Börnin í fyrsta sæti (grein 05.03.08)

Í gær samþykkti borgarstjórn stefnumörkun meirihluta borgarstjórnar í formi þriggja ára áætlunar. Áætlunin er leiðarvísir um forgangsröðun næstu ára og hefur þann tilgang að koma stærri verkefnum í nauðsynlegan áætlunarfarveg. Þriggja ára áætlun setur okkur stjórnmálamönnum ramma sem að krefst þess að við forgangsröðum öllum okkar draumum um betra umhverfi fyrir Reykvíkinga. Forgangsröðunin nú er í þágu yngstu borgarbúanna. Börnin eru sett í fyrsta sæti.

 

Undanfarin 3 ár hefur mikil þensla á vinnumarkaði haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni Reykjavíkurborgar í samkeppni um starfsfólk. Starfsmannavelta hefur sérstaklega hrjáð leikskólana og haft umtalsverð áhrif á þjónustu við börn og umhverfi starfsfólks. Starfsfólk leikskóla hefur tekist hetjulega á við viðvarandi vanda og á mikið hrós skilið fyrir mikla eljusemi og jákvæðni.    Foreldrar hafa fundið fyrir vandanum, inntaka barna inn á leikskóla og í önnur úrræði hefur tafist og sumar fjölskyldur hafa þurft að takast á við skerta þjónustu. Afleiðingar þessa er hækkandi meðalaldur þeirra barna sem hafa aðgang að þjónustu.  

 

Borgarstjórn ætlar að binda enda á þessa bið með þrískiptri áætlun. Í fyrsta lagi verður meginþjónusta borgarinnar við börnin - borgarreknu leikskólarnir - styrktir með því að fjölga rýmum með stækkun skóla í eldri hverfum og með því að bæta við deildum. Þetta er í takt við kröfur um aukinn dvalartíma barna og fjölgun yngri barna í leikskólum borgarinnar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að taka í notkun glæsilega nýja 5 deilda leikskóla í nýbyggingarhverfum borgarinnar. Vel heppnuð hugmyndasamkeppni um hönnun leikskóla skilaði borginni þremur glæsilegum teikningum af leikskólum framtíðarinnar þar sem tekið var mið af þörfum barna og starfsmanna á 21. öld. Leikskólar munu rísa næstu ár við Árvað í Norðlingaholti, í Úlfarsárdal og á Vatnsmýrarsvæði. Í þriðja lagi munu áætlanir leikskólasviðs gera ráð fyrir að auka val foreldra á þjónustu fyrir allra yngstu börnin þannig að í boði sé fjölbreytt og traust þjónusta við foreldra með börn frá eins árs aldri. Í þessu felst að styrkja annars vegar eftirsótta þjónustu sem nú er í boði en af skornum skammti, líkt dagforeldraþjónustu og einkarekna leikskóla fyrir yngstu börnin en bjóða um leið upp á fleiri úrræði til að fjölga valmöguleikum á þjónustu fyrir foreldra sem byggjast á ólíkum þörfum barna. Gert er ráð fyrir verulegum fjármunum í þessa þjónustu á næstum þremur árum en teknar hafa verið frá stighækkandi fjárhæðir á tímabilinu til viðbótar við stofnkostnað, allt að 400 milljónum króna til að mæta auknum rekstrarútgjöldum vegna þessa.

 

Það er ekki aðeins lögbundin skylda borgarinnar að sinna leikskólamálum á metnaðarfullan og faglegan máta heldur einnig siðferðisleg skylda okkar við samfélagið. Foreldrar eru mikilvægur mannauður á vinnumarkaði og Reykjavíkurborg verður að veita íbúum sínum val um þjónustu svo að foreldrar geti látið drauma sína rætast – hverjir sem þeir eru. Það á að vera eftirsóknarvert fyrir fjölskyldur að búa í Reykjavík. Til þess að svo sé þarf þjónusta við yngstu börnin að vera framúrskarandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristjánsson

Það er staðreynd að mannekla á leikskólum er vegna of lágra launa. Hvernig á að manna stöður á nýjum leikskóla ef launin verða þau sömu?? Þetta mun aldrei ganga upp án launahækkana þó þetta virðist vera svakalega flott við fyrstu sýn. Það þýðir ekki að byggja bara upp einhverja vel útlítandi fronta. Hugur þarf að fylgja máli

Jóhann Kristjánsson, 6.3.2008 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband