Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Aukið val um námsgögn (grein í Mbl. 24.12)

Hljóðlát bylting á sér stað í grunnskólum landsins þessa dagana. Á grundvelli nýrra laga um námsgögn er Menntamálaráðuneytið í fyrsta sinn að færa til grunnskóla landsins fjármagn til námsgagnakaupa sem skólarnir velja sér sjálfir. Nú fær hver og einn grunnskóli, til viðbótar við sinn kvóta, hjá Námsgagnastofnun fé til innkaupa á námsgögnum út frá þörfum skólans og hugmyndafræðilegri stefnu.

Breyting í kjölfar nýrra laga

Ný lög um námsgögn voru samþykkt á vorþingi 2007. Markmið laganna sem samþykkt voru á vorþingi 2007 er að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla. Lögin gera ráð fyrir að starfsemi Námsgagnastofnunar haldist svo til óbreytt. Að auki er kveðið á um námsgagnasjóð sem hefur það hlutverk að leggja grunnskólum til fé til námsgagnakaupa í því augnamiði að tryggja og auka val þeirra um námsgögn. Með námsgagnasjóði er brotið blað í sögu námsgagnaútgáfu fyrir grunnskóla en ríkið hefur eitt séð um útgáfu námsgagna frá 1936. Framlag til námsgagnasjóðs er ákveðið í fjárlögum ár hvert. Á þessu ári er búið að greiða samtals 100 milljónir og í framtíðinni verður greitt úr námsgagnasjóði í maí ár hvert. Ráðstöfun á þessu fé er til kaupa á námsgögnum frá lögaðilum og eiga námsgögnin að samrýmast markmiðum aðalnámskrár. Fjármunir úr námsgagnasjóði mega flytjast milli ára hjá hverjum og einum grunnskóla.

Aukið val út frá sýn kennara og skóla

Námsgögn grunnskóla hafa hingað til verið einsleit enda hefur Námsgagnastofnun ekki haft mikið svigrúm miðað við fjárframlög síðustu ára. Í raun hafa stjórnendur Námsgagnastofnunar unnið þrekvirki í útgáfu námsgagna fyrir börn þrátt fyrir miklar breytingar á námskrám og sinnt þörfum skóla á hagkvæman hátt. Það er hins vegar löngu tímabært í ljósi stefnumarkandi ákvarðana skóla, sveitarfélaga og löggjafa að skólar fái meira svigrúm til að kaupa inn þau námsgögn sem þeim henta og geti valið úr fjölbreyttu efni frá ólíkum lögaðilum, þ.m.t. Námsgagnastofnunar. Nú er vonin að hinir ýmsu lögaðilar, útgefendur skólaefnis og jafnvel fyrirtæki kennara kynni vinnu sína fyrir skólum landsins og auki þannig val og ábyrgð kennara sjálfra á því kennsluefni sem notað er. 


Gleðilega hátíð

Gleðileg jól til ykkar allra.  Ég vona að aðfangadagur og jóladagur hafi verið sem hátíðlegastur og samvera við ættingja og vini sem mest og best.  

Að sama skapi vil ég þakka öllu lesendum fyrir árið sem er að líða og óska öllu gleðilegs nýs árs. 


Ekki góðar fréttir

Þetta lítur ekki nægilega vel út.   Ísland virðist falla talsvert í lesskilningi frá fyrri könnunum og stærðfræði þó ekki eins mikið.    Við erum í miðjumoðinu í öllum þremur greinum en einna  verst í náttúrufræði.   Í ljós kemur að mikil tilfærsla er á góðum nemendum, þ.e. nemendum sem eru á hæfnisstigi 5 og 6 þannig að við fjölgum þeim nemendum sem eru í meðalhæfnisþrepum eða þeim verstu.   Mér sýnist þau lönd sem hafa bætt sig einmitt hafa gert hið gagnstæða, einbeitt sér að því að styrkja þá nemendur sem að eru í meðalhópnum og bætt frammistöðu þeirra.

Þetta kallar á mikla endurskoðun á málinu og ég hugsa að ég ræði þetta á borgarstjórnarfundi á eftir.  Þetta kallar á meiri upplýsingar um árangur, akkúrat það sem við Sjálfstæðismenn vildu í síðasta meirihluta fara að gera meira af.   Einnig kemur inn í þessa umræðu agamál, skóli án aðgreiningar og opin kennslurými sem ég persónulega tel vera mikið álag fyrir kennara.

Sveitarfélög hafa nú rekið grunnskólana í áratug og því ágæt reynsla komin.  Það eru mikil vonbrigði að frá 2000 hafi staða Íslands dalað samfara þessum uppbyggingartíma.  Ég fagna því að ráðherra ætli að fá viðbrögð allra í skólaumhverfinu, nú þurfa foreldrar, kennara, sveitarfélög og pólitíkusar að líta í eigin barm og skoða hvað þarf að gera.   Eftir þrjú ár verðum við að hækka okkur í þessari könnun.  Það er það eina sem er kýrskýrt í mínum huga.


mbl.is PISA-könnun vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband