Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Gagnrýni stjórnar leikskólakennara í Reykjavík

Leikskólakennarar í Reykjavík hafa sent frá sér ályktun þar sem þeir gagnrýna ákvörðun meirihlutans í borgarstjórn að skipta menntaráði upp í tvö ráð fyrir leik- og grunnskóla. Mér þykir miður að þeir hefji samstarfið svona án þess að hafa samband við mig eða Júlíus til að fá nánari upplýsingar um markmið okkar. Ályktunin dregur fram forsendur gagnrýninnar sem fela í sér að þetta sé yfirlýsing um að fallið sé frá því markmiði að tengja saman leikskóla og grunnskóla.

Þetta er fjarri lagi. Mér þykir afar leitt að kennarar treysti ekki betur hugmyndum okkar um leikskólastigið og þeim metnaðarfullu tillögum sem lagðar voru fram í kosningabaráttunni varðandi skólamál. Ég get ekki séð af hverju ekki er hægt að vinna áfram að góðri uppbyggingu og verkefnum án þess að kennarar hafi miklar skoðanir á skipulagi stjórnkerfisins. Ég hef sagt við þá sem hafa velt þessu fyrir sér að ég sjái ekki betur en að ég fái tækifæri til að auka snerpu og fjölga málum sem hægt er að vinna að. Í nýjustu ályktun félags leikskólakennara er skýrt kveðið á um mörg verkefni sem enn á eftir að vinna að til að bæta umhverfi og aðbúnað leikskólans.

Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hugsa sér stóra hluti er varða leiksskólastigið og aðra þjónustu við yngstu börnin. Ákvörðunin um að skipta menntaráði upp er tekin annars vegar út frá þeim mörgu og mikilvægu verkefnum sem flokkarnir hafa sett á oddinn á kjörtímabilinu til að bæta þjónustu við yngstu Reykvíkingana og hins vegar vegna fenginnar reynslu í menntaráði þar sem málefni yngstu barnanna hafa fengið of litla umfjöllun í mjög svo stóru fagráði.

Tími til að hefjast handa

Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn (B og D listi) hafa tekið við ráðhúsinu í Reykjavík. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er borgarstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir forseti borgarstjórnar og Björn Ingi Hrafnsson formaður borgarráðs.

Ég er dauðfegin að ferli samninga og skipulags nefnda er lokið í borginni. Svona tímabil tekur alltaf á liðsheildina. Ég er viss um að þetta hefur verið eitt erfiðasta verkefni nýs borgarstjóra enda margar ólíkar kröfur til staðar frá borgarfulltrúum og samstarfsflokki. En nú er þetta allt í höfn og nóg að gera. Þegar líður á kjörtímabiliðð munum við svo þurfa á fleiru góðu fólki að halda til að starfa fyrir okkur í nefndum og ráðum.

Ég er mjög ánægð með mitt hlutskipti. Ég fæ að takast á við spennandi og aðkallandi málefni leikskólabarna og ekki síst einmitt barna sem eru ekki komin með aldur til að fara í leikskóla. Það er spennandi að fá að móta nýtt svið og tengja leik- og grunnskóla betur saman. Leikskólinn er að mínu mati skólastig 21. aldarinnar og þarf að fá sitt vægi innan borgarkerfisins. Það er leikur einn að hafa gott samstarf grunnskólaráðs og leikskólaráðs áfram. Þetta stig er mótandi fyrir alla litlu Reykvíkingana sem við kappkostum að líði vel og þroskist þar til grunnskólanám tekur við. Ég hef alltaf sagt að grunnskólinn þurfi að læra miklu meira af leikskólanum.

Það erum mýmargar hugmyndir að formast í kollinum á mér varðandi þetta þroskastig sem við sinnum svo ágætlega. Ég er menntunð í þessum fræðum, BA ritgerðin mín fjallaði um ,,Children´s theory of belief?. Þýðing þessa titils er aðeins flóknari en virðist í fyrstu en ritgerðin fjallar um þá þroskabreytingu sem á sér stað um 3-5 ára aldur þegar börn fara að átta sig á því að aðrir gætu haft ólíkar skoðanir eða þekkingu á þeirra reynslu eða umhverfi. Þetta á til dæmis við breytingu heilans sem endurspeglast þegar börn sjá að hús hafa ekki líf eða augu og raunveruleikinn verður miklu hólfaðri en í ímyndun þeirra. Í M.Ed. náminu mínu vann ég svo með prófessor Meltzoff sem er víðfrægur prófessor í ungbarnafræðum. Hann er þekktastur fyrir að eiga mynd af sér í hverri einustu almennri sálfræðibók sem kennd er um þroska barna. Myndin er af honum að ulla á nýfætt barn en hann er einmitt þekktur fyrir hversu mikið er lært og hversu mikið er meðfætt hjá ungabörnum. (Hann sannaði semsagt að börn geta hermt eftir manni 40 tíma gömul. Þessi staðreynd fellur undir kenningar hans um að hermun sé meðfædd).

Í borginni er ég að auki aðalmaður í umhverfisnefnd sem mun fljótlega fá heitið samgöngu- og umhverfisnefnd, formaður hverfisráðs Háaleitis, og er fulltrúi Reykjavíkurborgar í stjórn Strætó. Ég hlakka til að byrja og fæ vonandi skrifstofu í dag við Tjarnargötuna.

Ráðhúsið

Það tók smá tíma að jafna sig eftir kosningar. Vinnan beið og mörg verkefni sem höfðu setið á hakanum. Nú glittir hins vegar í að sjálfstæðismenn fái lyklana af ráðhúsinu og Vilhjálmur skipti um skrifstofu. Þetta hefur verið fjarlægur draumur í langan tíma og ég held að margir átti sig ekki á því að loksins getum við farið að breyta og bæta út frá hugmyndum sjálfstæðismanna. Á þriðjudaginn verður borgarstjórnarfundur þar sem skipað verður í nefndir og ráð borgarinnar. Þriðjudagurinn 13. júní verður því sögulegur þriðjudagur í mínu lífi að minnsta kosti.

Ég þekki ekki til Björns Inga og hlakka til að kynnast honum. Það verður ansi lágur meðalaldur (rétt tæplega 40 ár) í borgarstjórnarflokksmeirihlutanum og líklega koma með okkur nýjar hefðir og ný vinnubrögð. Ég hlakka til að taka til hendinni og koma hugmyndum okkar í framkvæmd. Það er kominn tími til.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband