Ástæða til upprifjunar

Nú þegar líður að ákvörðun stýrihóps um hvort endurtaka eigi eigendafundinn eða ógilda samruna REI og GGE finnst mér  ástæða til að endurbirta hér frétt úr Morgunblaðinu 14. október.  Þessu til viðbótar er við hæfi að rifja upp orð Björns Inga á þessum sama fundi um að þessi samruni snerist um hans pólitísku framtíð.

Og þá kemur greining Þorsteins Pálssonar í leiðara Fréttablaðsins upp í hugann, hver lútir í gras, Björn Ingi eða Svandís Svavarsdóttir.



Sunnudaginn 14. október, 2007 - Innlendar fréttir

Vildi styðja samrunann aftur þó fundur yrði dæmdur ólöglegur

Á SÍÐASTA meirihlutafundi fráfarandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur lagði Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, fram minnisblað, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins litu á sem úrslitakosti af hans hálfu fyrir áframhaldandi samstarfi. Þeir litu svo á, að í hugmyndum Björns Inga fælist ekkert annað en að haldið yrði áfram óbreyttri stefnu í málefnum Orkuveitunnar og því væru þær ekki aðgengilegar af þeirra hálfu.

Morgunblaðið hefur þetta blað undir höndum og er texti þess á þennan veg:

"1. REI er eðlilegt framhald á útrásarverkefnum Orkuveitu Reykjavíkur. Ákveðið að styðja við bakið á því. Bjarni Ármannsson verði áfram stjórnarformaður, aðrir fulltrúar OR innan stjórnar verði ekki stjórnmálamenn, en tenging við stjórn OR verði tryggð.

2. Ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að vera einn af lykileigendum slíks fyrirtækis til lengri framtíðar, þar sem slíkt krefðist aukins áhættufjármagns og þátttöku í aukningu hlutafjár. Hlutverkið fremur að gera verðmæti úr þeirri þekkingu og reynslu sem OR og starfsfólk hennar býr yfir.

3. Ákveðið að í kjölfar skráningar félagsins verði stærstur hluti hlutabréfanna seldur, enda hafi þá gefist kostur á að auka virði þess til hagsbóta fyrir eigendur. Annaðhvort verði borgarbúum gefinn kostur á að taka þátt, eða þeir njóti þess með beinum hætti.

4. Verði eigendafundur af einhverjum ástæðum dæmdur ólögmætur verði boðað til hans aftur og þá muni fulltrúar Reykjavíkur styðja samrunann aftur í samræmi við fyrri stefnumótun.

5. Upplýsingagjöf vegna fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar og/eða dótturfyrirtækja þeirra verði efld og haldnir reglulegir kynningarfundir með kjörnum fulltrúum.

6. Fulltrúar Reykjavíkur bera fullt traust til starfsmanna Orkuveitunnar og dótturfyrirtækja hennar."




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þið hafið öll fallið á siðgæðisprófi.

Þvílíkt lið.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 1.11.2007 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband