að forsenda séu mjög breyttar. Þetta er náttúrulega mjög sérstök staða sem er komin upp á Suðurnesjum og menn hljóti nú að vera tilbúnir til þess að ræða málið á þeim grundvelli. Ég trúi því ekki að nein stjórnmálaöfl hér í landinu standi gegn því að fólk, hvort sem það er á Suðurnesjum eða annars staðar geti stundað atvinnu.

NFS, 21. Mars 2006 12:30
Gagnrýna stjórnarformann OR Stjórn Vinstri grænna í Reykjavík telur fráleitt að Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, vilji að Orkuveitan hafi forgöngu um frekari skuldbindingar um orkusölu til álvers í Helguvík, án samráðs við stjórn Orkuveitunnar og borgarstjórn. Í fréttum NFS í gær sagði Alfreð að til greina kæmi að Orkuveitan kæmi að slíkri orkuöflun. Stjórn Vinstri grænna minnir á að fyrir fáum mánuðum hafi stjórn Orkuveitunnar ákveðið að taka ekki þátt í orkuöflun fyrir Helguvík og sú ákvörðun standi enn óhögguð.


Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
thorbjorg.vigfusdottir@mi.is
www.thorbjorg.isÚr skjali

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband