Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Grein af Mbl: Tími til að leyfa fagfólki að blómstra

Fjölskyldustefna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík tekur á málefnum skólabarna á heildstæðan hátt. Fyrst og síðast er horft út frá þörfum reykvískra nemenda. Til að ná fram sem bestum upplýsingum um þarfir líðan nemenda þarf að huga sérstaklega að skoðunum foreldra og kennara með það að leiðarljósi að búa til enn betra skólakerfi. Fjölskyldustefna Sjálfstæðisflokksins tekur mið af mörgum þeim kröfum sem heyrst hafa hjá þessum mikilvægu hagsmunaaðilum barna.


Foreldrar óska eftir nánara samstarfi við grunnskólann og sérstaklega við bekkjarkennara barna sinna. Upplýsingar um líðan og árangur í skólanum skipta þá höfuðmáli. Betri upplýsingar til foreldra geta krafist viðbótar framlags af kennurum. Viðbótarframlag foreldra í skamskiptum við skólana getur orðið til þess að börnum gengur betur að fóta sig í námi og starfi. Gott samstarf foreldra og kennara hefur bein áhrif á líðan barna. Við viljum efla foreldrastarf með því að gefa skólum og nærþjónustu úr hverfum meira frelsi til að byggja upp markviss tengsl milli heimila og skóla á sínum forsendum.


Kennarar hafast við á ólíkan hátt og kenna á ólíkum hugmyndafræðilegum grunni. Þeir vilja sveigjanleika í starfi og umhverfi til þess að njóta sín sem best og á sínum faglegu forsendum. Skólar eiga að vera fjölbreyttir og hafa ólíkar hugmyndafræðilegar stefnur til að mynda það andrúmsloft sem hentar hverjum skóla fyrir sig. Það eru óteljandi aðferðir til að nálgast sömu markmiðin í leik, uppeldi og námi. Við viljum leyfa kennurum að njóta þess að kenna miðað við sína styrkleika með því að minnka miðstýrða stjórnun og styrkja endurmenntun í fagkennslu fremur en kennsluaðferðum.


Stefnumótandi aðilar um skólastarf eiga að stefna að minni miðstýringu. Skólastjórnendur og kennarar þurfa að fá meira sveigjanleika til að stýra skólum sínum að settum markmiðum enda menntaðir vel til starfsins. Kennarinn er fagmaðurinn um kennslu barna og aðhlynningu þeirra á skólatíma og leiðtogi starfsins í nemendahópnum. Foreldrar, nemendur, stjórnendur og ýmsir aðrir hagsmunaaðilar og þjónustuaðilar skólans eru hluti af liði kennarans. Huga þarf að upplýsingastreymi milli allra þessara aðila til að barninu líði sem best og eigi ánægjulegan vinnudag í skólanum. Við viljum hvetja til þessara vinnubragða í átt að fjölbreytileika, árangurs og gæða með sérstökum skólasamningum sem veita skólastjórnendum og kennurum meiri sveigjanleika og frelsi um skipulag, hugmyndafræði, skólanámskrá, fjármuni og faglega stjórn.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband