Grunnnet Símans

Það fer um mann aumingjahrollur yfir vinnubrögðunum í tengslum við hugsanleg kaup Orkuveitu Reykjavíkur á grunnneti Símans. Það er eitthvað svo ófaglegt að vera í viðræðum um svona stóra fjárfestingu án þess að nokkur af þeim sem taka ákvarðanir um málið viti neitt um stefnuna, arðsemiskröfuna eða stöðu mála.

Nú eru liðnar 4-5 vikur síðan að þessar viðræður hófust og enn hafa ekki komið neinar upplýsingar um málið til stjórnar. Í fréttum í kvöld voru allir oddvitar flokkanna í borginni beðnir um álit sitt á málinu. Það var greinilegt að sumir höfðu meiri upplýsingar en aðrir. Björn Ingi hafði að vísu sagt í Morgunblaðinu í dag að hann hefði fengið kynningu á málinu hjá stjórnarformanni Orkuveitunnar (Alfreð Þorsteinssyni). Það er gott að vita til þess að Björn Ingi hafi betri upplýsingar en ég sem stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur fyrir Reykvíkinga.

Það er margt sem er óljóst í þessu máli. Fyrst og fremst hef ég ekki heyrt neina ástæðu fyrir því að þetta sé góð hugmynd fyrir Orkuveituna. Enginn hefur komið með skýra sýn um hvers vegna OR ætti að fara að leggja kopar í uppsveitum og á landsbyggðinni. Annað hvort er þetta endalaus forræðishyggja stjórnmálamanna eða að stjórnendur borgarinnar telji sig hafa rétt til þess að fara í stórkostlega áhættufjárfestingu með fjármuni Reykvíkinga. Kannski bæði.

Nokkur atriði sem mér finnst þurfa að koma fram í þessu samhengi.

Samningur upp á 20 milljarða korteri fyrir kosningar er náttúrulega móðgun við íbúa í borginni. Nýr borgarstjórarmeirihluti má að mínu mati vel skoða málið frá öllum hliðum eftir 27. maí nk. Það er gífurlega óábyrgt að svo stór samningur sé gerður þegar við blasir að nýtt fólk og nýjir listar taki við borginni. Það er tími til fyrir kjósendur að huga að breytingum í borgarstjórn, sérstaklega þegar fé borgarbúa er notað í áhættufjárfestingar.

Orkuveitan er skuldsett vegna mikilla framkvæmda framundan, Hellishæði og stækkun hennar og mögulega framkvæmda í Helguvik. Ekki þarf að minnast á næstum 10 milljarða króna framkvæmdir við lagningu ljósleiðara. Að mínu mati eru þær áætlanir að auki stórkostlega vanmetnar. Kaupin á grunnnetinu kosta meira en ársvelta félagsins.

Nokkrir hafa velt því upp af hverju Síminn kaupi ekki ljósleiðaranetið af OR. Ástæðan er skýr, Síminn á ekki fé og getur ekki fjármagnað lán fyrir þessum fjárfestingum á borgartryggðu láni eins og OR. Síminn er með þessu (eins og kom réttilega fram í Staksteinum í dag) að fjármagna kaup Excista á félaginu með því að láta opinbert fyrirtæki niðurgreiða kaupin. Skattgreiðendur munið að fjármögnun opinberra félaga er ódýrari en einkafyrirtækja vegna borgar- og eða ríkisábyrgða.

Að lokum. Grunnnetið er mjög flókið fyrirbæri og erfitt hefur reynst hingað til að skilgreina það. Það felur í sér breiðband, ljósleiðara og kopar. Að undanförnu hafa tækninýjungar gert okkur kleift að hringja frítt í gegnum tölvur og því einsýnt að kopar er að hverfa. Ríkisvaldið gerir hins vegar kröfur um að allir hafi aðgang að koparkerfinu þrátt fyrir breytingarnar sem nú eru á símakerfum. Sko er dæmi um breytingar á símaþjónustu, þjónustan hjá þeim er að mestu yfir netið og símtölin líka. Ætlar OR að kaupa koparkerfi dýrum dómum til að Síminn geti valið nýjar leiðir í gegnum netið?

Ég vona að flokksbrot R-listans sjái sóma sinn í að leyfa nýjum borgarstjórnarmeirihluta að taka þessa ákvörðun.

Framhaldsskólinn til sveitarfélaga ?

Ég er búin að vera að hugleiða þessa stefnu Samfylkingarinnar um að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaganna. Að vísu bjóst ég við að Dagur myndi setja þetta í stefnuskrá sína sem var kynnt á síðasta vetrardegi en þar kom lítið nýtt fram. En þessi hugmynd á eftir að skjótast aftur upp í umræðum hjá honum og Stefáni Jóni og Björgvini og fleirum á næstu vikum.

Það er tvennt sem Samfylkingarfólk grundvallar skoðun sína á. Annars vegar að grunnskólinn sé svo frábær og hafi orðið mun betri eftir flutninginn til sveitarfélaga. Hins vegar að brottfall sé svo mikið í framhaldsskólunum og það sé svo af því að ríkið reki framhaldsskólana. Báðar þessar rökfærslur eru nokkuð sannfærandi við fyrstu sýn en þurfa ítarlegri skoðun.

Grunnskólinn hefur nú verið hjá sveitarfélögunum í 10 ár. Það er alveg ljóst að hann hefur eflst og nærþjónusta og tengsl heimila og skóla batnað til muna. En er grunnskólinn betri? Við vitum að hann er dýrari, og svo dýr að við erum með dýrasta grunnskólakerfi OECD landanna. Því er vert að spyrja, hafa gæðin fylgt með þessu aukna fjárframlagi? Þetta er voða vond spurning finnst vinstra fólkinu en hún er afar eðlileg. Hærri framlög til menntamála eru ekki góð nema þau skili sér í betri menntun. Það er enginn sem hefur getað sýnt fram á að menntunin sé betri er það. Það er kjarni málsins, það verður að meta hvort gæðin hafi aukist við flutninginn. Við höfum séð í alþjóðlegum könnunum (PISA) að íslenskir nemendur standa sig ágætlega, en við höfum ekki séð marktækan mun á árangri frá fyrri könnunum. Skoðum þetta nú betur áður en við fullyrðum að grunnskólinn hafi lagast við flutninginn.

Brottfall í framhaldsskólum er mál sem við Íslendingar höfum alltaf verið að kljást við. Brottfall er fyrirbæri sem ekki er hægt að skýra með einni ástæðu heldur er ástæða brottfalls nemenda mjög fjölbreytt. Persónulegar ástæður, námsleiði, fæðingarorlof, vinnutækfæri og ferðalög eru til dæmis allt áhrifaþættir á brottfall.

Brottfall á framhaldsskólastigi er óvíða jafnmikið í Evrópu og hér á landi. Íslendingar eru þar í hópi með Spánverjum, Portúgölum og Maltverjum. Það sem Íslendingar virðist helst eiga sameiginlegt með þessum Suður- Evrópuþjóðum er atvinnuþátttaka ungs fólks. Í nýlegri skýrslu sem var farið yfir þessi mál og Evrópuþjóðir bornar saman. Sérstaklega var skoðað hvað einkennir þau ungmenni sem hætta snemma í námi, hvernig þeim vegnar á vinnumarkaðnum og hvaða möguleika þau hafa á því að snúa aftur í skóla síðar. Sérstaða Íslands virðist einkum felast í miklum atvinnumöguleikum og þátttöku ungs fólks í atvinnulífinu og að hvergi í Evrópu séu atvinnumöguleikar ungs fólks meiri en hér. Auk þess eru atvinnumöguleikar íslenskra ungmenna sem hafa lágmarksmenntun og hætta snemma í námi ekki síðri en þeirra sem ljúka framhaldsskólanámi. Opinn vinnumarkaður hér á landi virðist vera að soga til sín ódýrt vinnuafl úr framhaldsskólunum. Í Ungt fólk 2004 skýrslunni má t.d. sjá að 54% stúlkna og 36% pilta stunda atvinnu samhliða námi. Um 36% stúlkna og tæplega 30% pilta vinna 10 klukkustundir eða meira á viku.

Ráðuneyti eða sveitarfélög standa frammi fyrir sama vanda að þessu leyti. Það er erfitt að segja að það sé mjög neikvætt að atvinnumarkaður á Íslandi sé svona opinn eða að það sé neikvætt að skólakerfið sé svo sveigjanlegt og opið að nemendur geta flakkað úr vinnu og í skóla án mikillar fyrirhafnar. Brottfall sem ástæða flutnings framhaldsskólans til sveitarfélaga eru því ekki góð ástæða nema að takmörkuðu leyti.

Aðrir þættir þurfa einnig að koma til álita í þessu samhengi. Framhaldsskólastiginu er ekki skipt upp í skólahverfi og því er landið allt eitt skólasvæði. Nemendur hafa þannig aðgang að hvaða skóla sem þau óska eftir. Þetta þarf að hafa í huga því að það eru 79 sveitarfélög en aðeins 31 framhaldsskóli. Að mínu mati býður þetta upp á misrétti við lítil sveitarfélög því eðlilegt er að framhaldsskóli sem rekinn er af sveitarfélagi forgangsraði sínum nemendum inn í skóla í sínu sveitarfélagi. Annað er ólíklegt þar sem að aldrei verður sátt um að forgangsraða í skóla eingöngu út frá hæfnismati skv. lögum eða reglugerðum.

Möguleikar lítilla skóla á fjölbreyttu námi eru miklu takmarkaðri en stærri skólanna bæði vegna hóp- eða bekkjastærða og búnaðar sem þarf til starfsnáms, einkum hins tæknivædda náms sem sívaxandi kröfur eru um. Það þarf að hafa í huga að ógerningur er að bjóða upp á 84 starfsnámsbrautir í öllum sveitarfélögum. Erfitt er að sjá hvernig einstakir heimaskólar næðu að standa undir þeim kröfum um fjölbreytt nám sem er á höndum framhaldsskólans. Eins og skipan sveitarfélaga er háttað nú er ljóst að mörg þeirra eru of smá til að þau geti annast rekstur framhaldsskóla.

Þrátt fyrir alla þessa varnagla tel ég að sveitarfélög geti verið leiðandi í málefnum framhaldsskóla og þannig er málum háttað í minni bæjarfélögum. Stærri bæjarfélög, og helst Reykjavík hefur minna frumkvæði um skipulag mála framhaldsskólans, líklega vegna fjölda skóla í borginni. Reykjavík getur haft miklu meira frumkvæði og unnið í meira samstarfi við ríkið í þessum málum sem öðrum. Ég held að það þurfi ekki mikið annað en samstarfsvilja til að hafa áhrif á betra kerfi. Leiðarljósið á að vera á öflugt, fjölbreytt og dýnamískt skólakerfi.


Flott dagsetning nalgast

Það verður flott stund þegar klukkan slær tvær mínútur og þrjár sekúndur yfir eitt um nótt fjórða maí næstkomandi. Spurning um að blogga á þessari stund og fá tímasetninguna:

Skrifað kl. 01:02:03 þann 04.05.06

Heimdallur :D

Heimdallur kynnir kl. 15.00 í dag stefnu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í borgarstjórnarmálum. Að auki verða sérstaklega kynntir til leiks ungir sjálfstæðismenn sem eru á listanum fyrir kosningarnar.

Á sama tíma ætlar Samfylkingin að kynna sína stefnu, það verður spennandi að sjá áherslumálin þeirra. Fyrir fjórum árum vorum við Sjálfstæðismenn á undan að kynna okkar stefnu og ég er fegin að við séum á eftir núna. Það er erfitt að fá holskefluna af gagnrýni eftir að hópurinn hefur unnið daga og nætur að því að skrifa og tala við fólk um hitt og þetta efni. Hins vegar er að sama skapi erfitt að koma með sömu hugmyndirnar á eftir, sem eru góðar óháð því hver segir frá þeim, og fá ekki neina athygli á þær. Við sjáum til.

Auglýsingar Samfylkingarinnar eru ansi látlausar og hafa mikinn texta. Þær eru svolítið ,,menntaðar". Það er líklega stefnan, að ná til sín hámenntaða háskólafólkinu. Ég verð þó að segja að Dagur er að reyna aðeins of mikið að skera sig frá Vilhjálmi í blaðinu í dag. Það er eitt að undirstrika fjölskylduímyndina sína en annað að birta myndir af börnunum sínum í kosningabaráttu. Þetta er umdeilt í prófkjörum enda hefur það ekkert með pólitísk viðhorf einstaklinga að gera hvernig fjölskyldan lítur út. Ég vona að það verði ekki of mikið af þessu.

Víkingur þarf betri aðstöðu

Við í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna erum að hitta á ýmsa aðila þessa dagana. Ég sem Fossvogsbúi snaraði mér að sjálfsögðu með til að heimsækja Víkinga í Grófinni. Það er sorglegt að sjá hversu litla aðstoð svona sterkt félag hefur fengið til að mæta þeirri ásókn sem er í fótboltann hjá þeim. Skíðadeild Víkings er greinilega gríðarlega sterk og virðist vera sátt við flutningin frá Kolviðarhóli til Bláfjalla. Knattspyrnudeildin þarf nauðsynlega á gervigrasvelli að halda og það er með ólíkindum að ekki sé búið að koma því máli lengra eftir svona mörg ár.

Foreldrar í hverfinu segja ótrúlega fráhrindandi að þurfa alltaf að keyra börnin sín á æfingar í önnur hverfi ef þau æfa knattspyrnu. Aðstaðan er það bagaleg að mörg börn fara aldrei á æfingar í Víkinni. Hvers konar stefna er þetta? Er þetta ekki til að auka á akstur hjá foreldrum og draga úr virkni iðkenda? Stefnan á að vera að fjölga iðkendum í hverfum þannig að allir geti á auðveldan hátt komist í íþróttir í hverfinu sínu. R-listinn hefur ekki verið með nægilega skýra stefnu í íþróttamálum. Það endurspeglaðist í viðtali við einn af oddvitum flokksbrota R-listans, Árna Þór, þegar hann sagðist vilja skera niður í íþróttamálum til að mæta ókeypis hinu og þessu í kerfinu. Það verður gaman að vita hvaða Reykvíkingar eru tilbúnir til að fórna hreyfingu fyrir heitan mat í hádeginu?

Fossvogurinn þungamiðja búsetu

Þetta rakst ég á í dag á mbl.is. Þetta er mjög áhugaverð mynd hér til hliðar vegna þess að þetta sýnir að ný íbúðarsvæði eru meira og minna í austurátt frá borginni. Áður hafa nágrannasveitarfélögin í suðri verið að byggja hratt og mikið og því hafði miðjan verið að nálgast Kópavog. Þessi beygja bendir til þess að nýjar íbúðabyggðir í Reykjavík séu að breyta búsetumiðjunni og ef af verður að 20.000 manna byggð byggist í Úlfarsfelli eins og R-listinn hefur boðað þá verður línan líklega fljót að nálgast Ártúnsbrekkuna.

Við fórum tvö á lista borgarstjórnarflokksins í bíltúr upp í Úlfarsfellsdal um daginn og litum á svæðið sem byggja á eitt stykki Kópavog. Ég verð að viðurkenna að mér féllust alveg hendur og það fyrsta sem kom í hugann var hvernig þessir íbúar ætluðu að ferðast til og frá vinnu. Ekki tekur Ártúnsbrekkan meiri umferð því hún er byggð fyrir 80.000 bíla á sólarhring en í dag fara þarna um 83.000 bílar. Ekki mun Sundabraut anna þessari umferð á næstu árum ef R-listaflokkarnir fá áfram að ráða. Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar vill t.d. Sundabraut með tveimur brautum. Það er eins og að leggja til að byggja eigi einbreiðar brýr á þjóðvegum landsins. Og ekki munu þessir íbúar hjóla í Úlfarsfellið.

Hitt sem sló mig verulega var sýnin sem blasti við mér í austurhlíð Grafarholtsins. Nýja byggðin þar minnti helst á gamla borg í austur Evrópu. Gráar blokkir og ekkert nema blokkir þöktu hlíðina.

Ég hvet áhugasama Reykvíkinga til að fara í bíltúr þarna í páskafríinu.

Skattar og dauðinn


Ég má til með að deila þessu með ykkur. Ég er áskrifandi af skemmtilegu fræðiefni (www.wordsmith.com) sem miðar að því að kenna grunn og sögu enskrar tungu. Ég fæ í tölvuboxið mitt í hverri viku nýtt orð og sögulegar þýðingar orðanna. Þessa viku mun ég fá orð sem tengjast sköttum og dauðanum. Eftirfarandi kynning á hvers vegna þessi tvö orð eru tekin saman er mjög hnyttin:

Ben Franklin once said, "In this world nothing is certain but death and taxes." And the same goes for this week's words: nothing is certain but death and taxes, or at least a discussion of them. Don't worry, nobody dies and no one has to pay a tax to learn these words. Each of the words this week has something to do with either death or taxes.

Over the ages, the world's rulers have imposed all imaginable kinds of taxes on the populace. Taxes were once based on the number of hearths in a house (fumage), and there have been taxes to pay off raiding Danes (Danegeld).

In late seventeenth century, William III of UK imposed a window tax, levied on each window in a house. Three hundred years later, William III of US imposed a Windows tax, levied on each personal computer manufactured, whether it had Windows or not, but I digress.

Death too comes in unexpected places. When we buy a house and sign a mortgage, let's keep in mind that the word derives from Old French mort (death) + gage (pledge).

In the US, April 15 is the deadline for filing tax return for the previous year. At one time the consequences of failure to pay taxes were severe but thankfully, today, the "dead"line is only metaphorical.

publican (PUB-li-kuhn) noun

1. A tax collector.
2. An owner or manager of a pub or hotel.

[From Latin publicanus, from publicum (public revenue), from publicus (public), from populus (people).]

In ancient Rome, the state farmed out the collection of taxes. The right to collect tax was auctioned off to the highest bidder. Tax collection agents, known as publicans, employed lower-level collectors who made best use of their license. For their severe extraction of taxes, publicans were widely despised. Now, if a publican is a tax collector, what is a republican?

Flóttinn úr ráðhúsinu

Það er ljóst að margir af starfsmönnum ráðhússins telja að umhverfið í stjórnun borgarinnar sé að fara að breytast. Nýjasta fréttin er af Eiríki Hjálmarssyni, aðstoðarmanni borgarstjóra sem er búinn að ráða sig til Orkuveitu Reykjavíkur. Það sem er skondið hversu margir starfsmenn borgarinnar flýja til OR. Anna Skúladóttir, fjármálastjóri borgarinnar er nú orðinn fjármálastjóri OR, Hjörleifur Kvaran fyrrverandi borgarlögmaður er lögmaður OR og Helgi Pétursson (sem nú gegnir starfi Eiríks) er að fara í ferðamálatengd verkefni OR. Eiríkur Bragason sem stýrði sögulegu fyrirtæki, Lína. net, er núna verkefnisstjóri Hellisheiðarvirkjunar.

Að auki vitum við að Helga Jónsdóttir hefur verið að horfa í kringum sig (hún sótti um stöðu ráðuneytisstjóra í Félagsmálaráðuneytinu) og Kristín Jónsdóttir, framkvæmdastýra Miðborgarinnar.

10 lóðir eftir í Úlfarsfelli

Stefán Jón Hafstein sagði á Hrafnaþingi í dag að einbýlishúsalóðirnar sem boðnar voru upp um daginn í Úlfarsfelli hefðu ekki allar gengið út. Þetta er frétt sem miðlarnir misstu alveg af í dag. Það er jú saga til næsta bæjar þegar að borgin klúðrar útboði sínu, hættir við að láta hæstbjóðanda fá lóðirnar og kemur þeim svo ekki öllum í verð. Stefán Jón sagði þetta endurspegla það að það væri nóg af lóðum í Reykjavík. En mér er spurn, var öllum þeim sem buðu í lóðirnar boðin lóðin óháð verðtilboði eða setti borgin gólf? Var verktakanum sem fékk synjun á allar lóðir nema eina (mér skilst þó að eiginkona hans hafi fengið aðra) boðið að kaupa þessar lóðir? Hvernig ætlar borgin að standa að næsta útboði? Mínar heimilir herma að fyrir 2 vikum hafi lóðaverðtilboðin verið komin undir 10 milljónum. Þetta mál er allt hið áhugaverðasta.

Álver í Helguvík

Á fimmtudaginn á stjórnarfundi í Orkuveitunni samþykkti stjórnin að forstjóri kannaði fýsileika þess að aðstoða við uppbyggingu á Suðurnesjum með athugun á raforku til álvers í Helguvík. Ég hef lýst skoðun minni opinberlega á þessari álversvæðingu okkar en samþykkti hiklaust þessa tillögu. Hún felur ekki í sér neinar skuldbindingar fyrir Orkuveitu Reykjavíkur þrátt fyrir að sumir fjölmiðlar kjósi að túlka þetta þannig og er viðleitni okkar Reykvíkinga til þess að aðstoða þegar þessi breyting á sér stað á varnarmálunum.

Ég lýsti þó yfir á fundinum að ég vildi að það yrði sérstaklega tekið mið að því að stækkun álversins í Straumsvík skipti höfuðmáli við ákvarðanatöku sem þessa því jafnvel gæti stækkun Alcan haft jafn mikil eða meiri áhrif á fjölgun starfa fyrir Suðurnesin eins og að ráðast í nýtt álver. OR og Alcan eru enn í viðræðum um kaup á raforku frá OR fyrir stækkunina. Að vísu ræðst það líklega í bæjarstjórnarkosningunum í Hafnarfirði hvort að af stækkun verður því núverandi meirihluti hyggst bera það undir kjósendur hvort stækkun eigi að verða eður ei.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband