Tugmilljarða skemmdarverk?

Össur Skarphéðinsson, ráðherra í ríkisstjórn Íslands, skrifar pistil á heimasíðu sína aðfararnótt laugardags sem er í besta falli niðurlægjandi fyrir hann sjálfan. Þar ræðst hann á mig og aðra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á ómálefnalegan hátt með orðfæri og lágkúrulegum uppnefningum sem hæfa engan veginn manni sem vill láta taka sig alvarlega, hvað þá ráðherra í ríkisstjórn. Ég mæli eindregið með að allir sem hafa áhuga á pólitík lesi þennan pistil og velti fyrir sér um leið stöðu þess sem hann skrifar.
 

Ég ætla ekki elta ólar við allt sem Össur segir í pistli sínum, ummæli hans dæma sig sjálf. Það eru samt nokkur atriði hjá Össuri sem eru svo skemmtilega galin að það verður ekki hjá því komist að fjalla stuttlega um þau.

 

Við borgarstjórnarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eigum samkvæmt Össuri að hafa unnið “gríðarleg skemmdarverk” á REI og hann hikar ekki við að meta kostnaðinn af skemmdunum á tugi milljarða. Þessi ummæli minna á fræg ummæli verðbréfasala nokkurs í sjónvarpi í miðri netbólunni um sl. aldamót, en hann sagði það vera meiri áhættu að kaupa ekki  hlutabréf  í tilteknu félagi en að kaupa þau! Sá góði maður hafði vitaskuld kolrangt fyrir sér þá, alveg eins og Össur hefur kolrangt fyrir sér í dag. Verðbréfasalinn hafði þó atvinnu af því að fá fólk til að kaupa og selja hlutabréf. Hvað er það eiginlega sem drífur Össur áfram í skrifum sínum spyr ég?


Það er lykilatriði í fjárfestingum að hagnaður verður ekki til fyrr en fjárfestingin er seld. Það myndast enginn hagnaður við sjálf kaupin. Enginn. Við kaupin tekur kaupandinn hins vegar áhættuna af kaupunum inn á sínar bækur, sem í tilfelli REI/GGE hefði verið áhætta upp á tugi milljarða. Það að taka ekki þátt veldur því að sjálfsögðu aldrei fjárhagslegu tjóni. Það er ekki gott þegar ráðherra Össur skilur ekki slíkt grundvallaratriði.
 


Það er aldrei áhætta í því fólgin að taka ekki þátt í áhættufjárfestingum. Það er heilbrigð skynsemi að fara varlega með fjármuni og sérstaklega fjármuni annarra (opinbert fé). 

Eitt er það hvort opinberir starfsmenn hjá OR og Reykjavíkurborg eigi að spila með fjármuni borgarbúa í ”útrás” og hitt síðan hvernig það er gert. Með skrifum sínum lýsir Össur því yfir hátt og snjallt að hann telur framkvæmdina eins og hún var útfærð í góðu lagi. Aðgerð sem nýr meirihluti í borginni með fulltingi Samfylkingar hefur samt ógilt að öllu leyti.  

Össuri finnst það sem sagt í lagi að Bjarni Ármannsson fengi að kaupa hlutabréf í opinberu fyrirtæki REI fyrir hundruð milljóna króna án útboðs. Össuri finnst það í lagi að binda hendur OR með 20 ára þrælasamningi. Össuri finnst það í lagi að taka við GGE á 27 milljarða króna án þess að hafa verðmat af neinu tagi við hendina. Össuri finnst í lagi að veita GGE ótakmarkaðan aðgang að starfsmönnum OR í 20 ár! Össuri finnst í lagi að stjórnsýslulög og jafnræðisregla hafi að öllum líkindum verið þverbrotin. 


Ég hef nú ekki hitt marga á förnum vegi síðustu vikurnar sem hafa ekki lýst því yfir að framkvæmd samrunans sem slík hafi verið algerlega galin. Raunar hef ég engan heyrt lýsa ánægju sinni með hana annan en Björn Inga. Össur hefur því með skrifum sínum myndað tveggja manna lið með Birni Inga.
 


Ég er stolt af hlutdeild minni í að stöðva þann vitleysisgerning sem samruni REI og GGE svo sannarlega var. Að stöðva hann var þjóðþrifaverk en ekki skemmdarverk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Það er nefnilega það.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.11.2007 kl. 20:25

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Sammála !

Níels A. Ársælsson., 26.11.2007 kl. 20:31

3 Smámynd: Ólafur Jónsson

Hvað er það sem drífur Össur áfram í hans skrifum, ég yrði ekki hissa þó það væri samblanda af áfengi og hagsmunum, sem ég veit ekki hverjir eru í raun. Hvaða hagsmuni getur Össur mögulega haft af þessu, það er alvarleg spurning.

Mikið er maður orðinn þreyttur á að hlusta á hvað íslenska þjóðin er að tapa á því að þessi meinta viðskiptavild úti í heimi sé sködduð af þessu. Hvað íslenska þjóðin tapar mikið á því að Bjarni græði ekki enn meira af peningum. Hvað tapið sé mikið, það er augljóslega ekki tap, þó maður taki ekki áhættufjárfestingu eins og Þorbjörg bendir á.  

Ólafur Jónsson, 26.11.2007 kl. 21:07

4 Smámynd: Skarfurinn

Þorbjörg kunnið þið sjálfstæðismenn virkilega ekki að skammast ykkar eftir allt klúðrið að umdanförnu ?, þið fóruð á bak við foringja ykkar og misstuð völdin vegna togstreitu og græðgi ykkar. 

Skarfurinn, 26.11.2007 kl. 21:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband