Stundum þarf að hugsa stórt (Grein 06.02.08)

Í menntamálanefnd liggja nú fyrir fjögur metnaðarfull frumvörp menntamálaráðherra um skólastarf.  Undanfarna daga hafa birst í fjölmiðlum ólík sjónarmið umsagnaraðila vegna frumvarpanna.  Áberandi eru sjónarmið sveitarfélaga landsins sem gagnrýna sérstaklega nýja og stóra hugsun í frumvörpunum um menntun kennara sem fela í sér auknar kröfur um menntun kennara á leikskólastigi og grunnskólastigi.  Sérstaklega gagnrýna sveitarfélög, þar með talin Reykjavíkurborg, þá stefnubreytingu að leikskólakennarar eigi að uppfylla sömu menntunarkröfur og grunnskólakennarar.    Gagnrýnin tekur sérstaklega mið af rekstrarsjónarmiðum skóla en eðlilega er að ýmsu að huga til að mæta nýjum kröfum.  Stórum orðum um mikilvægi góðrar kennaramenntunar til að gott skólakerfi verði betra verða hins vegar að fylgja efndir.Við hvert hátíðartækifæri eru störf kennara og framlag þeirra mærð, ítrekað er að meta þurfi störf þeirra að verðleikum með bættum kjörum og þeim þakkað fyrir fórnfýsi þeirra og metnað fyrir hönd þeirra kynslóða sem vaxa nú úr grasi.  Um þessar mundir er sérstaklega rætt um að kennarar þurfi að fá leiðréttingu á launum og í raun virðist verða þjóðarsátt í þeim efnum.  Foreldrar finna heldur betur fyrir mikilvægi þess að leiðrétta þurfi laun kennara enda er viðvarandi mannekla í leikskólum orðin staðreynd og vandinn að færast inn í grunnskóla landsins þar sem ekki er hægt að skerða þjónustu með því að senda börn heim.    Allir eru sammála um að launin eru ekki samkeppnishæf við önnur háskólamenntuð störf í dag.   Þessu þarf að breyta en að auki þarf að breyta umhverfi kjaramála kennara þannig að hægt sé að umbuna starfsfólki eftir gæðum starfa þeirra og atorku.  Það verður að hugsa stórt í skólamálum.  Það þarf að taka stór skref í átt að sveigjanlegra skólahaldi sem gerir kröfur til nemenda og starfsmanna.   Það var stórt skref að gera leikskólann að fyrsta skólastiginu.  Það þarf stórt skref til að krefjast mikillar menntunar af kennurum barna okkar.   En stærsta og mikilvægasta skrefið  er að breyta launaumhverfi kennara.  Það skref þarf að fara að stíga.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband