Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Tillaga í leikskólaráði um svifryk

Á leikskólaráðsfundi var afgreidd tillaga meirihlutans vegna svifryksmála við góðar undirtektir. Undanfarið hefur umræðan um loftmengun verið mjög mikil en að mínu mati í aðeins of miklum véfréttastíl. Ég hvet áhugasama að fylgjast vel með vef Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar þar sem koma fram mjög gagnlegar upplýsingar um stöðu mála, um svifryk og orsakir þess og góðar leiðir til að bæta loftmengun.

Tillagan sem var samþykkt í leiksskólaráði er hér:

Lagt er til að fulltrúar Umhverfissvið og Leikskólasviðs verði í samstarfi vegna umfjöllunar um loftmengun við leikskóla. Þá er lagt til að fulltrúar sviðanna móti tillögur að aðgerðum og samstarfi til að fjölga loftgæðamælingum við leikskóla og auka upplýsingagjöf til leikskólastjóra þegar mengun fer yfir hættumörk. Jafnframt verði lagðar fram hugmyndir til að upplýsa og hvetja foreldra/forráðamenn barna og borgarbúa til ráðstafana sem draga úr loftmengun.

Greinargerð:

Reykjavíkurborg hefur verið í forystu um aðgerðir til að draga úr svifryki og svo mun verða áfram. Til að ná meiri árangri er nauðsynlegt að borg og ríki vinni sameiginlega að markmiðum um minnkun loftmengunar í þéttbýli, borgarbúum og öllum landsmönnum til heilla. Mikilvægt er að fá íbúa höfuðborgarsvæðisins til liðs við Reykjavíkurborg í þeirri viðleitni.

Nýjar rannsóknir sýna að svifryk hefur bein áhrif á lungnaþroska barna.
Þetta eru alvarlegar niðurstöður og gefa tilefni til þess að auka samstarf Leikskólasviðs og Umhverfissviðs. Mikilvægt er að skipuleggja reglulegar mælingar við leikskóla borgarinnar. Stefnt skal að viðameiri mælingum og aðgengilegri upplýsingum til almennings um loftgæði í Reykjavík. Brýnt er að leikskólastjórar og starfsfólk leikskóla fái greinargóðar upplýsingar um eðli loftmengunar og aðgerðir leikskóla þegar mengun fer yfir hættumörk. Þá er ekki síst er mikilvægt að upplýsa foreldra um loftmengun, orsakir hennar og afleiðingar sem og aðgerðir gegn henni.

Þess er óskað að fulltrúar Leikskólasviðs og Umhverfissviðs kynni leikskólaráði tillögur sínar svo leikskólar borgarinnar fái öfluga þjónustu og ítarlegar upplýsingar vegna loftmengunar.

Naglar og börn (Fréttablaðið)

Hreint loft er einn af meginkostum Reykjavíkurborgar. Tuttugu og níu daga á ári er svifryksmengun yfir heilsuverndarmörkum. Þetta er 29 dögum of mikið og út frá niðurstöðum bandarískra rannsókna þarf sérstaklega að huga að svifryksmengun í ljósi umhverfis barna okkar. Í rannsókninni kom fram að lungnaþroski er seinni hjá börnum sem búa við menguð svæði. Því er um að ræða afar mikilvægt umhverfismál sem allir á höfuðborgarsvæðinu þurfa að vera meðvitaðir um enda getur hver og einn gert sitt til að minnka mengun í borginni.

Hvers vegna að negla bílinn?
Nagladekk er helsti orsakavaldur svifryks. Reykjavíkurborg hefur unnið markvisst starf til að brýna fyrir borgarbúum ábyrgð hvers og eins í þessu samhengi. Umhverfissvið borgarinnar er til dæmis í mjög markvissum leiðangri við mælingar á svifryki í borginni og hefur lagt mest allra sveitarfélaga á sig vinnu við herferðir gegn nagladekkjum. Þessi vinna hefur áhrif enda hefur bílum á negldum dekkjum fækkað frá 2003 úr 60% í 50%. Þetta bendir til þess að viðhorfsbreyting sé að eiga sér stað. Könnun sem framkvæmd var í fyrra sýndi að 75% borgarbúa töldu að nagladekkin hefðu verið öruggari en vetrardekk í 10 daga eða færri, og rúmur helmingur taldi að fjölda þessara daga mætti telja á fingrum annarrar handar. Bíleigendur ættu allir að hugleiða hvort að 10 dagar á ári réttlæti nelgd dekk undir bílinn.

Út að leika!
Foreldrar sem aðrir verðum að hafa í huga þau ótrúlegu lífsgæði sem felast í að geta hvatt börnin til útvistar allt árið um hring. Í aðalnámskrá leikskóla er mikið lagt upp úr útivist og umhverfi leikskólabarna og útivist og þroskavænlegt umhverfi í kringum skóla ávallt verið sérstök rós í hnappagatið í íslenskum leikskólum. Við megum ekki til þess hugsa að framtíðin beri í skauti sér reglur um takmarkaða útiveru leikskólabarna vegna svifryksmengunar. Allir, foreldrar, fyrirtækjaeigendur og almennir bifreiðaeigendur þurfa að tengja saman orskir og afleiðingar varðandi svifryk. Svifryk hefur áhrif á lungnaþroska yngstu Reykvíkinganna. Færri naglar, fagrir vetrarmorgnar og frískari börn ætti að vera leiðarljós borgarbúa.

Umræðustjórnmál og fylgistap

Ég er svo innilega sammála bloggi Þórarins Eldjárns (sem ég er nýfarin að lesa) þar sem hann ræðir um þingumræðu um málefni RÚV. Þar segir hann:

,,Á undanförnum árum hefur borið nokkuð á sérkennilegri lýðræðisumræðu sem gengur út á það að því meiru sem hinn allra minnsti minnihluti fái að ráða, þeim mun meira sé lýðræðið þar með orðið. Og svo á hinn bóginn: Því stærri meirihluti sem er fyrir einhverju tilteknu máli, þeim mun minna lýðræði. Samkvæmt þessum kokkabókum hlýtur td. stofnun lýðveldisins 1944 að hafa verið hrikalega ólýðræðisleg. Þetta er kallað meirihlutaofbeldi og þykir skelfilega ljótt. Ég get svo sem alveg tekið undir það að allt ofbeldi er slæmt. Af tvennu illu kýs ég þó frekar meirihlutaofbeldi en minnihlutaofbeldi."

Sú lýðræðisumræða sem Þórarinn er að vísa á sér rætur að rekja í málflutning Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Stefáns Jóns Hafstein og Dags B. Eggertssonar. Þessir aðilar hafa notað í gegnum árin frasa eins og umræðustjórnmál, sjálfstæð stjórnsýsla, lýðræðislegir stjórnunarhættir og fleiri þessum líkum. Íslendingar hafa tekið þessum frösum ágætlega en ekki greint nákvæmlega hvað þeir fela í sér. Þessir frasar hafa hins vegar hentað sérstaklega vel fyrir ofangreinda einstaklinga í meirihluta, þ.e. að láta þannig líta út að þeir taki lýðræðislegar ákvarðanir og að stjórnsýslan starfi án þess að stjórnmál hafi þar bein áhrif. Þetta hentar hins vegar alls ekki í stjórnarandstöðu eins og RÚV málið sannaði. Gísling minnihlutans á umræðu um hvort útvarp og sjónvarp eigi að vera sf., ehf. eða ohf. endurspeglar vel hversu innantómur frasi umræðustjórnmál eru. Fylgistap Samfylkingarinnar er án efa beintengt endalausum umræðustjórnmálum.

Meira um strætó af vef umhverfisráðs

Unga fólkið fari oftar í strætó!

?Meginlína nýs meirihluta í Reykjavík er að styrkja þurfi almenningssamgöngur og að þjónusta sem veitt er og það viðmót sem notendur fá: skipti mestu. Stefnan er að minnka flækjustig sem skapast með ólíkum gjaldflokkum,? segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. ?Almenningssamgöngur eiga að vera ódýrar, einfaldar og fljótlegar. Til að svo verði þarf að koma í veg fyrir frekari gjaldskrárhækkanir,? segir Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi Vinstri grænna. Gjaldskrár breytingar Strætó bs hafa verið í deiglunni í vikunni.

Allir eru sammála um að æskilegt er að almenningssamgöngur gegni mikilvægu hlutverki í borgum. Öflugar almenningssamgöngur draga m.a. úr loftmengun og umferðartöfum og stuðla að því að borgarlandið nýtist betur undir annað en samgöngur.

Ný gjaldskrá tók gildi hjá Strætó núna í vikunni. ?Í flestum tilvikum er um hækkun fargjalda að ræða, en einstaka verðflokkar lækka eða standa í stað. Fargjaldahækkunin nemur að jafnaði tæpum 10%. Minnst er hækkunin hjá öldruðum og öryrkjum, eða 6,7%,? segir í frétt frá Strætó bs (www.bus.is). Fjargjald fullorðinna verður 280 krónur en staðgreiðslufargjald 6 til 18 ára verður 100 krónur. Farið í fargjaldskorti 6-11 ára verður áfram 37,50 krónur. Auk þessa bjóðast ýmis afsláttarkjör.

Bókanir í umhverfisráði um strætó
Gjaldskrárbreytingarnar komu til umræðu á síðasta fundi umhverfisráðs og gerðu bæði minnihluti og meirihluti bókanir: Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra sögðu hækkanir á fargjöldum Strætó ganga í berhögg við stefnu Reykjavíkurborgar um að efla almenningssamgöngur í því augnamiðið að bæta umhverfi, heilsu og borgarbrag. Í bókun þeirra stendur að þessar hækkanir bitni á þeim sem síst skyldi: fólki sem velur umhverfisvænan samgöngumáta.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sögðu aftur á móti í bókun að tilkoma staðgreiðslufargjalds barna og ungmenn hefði vonandi þau áhrif að ungmenni nýttu sér almenningssamgöngur betur og kynntust nýju og breyttu leiðakerfi. Meirihlutinn nefndi einnig í bókun sinni gildi þjónustu og viðmóts notenda vagna og skýrt markmið sitt í að bæta þjónustu strætó með öllum mögulegum aðgerðum.

Út frá þörfum Reykvíkinga
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umhverfisráði Reykjavíkur og stjórnarmaður í stjórn Strætó bs leggur áherslu á lækkanir í strætó handa ungu fólki og bendir á að gjaldskrárbreytingin endurspegli hækkanir og spár um hækkanir á verðlagi og olíugjaldi.?Í undirbúningi hjá Strætó bs. og umhverfisráði borgarinnar er tilraun um að gefa frítt í strætó fyrir tiltekna hópa,? segir Þorbjörg hér á heimasíðu Umhverfissviðs. ?Þessi tilraun mun mæla hvort að gjaldið í vagnana sé í raun hindrun í sjálfu sér, einnig verður spennandi að sjá hvernig niðurstöðurnar verða.? Hún segir að kannanir erlendis sýni að greiðsla gjalds sé ekki hindrun enda sé alltaf mjög skýr ávinningur fyrir fólk að nota almenningssamgöngur. ?Til dæmis kostar 9 mánaða Strætókort jafnmikið og rekstur bíls í einn mánuð, ? segir hún. Þorbjörg segir stefnuna vera að minnka markvisst það flækjustig sem skapist með ólíkum gjaldflokkum. ?Með því að setja eitt skýrt gjald fyrir börn er mun auðveldara að kynna fargjaldið í samhengi við einfaldleikann við að nota vagninn. Nýtt leiðakerfi hefur vafist fyrir mörgum og við teljum mikilvægt að kynna yngstu notendunum, framtíðarnotendum Strætó, fyrir kerfinu og kostum þess að nota vagninn til að komast á milli borgarhluta eða sveitarfélaga,? segir hún og að markmiðið sé að athygli foreldra á því að börnin geti á auðveldan hátt notað leiðakerfi Strætó til að komast í frístundir, til afa og ömmu eða til vina. Hún segir næsta skref stjórnar Strætó bs. að einfalda staðgreiðslufargjöld fyrir fullorðna en núverandi notendur Strætó nýta sér mjög mikið afsláttarkort nú þegar sem léttir á pyngjunni.

?Meginlína nýs meirihluta í Reykjavík er að almenningssamgöngur þurfi að styrkja og að í því samhengi skipti mest sú þjónusta sem veitt er og það viðmót sem notendur fá. Þjónusta á að mótast út frá þörfum Reykvíkinga fyrst og fremst og vagnarnir eiga að vera raunverulegur valkostur við aðra samgöngukosti,? segir hún.

Þau borga sem menga
Sóley Tómasdóttir fulltrúi Vinstri grænna í umhverfisráði segist vera ánægð með að gjaldskrá Strætó hafi verið einfölduð og að gjald ungmenna hafi verið lækkað. ?Hækkanir á gjaldskrá fyrir börn (12-18) og fullorðna finnst mér aftur á móti óréttlætanlegar að svo stöddu,? segir hún. Strætó er umhverfisvænn samgöngumáti að hennar mati og á því að vera ódýr. ?Hugmyndafræði gjaldheimtu á að byggja á því að þau borgi sem mengi.? Sóley telur brýnt að styrkja almenningssamgangnakerfið í Reykjavík. Almenningssamgöngur eiga að vera ódýrar, einfaldar og fljótlegar. ?Til að svo verði þarf að koma í veg fyrir frekari gjaldskrárhækkanir, fjölga forgangsakreinum og þétta ferðir strætisvagnanna. Umhverfisvæn borgaryfirvöld eiga að styðja myndarlega við almenningssamgöngur og tryggja að raunverulegir valkostir séu til staðar fyrir borgarbúa,? segir hún.

Heilnæmt hlutverk
Pálmi Freyr Randversson sérfræðingur í samgöngumálum hjá Umhverfissviði segir að auka eigi hlutdeild almenningssamgangna úr 4%-8% á næstu 20 árum. Hann segir að meðal annars þurfi að bæta lykilstoppistöðvar vagna þannig að þær verði skjólgóðar og vistlegar. ?Strætó skal njóta forgangs í umferðinni og í því tilliti er unnin áætlun um forgangsbrautir, ? segir hann.
Sóknarfæri strætó eru mikil, að mati Pálma og að sennilega þurfi hugarfarsbreytingu gagnvart almenningssamgöngum í Reykjavík. ?Einnig eru hjólreiðar og almenningssamgöngur tilvaldir kostir saman ? þar sem auðvelt væri að taka hjólið með í strætó eða skilja það eftir við stoppistöðina,? segir hann. Almenningssamgöngur í huga Pálma eiga að vera notaðar sem verkfæri til að stuðla að heilnæmu umhverfi í borginni, bættri heilsu borgarbúa og aðlaðandi borgarbrag.

Danir

Það var erfitt að yfirgefa Þýskaland á mánudaginn vitandi að íslenska liðið væri að mæta Dönum daginn eftir. Vinnan kallaði og ég hafði stutt Óla frænda vel tvo leiki. Fjölskyldan safnaðist síðan saman heima og hvatti liðið áfram í gegnum sjónvarpstækið með miklum hávaða og látum. Þvílíkur leikur! Ég er enn mjög pirruð á þessum úrslitum, þetta var bara heppni hjá Dönunum.

Borgarráð samþykkti að styrkja landsliðið um 1.000.000 kr. í dag. Frábært framtak hjá borgarstjóra. Áfram Ísland!

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband