Skattar og gjöld lækka (Grein 19.02.08)

Í þessari viku var stórum áfanga náð.   Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands náðu, með mikilli vinnu og virðingu fyrir stöðu hvors annars, saman um launaþróun og forgangsröðun launa.  Mikilvægast við þessa kjarasamninga er að forystumenn atvinnulífsins og ASÍ náðu saman um þá forgangsröðun að setja mest til þeirra sem hafa setið eftir í launaskriði og hafa lægstu launin. Þessir kjarasamningar voru skynsamlegir og mjög þýðingarmiklir og eru forsenda annarra ákvarðana, bæði fyrir efnahagslífið í heild og rekstur fyrirtækja en líka fyrir þá samninga sem koma í kjölfarið. 

Í lok samningalotu kom ríkisstjórnin með jákvætt útspil fyrir hönd skattgreiðenda til að styðja við einstaklinga og fyrirtæki.   Útspil ríkisstjórnarinnar fól meðal í sér sértækar aðgerðir til að bæta stöðu barnafjölskyldna, hækkun bóta og skattleysismarka og aukin framlög til símenntunar. Sérstaklega  ánægjulegt er að sjá að ríkisstjórnin tekur á sama tíma og hún bætir kjör launþega ákvörðun um að lækka fyrirtækjaskatt úr 18% í 15%.   Sumum þykir erfitt að skilja þessa stefnu hægri manna en með því að lækka skatta á fyrirtæki geta tekjur hins opinbera af sköttum einmitt aukist verulega þar sem skattalækkanir virka sem hvati fyrir efnahagslífið til að taka ákvarðanir um aukin umsvif.  Ríkið fær minni sneið af stærri köku í stað stærri sneiðar af minni köku áður. Gott dæmi um þetta er lækkun fyrirtækjaskatta hér á landi úr 33% árið 1995 í 18%. Sú lækkun hefur skilað ríkinu mun meiri tekjum en áður og styrkir fyrirtæki til lengri tíma.    Aðrar sérstaklega jákvæðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru loforð um frekari  lækkun á tollum og vörugjöldum og  fyrstu skrefin í að afnema stimpilgjöld .  Vonandi verða öll stimpilgjöld afnumin á þessu kjörtímabili enda eru þessi gjöld ósanngjarn nefskattur.

Það er skýrt að aðeins ein ástæða er fyrir því að ríkissjóður getur spilað út svona sterkum aðgerðum inn í kjarasamninga ASÍ og haft áhrif á samninga sem eru framundan.  Ástæðan er sú að ríkissjóði hefur verið stýrt með styrkri hendi undanfarinn áratug með það að leiðarljósi að lágmarka skuldir og hámarka um leið sveigjanleika ríkissjóðs til að mæta aðgerðum eins og þessum í sambærilegu efnahagsástandi sem nú ríkir.   Ábyrg fjármálastjórnun á ríkissjóði er grundvöllur hagsældar og ætti að vera mikilvægasta verkefni stjórnmálamanna að halda í heiðri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef þessir samningar eru svo æðislegir, afhverju hækka þá ekki launin

mín ekki með verðbólguni bara lánin mín????????

Jóhann Þorsteinsson (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 11:16

2 Smámynd: Elías Theódórsson

Þorbjörg Helga.  Fasteignagjöld (skattar) af húsnæðinu mínu í Reykjavík hækkaði um ca 35% frá síðasta ári. 

Sjá pistil frá Andríki.

Laugardagur 2. febrúar 2008

33. tbl. 12. árg.

nnheimt fasteignagjöld í Reykjavík í fyrra voru um 13 milljarðar króna. Áætlanir REI-listans gerðu ráð fyrir að þau yrðu 17 milljarðar á þessu ári. Eftir að Sjálfstæðismenn og Ólafur F. Magnússon tóku við stjórnartaumum fyrir nokkrum dögum var ákveðið að lækka fasteignaskatt um 150 milljónir og er því gert ráð fyrir að fasteignagjöld í ár verði rétt tæpir 17 milljarðar. Ef hækkun fasteignagjalda hefði fylgt almennu neysluverði hefðu þau hækkað um um það bil 800 milljónir, farið úr 13 milljörðum í 13,8 milljarða. Hækkun umfram almennt verðlag er því rúmir þrír milljarðar. Meðfylgjandi mynd sýnir vel hversu skammt var gengið þegar álagningarprósenta fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði var lækkuð þótt allar lækkanir séu að sjálfsögðu vel þegnar. Borin eru saman fasteignagjöld 2007, gjöld miðað við vilja REI-listans og gjöld eins og þau voru ákvörðuð eftir valdaskiptin.

Hundrað daga vinstri stjórnin í borginni ætlaði að hækka fasteignagjöldin um 3.000 milljónir króna umfram verðlag. Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. ákvað að hækka þau „aðeins“ um 2.850 milljónir.

Ákvörðun núverandi meirihluta gæti þýtt tvennt. Í fyrsta lagi að hann vilji færa skattbyrði til og nýta hækkun fasteignagjalda til að lækka aðra skatta. Seinni skýringin gæti verið sú að ætlunin sé að fylgja útgjalda- og skattpíningarstefnu. Þar til annað kemur í ljós er rétt að láta nýjan meirihluta njóta vafans og gera ráð fyrir að fyrri skýringin sé rétt. Þá gæti verið komið kjörið tækifæri til að lækka útsvarið sem Reykjavíkurlistinn hækkaði aftur og aftur og hafði skattalækkanir ríkisins þannig af borgarbúum. Útsvarið í Reykjavík er nú í lögbundnu hámarki 13,03% og er því ætlað að skila um 40 milljörðum í tekjur á þessu ári. Þeir rúmu þrír milljarðar sem hækkun fasteignagjalda umfram almennar verðlagshækkanir skila borginni nægja því til að lækka útsvar um rúmt prósentustig eða niður fyrir 12%. Með lækkun útsvars í 11,99% sýndi ný stjórn að hún ber hag borgarbúa raunverulega fyrir brjósti.

Elías Theódórsson, 4.3.2008 kl. 11:17

3 Smámynd: Auðun Gíslason

Sérkennilegar þessar rangfærslur Sjálfstæðismann í skattamálum.  Hlutur ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu eykst og eykst, en djélistinn segir það skattalækkun.  Ef %/hlutfall sem ríkið tekur til sín af landsframleiðslu hækkar þýðir það hækkun skatta.  Lækki þessi %/hlutfall þýðir það lækkun skatta, en aðeins ef hlutfallið lækkar!  Menn geta leikið sér með prósentutölur á sköttum til fyrirtækja og einstaklinga fram og til baka, það segir ekki neitt.  Einhversstaðar kemur það fram ef hlutfallið af landsframleiðslunni hækkar og hækkar.  Má þar nefna rýrari persónuafslátt, tekjur ríkisins af innflutningskvótum o.s.frv.

Auðun Gíslason, 4.3.2008 kl. 15:14

4 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Já það er jákvætt að lækka skattprósentur, en það getur samt þýtt að heildar skatttekjur ríkisins hækki, sbr. viðurkenndar kenningar Arturs Laffers.  Árið 2006 voru tekjur hins opinbera um 50% af þjóðarframleiðslu sem er óeðlilega mikið og hafði hækkað úr 40% á stuttum tíma.  Það eru því sterk rök fyrir því að lækka skatta enn meira, sérstaklega finnst mér að það eigi að lækka tekjuskatt einstaklinga í takt við þessa lækkun sem fyrirtækin fengu.

Þorsteinn Sverrisson, 4.3.2008 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband