Fimmtudagur, 1. febrúar 2007
Meira um strætó af vef umhverfisráðs
?Meginlína nýs meirihluta í Reykjavík er að styrkja þurfi almenningssamgöngur og að þjónusta sem veitt er og það viðmót sem notendur fá: skipti mestu. Stefnan er að minnka flækjustig sem skapast með ólíkum gjaldflokkum,? segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. ?Almenningssamgöngur eiga að vera ódýrar, einfaldar og fljótlegar. Til að svo verði þarf að koma í veg fyrir frekari gjaldskrárhækkanir,? segir Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi Vinstri grænna. Gjaldskrár breytingar Strætó bs hafa verið í deiglunni í vikunni.
Allir eru sammála um að æskilegt er að almenningssamgöngur gegni mikilvægu hlutverki í borgum. Öflugar almenningssamgöngur draga m.a. úr loftmengun og umferðartöfum og stuðla að því að borgarlandið nýtist betur undir annað en samgöngur.
Ný gjaldskrá tók gildi hjá Strætó núna í vikunni. ?Í flestum tilvikum er um hækkun fargjalda að ræða, en einstaka verðflokkar lækka eða standa í stað. Fargjaldahækkunin nemur að jafnaði tæpum 10%. Minnst er hækkunin hjá öldruðum og öryrkjum, eða 6,7%,? segir í frétt frá Strætó bs (www.bus.is). Fjargjald fullorðinna verður 280 krónur en staðgreiðslufargjald 6 til 18 ára verður 100 krónur. Farið í fargjaldskorti 6-11 ára verður áfram 37,50 krónur. Auk þessa bjóðast ýmis afsláttarkjör.
Bókanir í umhverfisráði um strætó
Gjaldskrárbreytingarnar komu til umræðu á síðasta fundi umhverfisráðs og gerðu bæði minnihluti og meirihluti bókanir: Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslyndra sögðu hækkanir á fargjöldum Strætó ganga í berhögg við stefnu Reykjavíkurborgar um að efla almenningssamgöngur í því augnamiðið að bæta umhverfi, heilsu og borgarbrag. Í bókun þeirra stendur að þessar hækkanir bitni á þeim sem síst skyldi: fólki sem velur umhverfisvænan samgöngumáta.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sögðu aftur á móti í bókun að tilkoma staðgreiðslufargjalds barna og ungmenn hefði vonandi þau áhrif að ungmenni nýttu sér almenningssamgöngur betur og kynntust nýju og breyttu leiðakerfi. Meirihlutinn nefndi einnig í bókun sinni gildi þjónustu og viðmóts notenda vagna og skýrt markmið sitt í að bæta þjónustu strætó með öllum mögulegum aðgerðum.
Út frá þörfum Reykvíkinga
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umhverfisráði Reykjavíkur og stjórnarmaður í stjórn Strætó bs leggur áherslu á lækkanir í strætó handa ungu fólki og bendir á að gjaldskrárbreytingin endurspegli hækkanir og spár um hækkanir á verðlagi og olíugjaldi.?Í undirbúningi hjá Strætó bs. og umhverfisráði borgarinnar er tilraun um að gefa frítt í strætó fyrir tiltekna hópa,? segir Þorbjörg hér á heimasíðu Umhverfissviðs. ?Þessi tilraun mun mæla hvort að gjaldið í vagnana sé í raun hindrun í sjálfu sér, einnig verður spennandi að sjá hvernig niðurstöðurnar verða.? Hún segir að kannanir erlendis sýni að greiðsla gjalds sé ekki hindrun enda sé alltaf mjög skýr ávinningur fyrir fólk að nota almenningssamgöngur. ?Til dæmis kostar 9 mánaða Strætókort jafnmikið og rekstur bíls í einn mánuð, ? segir hún. Þorbjörg segir stefnuna vera að minnka markvisst það flækjustig sem skapist með ólíkum gjaldflokkum. ?Með því að setja eitt skýrt gjald fyrir börn er mun auðveldara að kynna fargjaldið í samhengi við einfaldleikann við að nota vagninn. Nýtt leiðakerfi hefur vafist fyrir mörgum og við teljum mikilvægt að kynna yngstu notendunum, framtíðarnotendum Strætó, fyrir kerfinu og kostum þess að nota vagninn til að komast á milli borgarhluta eða sveitarfélaga,? segir hún og að markmiðið sé að athygli foreldra á því að börnin geti á auðveldan hátt notað leiðakerfi Strætó til að komast í frístundir, til afa og ömmu eða til vina. Hún segir næsta skref stjórnar Strætó bs. að einfalda staðgreiðslufargjöld fyrir fullorðna en núverandi notendur Strætó nýta sér mjög mikið afsláttarkort nú þegar sem léttir á pyngjunni.
?Meginlína nýs meirihluta í Reykjavík er að almenningssamgöngur þurfi að styrkja og að í því samhengi skipti mest sú þjónusta sem veitt er og það viðmót sem notendur fá. Þjónusta á að mótast út frá þörfum Reykvíkinga fyrst og fremst og vagnarnir eiga að vera raunverulegur valkostur við aðra samgöngukosti,? segir hún.
Þau borga sem menga
Sóley Tómasdóttir fulltrúi Vinstri grænna í umhverfisráði segist vera ánægð með að gjaldskrá Strætó hafi verið einfölduð og að gjald ungmenna hafi verið lækkað. ?Hækkanir á gjaldskrá fyrir börn (12-18) og fullorðna finnst mér aftur á móti óréttlætanlegar að svo stöddu,? segir hún. Strætó er umhverfisvænn samgöngumáti að hennar mati og á því að vera ódýr. ?Hugmyndafræði gjaldheimtu á að byggja á því að þau borgi sem mengi.? Sóley telur brýnt að styrkja almenningssamgangnakerfið í Reykjavík. Almenningssamgöngur eiga að vera ódýrar, einfaldar og fljótlegar. ?Til að svo verði þarf að koma í veg fyrir frekari gjaldskrárhækkanir, fjölga forgangsakreinum og þétta ferðir strætisvagnanna. Umhverfisvæn borgaryfirvöld eiga að styðja myndarlega við almenningssamgöngur og tryggja að raunverulegir valkostir séu til staðar fyrir borgarbúa,? segir hún.
Heilnæmt hlutverk
Pálmi Freyr Randversson sérfræðingur í samgöngumálum hjá Umhverfissviði segir að auka eigi hlutdeild almenningssamgangna úr 4%-8% á næstu 20 árum. Hann segir að meðal annars þurfi að bæta lykilstoppistöðvar vagna þannig að þær verði skjólgóðar og vistlegar. ?Strætó skal njóta forgangs í umferðinni og í því tilliti er unnin áætlun um forgangsbrautir, ? segir hann.
Sóknarfæri strætó eru mikil, að mati Pálma og að sennilega þurfi hugarfarsbreytingu gagnvart almenningssamgöngum í Reykjavík. ?Einnig eru hjólreiðar og almenningssamgöngur tilvaldir kostir saman ? þar sem auðvelt væri að taka hjólið með í strætó eða skilja það eftir við stoppistöðina,? segir hann. Almenningssamgöngur í huga Pálma eiga að vera notaðar sem verkfæri til að stuðla að heilnæmu umhverfi í borginni, bættri heilsu borgarbúa og aðlaðandi borgarbrag.
Fimmtudagur, 1. febrúar 2007
Danir
Borgarráð samþykkti að styrkja landsliðið um 1.000.000 kr. í dag. Frábært framtak hjá borgarstjóra. Áfram Ísland!
Miðvikudagur, 24. janúar 2007
Strætófargjöld
Ég skil vel að þeir sem tala fyrir því að frítt eigi að vera í Strætó séu ósáttir en það er hins vegar umræða sem verður að fara fram á ábyrgan hátt því rúmlega 800 milljónir af tekjum Strætó bs. koma frá fargjöldum. Ef að Strætó bs. ætti að gefa frítt í Strætó þarf töluvert hærri framlög frá sveitarfélögunum og þar með hærri skattheimtu. Miðað við síðustu fjárhagsáætlun er alveg skýrt að það er ekki til umræðu í neinu af þeim 7 sveitarfélögum sem eiga aðild að félaginu. Á meðan svo er og engar ákvarðanir teknar um annað fylgja strætófargjöld verðlagsþróun eins og allt annað. Benda má á að verðlag þeirra þátta er tengjast rekstri Strætó og bifreiða hafa hækkað mun meira en annað auk þess sem olíugjald leggst á fyrirtækið nú en ekki áður.
Það er mikilvægt í þessu samhengi að minna á að skólakort í Strætó bs. (sem dugar allan veturinn og er fyrir alla, ekki bara skólafólk) er jafndýrt og rekstur eins bíls í einn mánuð. Staðgreiðslufargjald í Strætó er jafnhátt gjald og tekið er fyrir einn cafe latte á kaffihúsum borgarinnar og Græna kortið (mánaðarkort) fyrir þann sem notar strætó daglega til og frá vinnu er sambærilegt í staðgreiðsluverði fyrir eina ferð sem nemur 112 kr.
Hér fylgir bókun Framsóknarmanna og Sjálfstæðsimanna í umhverfisráði sl. mánudag:
?Ný gjaldskrá tók gildi hjá Strætó mánudaginn 22. janúar 2007. Breytingin endurspeglar verðlagshækkanir sl. árs sem og spár um hækkanir á þessu ári sem koma að miklu leyti til vegna hækkana olíuverðs. Veruleg breyting verður á fargjöldum ungmenna frá 12 til 18 ára aldurs. Hingað til hafa 12 ? 18 ára ungmenni þurft að greiða 250 krónur fyrir stakt gjald en með tilkomu staðgreiðslufargjalds barna og ungmenna greiða þau nú aðeins 100 krónur fyrir farið, sem er 60% lækkun. Þessi breyting mun vonandi hafa þau áhrif að fleiri ungmenni nýti sér almenningssamgöngur og kynnist nýju og mikið breyttu leiðakerfi. Flestir viðskiptavina Strætó notfæra sér afsláttarkjör í formi miða og korta. Engin breyting verður á verði fargjaldakorts barna frá 6 til 11 ára aldri sem greiða sem fyrr 37,50 krónur fyrir farið. Þótt það sé alltaf vont að þurfa að hækka fargjöld í strætó, sýna kannanir erlendis frá að lítil fylgni sé milli þess hvað kostar í almenningssamgöngur og hversu margir nota þær. Miklu meiru ræður sú þjónusta sem veitt er og það viðmót sem notendur fá. Það er skýrt markmið meirihlutans í Reykjavík að bæta þjónustu strætó með öllum mögulegum aðgerðum. ?
Fimmtudagur, 11. janúar 2007
Börn í fararbroddi í Reykjavík (Mbl. 08.01.07)
Samfylkingin gleymir skjótt
Samfylkingin í borgarstjórn er fljót að gleyma eins og sést á grein Oddnýjar Sturludóttir í Morgunblaðinu sl. mánudag. Hún er sérstaklega fljót að gleyma þeirri þróun sem átti sér stað og endurspeglaðist í því ástandi sem hér ríkti í dagvistarmálum ungra barna í borginni síðastliðin ár, en dagforeldrum hefur fækkað um 40% frá árinu 2000. Í verstu tilfellunum þurftu foreldrar að hætta í starfi eða taka launalaust leyfi til að sinna börnum sínum vegna smánarlegs framlags borgarinnar til dagforeldrakerfisins. Kerfið er afar gott enda eru yfir 90% foreldra mjög ánægðir með þjónustu dagforeldra. Samfylkingin er líka búin að gleyma því að fyrir réttu ári samþykkti hún, í samstarfi við Framsóknarflokkinn og Vinstrihreyfinguna grænt framboð, skilyrðislaust rúmlega 30% aukningu til dagforeldra. Í málefnaáherslum Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar komu heldur ekki fram neinar hugmyndir að breyttri þjónustu dagforeldra eða stofnanavæðingu þeirra. Hækkun fyrrverandi meirihluta var án allra skilyrða af hendi borgarinnar, nákvæmlega eins og Samfylkingin gagnrýnir núverandi meirihluta fyrir. Það er greinilega þægilegt að vera í minnihluta og leyfa sér að kannast ekki við eigin fortíð. Samt var um að ræða sögulega hækkun, því árið 2005 var ástandið orðið þannig að börn hjóna fengu niðurgreiðslu frá borginni að upphæð einungis kr. 13.000 á mánuði fyrir 8 tíma vistun! Eftir aukningu borgarstjórnar til málaflokksins nú 1. janúar 2007 fá hjón 32.000 kr. fyrir 8 tíma vistun og einstæðir foreldrar tæp 50.000 kr. fyrir 8 tíma vistun. Of snemmt er að meta hvernig þessi aukning skiptist á milli foreldra og dagforeldra en þar sem dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi er þeim óheimilt með lögum að samræma gjaldskrá sína. Þó er ljóst að foreldrar eru ekki að fá hækkun á gjöldum hjá dagforeldrum og félag dagforeldra hefur gefið skýr tilmæli til dagforeldra að lækka gjöld á foreldra að einhverju marki.
Leikskólagjöldin í Reykjavík lægst allra
Í dag eru foreldrar í Reykjavík að greiða lægstu gjöldin á landinu og langlægstu gjöldin greiða foreldar sem eru með fleiri en eitt barn í leikskóla. Sérstaklega hefur verið komið til móts við einstæða foreldra og barnmargar fjölskyldur. Sem dæmi má nefna að foreldrar með tvö börn í leikskóla greiða nú rúmlega 20.000 kr. lægri upphæð á mánuði eða sem nemur 220.000 kr. á ársgrundvelli í leikskólagjöld, þrátt fyrir verðlagsbreytingar. Þetta hefur allt gerst á 6 mánuðum og áfram mun nýr meirihluti framkvæma gefin loforð og gott betur.
Laugardagur, 30. desember 2006
Greiðslur auknar til dagforeldra
Þann 1. janúar 2007 eykst framlag Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar með börnum hjá dagforeldrum um 32%. Markmiðið með því að auka framlag til dagforeldra er fyrst og fremst að lækka kostnað foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra en einnig að tryggja grundvöll fyrir þjónustunni, þ.e. að þjónusta dagforeldra verði áfram til staðar í borginni.
Borgarstjórn samþykkti breytingartillögu leikskólaráðs á fjárhagsáætlun 19. desember sl. þar sem óskað var eftir verulegri hækkun framlaga borgarinnar með börnum sem njóta þjónustu dagforeldra í borginni. Nýleg könnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem gerð var fyrir Menntasvið sýndi að yfir 90% foreldra sem nýta sér þjónustu dagforeldra eru mjög ánægðir með þjónustuna. Dagforeldrar eru mjög mikilvægur liður í þjónustu við foreldra strax eftir að fæðingarorlofi lýkur. Þrátt fyrir þetta hefur dagforeldrakerfið á undanförnum árum fengið lítinn stuðning borgaryfirvalda. Lítill stuðningur við þetta mikilvæga kerfi undanfarin ár hefur til dæmis leitt af sér 37% fækkun dagforeldra frá árinu 2000.
Miðað er við að þessi aukning framlags til dagforeldra kosti Reykjavíkurborg 85 milljónir á ári. Áhrif þessara breytinga felur í sér að barn hjóna sem er í 8 tíma vistun hjá dagforeldri fær niðurgreiðslu frá Reykjavíkurborg um kr. 31.880 á mánuði en fékk áður kr. 21.600. Niðurgreiðslan hækkar því hjá hjónum og foreldrum í sambúð um kr.10.280 eða um ríflega 110.000 kr. ár ári. Barn einstæðs foreldris og foreldrum sem báðir stunda nám og er í 8 tíma vistun hjá dagforeldri fær niðurgreiðslu frá Reykjavíkurborg um kr. 49.440 á mánuði en fékk áður kr. 33.520. Niðurgreiðslan hækkar því hjá einstæðum foreldrum og foreldrum sem báðir stunda nám um kr. 15.920 eða um 175.000 kr. á ári.
Laugardagur, 30. desember 2006
Fjölskylduborgin Reykjavík?
Borgarfulltrúi Dagur B. Eggertsson gagnrýndi í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag nýjan meirihluta borgarstjórnar og sagði vísitölutengdar hækkanir leikskólagjalda vera ,,stefna tekin frá fjölskylduvænni borg?. Borgarfulltrúi líttu þér nær og kynntu þér þróun fjölskylduvænu borgarinnar í tölulegu samhengi. Þegar tölurnar eru rýndar koma upp í hugann fjölmargar spurningar til Dags B. Eggertssonar um fjölskyldustefnu þá sem hann leiddi meðal annara síðustu 12 ár.
7,4% fækkun leikskólabarna frá 1997
Það leikur enginn vafi á að flestir Reykvíkingar telji að borgin eigi að vera fyrsta flokks og til fyrirmyndar fyrir fjölskyldur með ung börn. Tölur um íbúaþróun gefa þó skýrar vísbendingar um að svo sé ekki. Tölur Hagstofu Íslands sýna að börnum á leikskólaaldri hefur fjölgað í Kópavogi um 26%, í Hafnarfirði um 15% og í Garðabæ um 15% frá 1997 til 1. desember 2006. Á sama tíma fækkaði sama aldurshópi í Reykjavík um 7,4%. Á þessu sama tímabili hefur Íslendingum fjölgað um 12% og aðfluttum börnum á leikskólaaldri til höfuðborgarsvæðisins fjölgað um ríflega 20% á tímabilinu. Framtíðarspár sem ganga út frá núgildandi aðalskipulagi fyrrverandi meirihluta gera ráð fyrir áframhaldandi fækkun barna í borginni og núverandi spá gerir ráð fyrir að frá 2005 til 2030 muni börnum á leikskólaaldri fækka um ríflega 8% en að eldri íbúum muni fjölga um ríflega 20%. Þessar tölur eru sláandi og ég tel mikilvægt að borgarbúar átti sig á og ræði þessa grundvallarbreytingu sem hefur átt sér stað í Reykjavík.
Hvar skal skjóta rótum?
Þessar tölur eru staðfesting á mikilvægi þeirra aðgerða sem nýr meirihluti í Reykjavík stendur fyrir með áherslu sinni á málefni fjölskyldunnar. Stofnun leikskólaráðs, gerð menntastefnu borgarinnar í fyrsta sinn, stofnun starfshóps um gerð fyrstu fjölskyldustefnu borgarinnar, lækkun leikskólagjalda, fegrun umhverfisins, efling dagforeldrakerfisins, aukið lóðaframboð og frístundakort fyrir börn eru allt upphafið að öflugri sókn til að sýna fjölskyldum hvað borgin býður upp á. Þessu til viðbótar er aðalskipulag í endurskoðun hjá skipulagsráði en skipulag er ein mikilvægasta stefnumörkunin í þessu samhengi. Afar mikilvægt er að í þeirri vinnu sé hlutföllum um fjölda sérbýla og fjölbýla verði breytt frá því sem verið hefur þannig að meira framboð verði af sérbýlum og stærri íbúðum sem fjölskyldur velja fremur þegar börnum fjölgar. Að auki verður í aðalskipulagi að gera ráð fyrir leikskólum og útivistarsvæðum fyrir yngstu börnin, en í núgildandi skipulagi er það ekki gert.
Börnin aftur í borgina
Í öllum ákvörðunum borgarinnar verður að huga að aðstæðum yngstu borgarbúanna og hugsa hlutina út frá þeirra þörfum. Barnafjölskyldur hafa nefnilega val. Þær geta á einfaldan hátt kynnt sér þjónustu fjölmargra sveitarfélaga í kringum borgina, skoðað valkosti og stærð húsnæðis, hreinlæti, öryggi og umhverfi, útivistarsvæði, samgöngur til og frá og síðast en ekki síst áherslur og kraft skólastarfs í sveitarfélaginu. Þessi samanburður hefur því miður leitt til fækkunar barnafólks í Reykjavík síðustu 10 árin. Reykjavík á að vera fyrsta val barnafjölskyldna og það er markmið nýs meirihluta í borgarstjórn að gerða það með því að veita ungum börnum og fjölskyldum þeirra örugga og fjölbreytta þjónustu þar sem áherslan er á val, gæði og lausnir.
Mánudagur, 20. nóvember 2006
Dagforeldrar og gjaldskrár
Miðað við þær upplýsingar sem komu fram í Kompás er líklegt að dagforeldrar misskilji mikilvægi þess að verð og gæði þjónustu þeirra sé gegnsæ. Ekki aðeins er gegnsæi mikilvægt til þess að foreldrar fái góðar og nýtanlegar upplýsingar heldur einnig til þess að það sé sýnilegur sá munur sem að niðurgreiðslur til dagforeldra miðað við niðurgreiðslur til leikskólabarna.
Mánudagur, 20. nóvember 2006
Eru foreldrar alvondir? : Grein í Fréttablaðinu 19.11.06
Sérfræðingar og jafnvel afar og ömmur hafa að undanförnu viðrað þær skoðanir sínar að íslensk börn séu undir of miklu álagi, foreldrar gefi sér ekki tíma til að sinna þeim og að Ísland sé ekki nægilega barnvænt samfélag. Sitt sýnist hverjum en töluvert skortir á að umræðan sé byggð á staðreyndum eða á reynsluheimi foreldra. Til dæmis er mikið vísað í tölur um að tæplega 90% barna dvelji 8 tíma eða lengur á leikskóla á dag. Leikskólaskrifstofa Reykjavíkurborgar kannaði nýlega í öllum hverfum borgarinnar raunverulegan vistunartíma í leikskólum. Könnunin sýndi að börnin eru að meðaltali 7,4 klst. á dag í skólunum en að foreldrar greiða fyrir dvalartíma sem nemur 8,2 klst. á dag. Engin munur var á vistunartíma eftir aldri og aðeins 3% barna voru í vistun eftir kl. 17. Líklega liggur munurinn á rauntíma og samningstíma í að foreldrar vilji eiga borð fyrir báru með tímann sinn og vilji ekki að leikskólakennarar þurfi ekki að vinna lengur ef eitthvað kemur upp á. Með þessari könnun fengu margir foreldrar sem leggja sig hart fram við uppeldið uppreisn æru enda nær þorri foreldra að samræma ágætlega fjölskyldulíf og starf.
Dvalartími barna í leikskólum hefur vissulega breyst mikið undanfarin ár. Til að mynda voru tæplega 60% barna í heilsdagsvistun árið 1999 en 90% árið 2005. Þessi breyting skýrist ekki nema að litlu leyti af fjölgun barna heldur jókst dvalartími barna samfara auknu framboði heilsdagsplássa. Á tímabilinu 1999-2005 fjölgaði börnum sem sækja leikskóla um 800 þrátt fyrir að íbúum með ung börn í Reykjavík fækki. Við fyrstu sýn virðast þessar tölur skýra vel umræðuna um aukið álag á börnin en ef nánar er rýnt kemur í ljós að á sama tímabili hefur vinnumarkaðurinn ekki breyst mikið. Tölur Hagstofu sýna að atvinnuþátttaka kvenna og karla er sú sama og vinnustundir eru eins hjá konum og aðeins færri hjá körlum. Þær tölur gefa til kynna að einhvers staðar hafi börnin verið í vistun áður en plássum fjölgaði og að jafnvel felist breytingin í að nú sé sýnilegri eða teljanlegri sá tími sem börn eru frá heimili. Hér er þó ekki lagður dómur á hvað sé hinn rétti vistunartími barns í leikskóla eða í vistun enda eru þær ákvarðanir teknar af foreldrunum sjálfum. Í þessu samhengi er þó mikilvægt að nefna að á þessum tíma hefur fagfólki leikskóla fjölgað og umræðan um fagmennsku og menntun í leikskólum blómstrað sem aldrei fyrr. Foreldrar treysta vel gæðum þeirrar umönnunar og menntunar sem er í boði og taka í auknum mæli upplýstar ákvarðanir um þarfir barna sinna út frá hugmyndafræði og fagmennsku skólanna.
Föstudagur, 10. nóvember 2006
Frétt úr Morgunblaðinu - viðvera leikskólabarna
Kannar viðveru á leikskólum
Börn dvelja að meðaltali í 7,4 klukkustundir í leikskólanum en foreldrar greiða fyrir 8,3
SAMKVÆMT könnun leikskólasviðs Reykjavíkur eru börn að meðaltali 7,4 klukkustundir á dag á leikskólum en foreldrar greiða á hinn bóginn að meðaltali fyrir 8,3 klukkustundir. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs, segir að skýringin á þessum mun sé væntanlega sú að foreldrar vilji hafa vaðið fyrir neðan sig. Þá sé ekki endilega víst að börn séu lengur í dagvistun nú en fyrir um 15?20 árum. Í samtali við Morgunblaðið sagði Þorbjörg að kveikjan að könnuninni hefði verið greinaflokkur í Morgunblaðinu þar sem spurt var hvort Ísland væri barnvænt samfélag en þar hefði verið rætt um að margir foreldrar væru of uppteknir og hefðu ekki nægan tíma fyrir börnin sín. Einn viðmælandi blaðsins í þessum greinaflokki vitnaði m.a. í tölur frá Hagstofu Íslands um að 71% barna dveldi í átta klukkustundir eða lengur á leikskóla á dag. Þorbjörg sagði að sér hefði fundist undarlegt ef það væri rétt að börn væru svo lengi í leikskóla því henni virtist sem foreldrar reyndu sitt besta til að sækja börnin sem fyrst á leikskóla. Í kjölfarið hefði hún látið gera könnun á raunverulegum dvalartíma leikskólabarna en þær upplýsingar er að finna í viðveruskrám skólanna. Könnunin náði til 11 leikskóla, af ýmsum stærðum, í öllum hverfum borgarinnar og alls til um 10% reykvískra leikskólabarna. Niðurstaðan var sú að á árunum 2001?2005 var dvalartíminn að meðaltali 7,4 klukkustundir. Foreldrar greiddu á hinn bóginn að meðaltali fyrir 8,3 klukkustundir. Þorbjörg telur að skýringin á þessum mun sé einkum tvíþætt, annars vegar geti verið að foreldrar þurfi endrum og sinnum að láta börnin sín vera lengur í skólanum en venjulega, hins vegar að foreldrar vilji hafa vaðið fyrir neðan sig ef þeim skyldi seinka, frekar en fara yfir tímann sem þeir hafa greitt fyrir en slíku mæti ekki velvild.
Voru áður á tveimur stöðum
Þorbjörg sagði að upplýsingar um raunverulegan dvalartíma væru mikilvægartil að hægt væri að ræða um dvöl barna á leikskólum á réttum forsendum. Hún bætti við að gjarnan væri talað um að stökkbreyting hefði orðið í þessum málum á undanförnum árum og að nú væru börnin miklu lengur í dagvistun en áður. Þorbjörg telur ekki víst að breytingin sé í raun svo mikil því á meðan leikskólavist hafi aðeins verið í boði hálfan daginn hafi börnin gjarnan verið í dagvistun á tveimur stöðum. Þá mætti heldur ekki gleyma því að leikskólar væru öflugar og faglegar menntastofnanir þar sem vel væri hugsað um börnin. Ennfremur yrði að nefna hlutverk leikskóla í jafnréttismálum en enn væri það þannig að konur drægju frekar úr vinnu en karlar til að annast börnin og gæfu frekar eftir í sínum störfum. Þetta væri ekki endilega neikvætt en það yrði á hinn bóginn að gefa konum kost á vali og þær ættu ekki að fá samviskubit þó þær yrðu að fá vistun fyrir börnin sín í átta eða átta og hálfan tíma. Hvergi væri atvinnuþátttaka kvenna meiri en hér á landi og það gengi ekki að tala leikskólana niður en hvetja um leið konur til að sækjast eftir meiri ábyrgð og vinnu.
Spurt er
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.5.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur
- Desember 2009
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júní 2006
- Maí 2006
- Apríl 2006
- Mars 2006
- Febrúar 2006
- Janúar 2006
Bloggvinir
-
kjartanvido
-
olofnordal
-
fridjon
-
andres
-
astamoller
-
gaflari
-
ragnhildur
-
birkire
-
doggpals
-
stebbifr
-
jarnskvisan
-
herdis
-
ea
-
doj
-
godsamskipti
-
arndisthor
-
audbergur
-
audureva
-
arniarna
-
aslaugfridriks
-
dullur
-
bryn-dis
-
jaxlinn
-
erla
-
uthlid
-
grettir
-
gudfinna
-
hildurhelgas
-
kolgrimur
-
hlodver
-
oxford
-
hvitiriddarinn
-
golli
-
ingo
-
ibb
-
nonniblogg
-
jorunnfrimannsdottir
-
skruddan
-
maggaelin
-
olafur23
-
otti
-
sigurdurkari
-
sjalfstaedi
-
saethorhelgi
-
valgerdurhalldorsdottir
-
vefritid
-
vibba
-
villithor
-
thorsteinn
-
hnefill