Bloggfærslur mánaðarins, mars 2006

Blair í bobba

Jón Baldvin Hannibalsson var ansi kindarlegur þegar Egill Helgason spurði hann um sl. helgi hvort að hugmyndafræði Alþýðuflokksins væri ekki liðin undir lok. Egill vísaði í Tony Blair sér til stuðnings og nefndi þau miðju og hægri mál sem hann hefur ýtt úr farvegi. Jón vildi nú ekki tengja sína hugmyndafræði eða Samfylkingarinnar við Blair og gaf til kynna að hann væri ekki raunverulegur jafnaðarmaður. Ingibjörg Sólrún og Össur hafa hins vegar oft vísað í þennan slungna stjórnmálamanns sem fulltrúa jafnaðarmennskunnar,

Í valdatíð Tony Blair (sem hófst 1997) hefur Blair leyft kröftum einkaframtaksins að njóta sín í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu þegar hann á sama tíma innheimtir meiri gjöld fyrir þjónustuna. Þessi tvö mál hafa aldrei verið á dagskrá vinstri flokka á Íslandi. Hann hefur að auki þurft að afsaka sig fyrir þjóðinni að hafa óafvitandi blekkt almenning þegar ráðist var inn í Írak og tekið rangar ákvarðanir í því ferli öllu. Samfylkingin hefur fordæmt innrásina í Írak!

Í gær átti Tony erfiðan dag. Umbótaáætlunin hans í menntamálum var samþykkt í dag með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Áætlun Blairs er að veita skólum aukið sjálfræði til að efla skóla landsins. 52 samflokksmenn Blair greiddu atkvæði gegn þessum áætlunum því þeir töldu þessar aðgerðir búa til tvöfalt menntakerfi í landinu. Þó að segja megi að Blair hafi fengið meginefni áætlunarinnar í gegn er ljóst að breytingarnar eru það margar að umbæturnar eru ekki fugl eða fiskur lengur. Til dæmis er búið er að henda út ákvæði sem leyfði skólum að búa til inntökunefndir á grundvelli árangurs eða viðtala til að velja inn í skólana.

Þessi niðurstaða hlýtur að vera neikvæð fyrir Blair sem í enn eitt skipti er harðlega gagnrýndur af mörgum í Verkamannaflokknum. Þó eru aðrir sem segja þetta aðeins vera eitt lítið verkefni af svo mörgum að þetta falli fljótt í skuggann á öllum þeim góðu málum sem Blair hefur sannarlega komið í gegn í þinginu. Það breytir því þó ekki að nú sem áður bíða margir eftir því að hann víki því það er töluverður tími síðan að hann gaf út þau skilaboð að hann myndi ekki leiða Verkamannaflokkinn í næstu kosningum. Blair er því fljótlega á leið úr pólitík. Samfylkingin þarf þá á ný að stilla sig saman við nýjan leiðtoga Verkamannaflokksins.

Fóstureyðingar og Bandaríkin

Ég bara trúði ekki mínum eigin eyrum í gærmorgun þegar ég lá mjög syfjuð uppi í rúmi og hlustaði á Björn Malmquist segja frá afleiðingum nýrra laga gegn fóstureyðingum í Suður-Dakota sem taka gildi í sumar. Það hefði eðlilega verið hægt að segja, ,,æ þessir suðurríkjamenn þarna í Bandaríkjunum" og þrýsta á snooze takkann. En Björn hélt áfram að segja frá umræðunni í Bandaríkjum á skýran og skilmerkilegan hátt og sagði að tilgangur laganna væri lögsóknir svo að hnekkja mættir Roe vs. Wade dómnum sem að mínu mati er einn sögulegasti hæstaréttardómur Bandaríkjanna.

Sá dómur varð til þess að konur áttu rétt á fóstureyðingum og þessi dómur hefur haldið í 33 ár. Ríkisstjórinn sagði þegar hann skrifaði undir að þau væru bein árás á úrskurðinn um Roe vs. Wade. Bendi á heita umræðu á vefritinu www.tikin.is um ummæli ungra frjálshyggjumanna í tilefni þessa máls. Ef málaferli er það sem stuðningsmennirnir biðja um er þetta einhver leikflétta sem tengist breytingum í hæstarétti Bandaríkjanna undanfarið ár. Bush hefur skipað John Roberts sem Chief Justices og núna í janúar Samuel Alito sem Associate Justices. Þetta verður verulega heitt og umdeilt mál og alls ekki ljóst hvorum flokki þetta mál hjálpar yfirleitt.

Þeir sem hafa búið í Bandaríkjunum vita að það er ótrúlegur munur á þankagangi eftir búsetu eins og kemur svo vel fram eftir kosningabaráttur um forsetastólinn. Eins og sést á þessu korti eru rauðu fylkin (Repúblikanar) með afgerandi aðra landfræðilega stöðu en þau bláu (Demókratar). Þetta breytist ekkert strax og þeir sem halda að Hillary Clinton sigri næstu kosningar ættu að liggja aðeins yfir þessu korti. Á meðan að kortið er svona rautt er líklegt að umræðan um fóstureyðingar verði á jafnmiklum villigötum og hún er í Bandaríkjunum í dag.

Breytingar á ríkisstjórn

Nú þegar þjóðin hefur melt þessi ráðherraskipti eru fjórar spurningar sem sitja eftir að mínu mati.

  1. Er þetta breytingin á ríkisstjórn sem að Halldór boðaði þegar hann tók við forsætisráðherrastólnum 2004?
  2. Er glundroðinn í Framsóknarflokknum það mikill að Árni Magnússon yfirgefur sviðið áður en það brotnar?
  3. Er viturlegt fyrir Framsóknarflokkinn sem missti frá sér framtíðargæðing í dag að skipta um í heilbrigðisráðuneytinu sem er heitasti málaflokkurinn í dag. Siv er óneitanlega mjög kokhraust og sagði hér ?Ég er að taka við mjög góðu búi hjá Jóni Kristjánssyni. Ég er full tilhlökkunar og veit að þetta mun takast mjög vel til hjá okkur?. [Myndir af blómasendingum til Sivjar og umfjöllun Össurar um starfshætti Sivjar í þessu samhengi eru skemmtilegar. ]
  4. Er álagið á ráðherrum og stjórnmálamönnum orðið of mikið samanber brotthvarf þó nokkuð margra yngri stjórnmálamanna á undanförnum árum (Árni Magnússon, Bryndís Hlöðversdóttir, Ásdís Halla Bragadóttir) eða er spennandi hluti stjórnmálanna horfinn til viðskiptalífsins?

Ef að bleiku skæruliðarnir eru samkvæmir sjálfum sér hljóta þeir að fagna þessum breytingum á ríkisstjórn Íslands. Líklega heyrist þó ekkert frá þeim í þetta sinn þar sem fagna ætti fleiri konum í ríkisstjórn sem Samfylkingin stendur ekki að. Ekki frekar en að feministar hafi sagt neitt þegar Samfylkingin hafnaði konu í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningar í nýliðnum mánuði.

Það er í raun alveg magnað hvernig fjölmiðlar kynna Feministafélag Íslands sem ópólitískt félag. Af hverju ætli félagið hafi farið í spurningakönnun og kynningu á frambjóðendum Samfylkingarinnar í miðju prófkjöri? Sérstaklega ber að lesa eftirfarandi fullyrðingu vel og vandlega sem finnst á vefsíðu feministafélagsins. Bendi lesendum á að orðið feministi þýðir jafnréttissinni en er ekki lýsandi fyrir aðferðir þær sem notaðar eru til að ná jafnrétti.


Jafnrétti er ekki bara að jafna höfðatölu kvenna og karla heldur að taka tillit til sjónarmiða og veruleika beggja kynja, viðmiða þeirra og gilda, í allri ákvarðanatöku og stefnumótun. Einkavæðing, markaðsvæðing, útboðsstefna og hagræðingar eru t.d. þættir sem geta haft kynbundnar afleiðingar þótt þær virðist kynhlutlausar á yfirborðinu. Oft eru lægstu störfin boðin út fyrst (ræsting, þvottar), gjarna með kynbundnum afleiðingum. Þá geta markaðsvæðing eða hlutafélagavæðing borgarfyrirtækja gert erfiðara að fylgjast með launum kynjanna og bregðast við honum. Hver er þín afstaða í þessum málum í rekstri borgarinnar?


Strætó fyrir hverja?

Við hjónin eigum einn 10 ára strák sem er farinn að flakka um borgina til að heimsækja vini og vandamenn. Í gær hjólaði hann til vinar síns í Laugardalnum í ótrúlegum umferðarþunga og svifryki yfir hættumörkum sem fræðingar segja að stytti líf manns um 60 daga.

Og er þetta ekki eðlilegt? Jú, líklega en mér finnst þetta ekki besta leiðin fyrir hann að ferðast. Ég vil að Strætó (www.bus.is) sé notaður á dögum eins og þessum, þegar það er kalt og skítugt. Ég vil að Strætó virki sérstaklega vel fyrir þarfir þeirra sem ekki geta keyrt, þ.e. yngri og eldri Reykvíkinga.

Gott og vel. Kíkjum á heimasíðu Strætó og skoðum hvernig hann kemst í Laugardalinn. Fyrsta tillagan er hér að neðan, 28 mínútur, 2 vagnar, skipti á Hlemmi og samtals tæplega 300 m. ganga. Algjörlega furðulegur ferðamáti. Það tekur minni tíma fyrir mig að skutlast heim úr miðbænum og koma honum í Laugardalinn og fara aftur í vinnuna. Þetta getur ekki verið.

Skoðum þetta nánar, hann hlýtur að geta farið án þess að skipta um vagn og fara niður á Hlemm.

Önnur tillagan er líka hér að neðan, en hún er valin af korti eftir stærri götum en áður. Til þess að finna þetta notaði ég mjög flott kerfi á heimasíðunni, í raun flottara en leiðakerfið sjálft. Þessi leið gerir ráð fyrir að sonur minn gangi rúmlega 700 metra til og frá stoppistöðvum (að lágmarki). Hann þarf t.d. að ganga frá Bústaðakirkju og næstum að Borgarspítla á þessa stoppistöð.

Þessi leið gæti vel gengið (og ekki þarf 10 ára barn að kvarta yfir hreyfingunni sem af þessu hlýst) en þegar skoðað er hversu lítið þétt þetta strætisvagnanet er eftir mörg hundruð milljóna króna breytingar verður maður ansi pirraður útsvarsgreiðandi. Og í þokkabót er komið fargjald fyrir ungmenni (12-18 ára). Hefði ekki verið betra að þétta betur grindina í Reykjavík en að setja allt fjármagn Reykjavíkur í uppbyggingu kerfisins í nágrannasveitarfélögunum?

Ljóst er að markmiðið með breyttu strætókerfi er að keyra alla niður í bæ. Ekki er gert ráð fyrir að fólk þurfi að fara mikið til vina og ættingja eða þá í vinnu í öðrum bæjarhlutum, nema jú þú búir niður í bæ. Þetta er kannski stefnan, að sem flestir búi niðri í bæ og vinni í úthverfum eða búi í úthverfum og vinni niðri í bæ.

Tillaga 1: Vagnar 11 og 14
28 mínútur
Kjalarland: Gengið 170 metra
Bústaðavegur 22:09 Leið 11
Hlemmur (bið 5 mínútur) 22:28 Leið 14
Sundlaugavegur v/Laugardalslaug 22:33 Gengið 90 metra að Laugalæk

Tillaga 2: Vagn 14
18 mínútur
Kjalarland gengið að Eyrarlandi 500 metrar
Bústaðavegur 15:59 Leið 14
Sundlaugavegur v/Laugardalslaug 16:15 Gengið að Laugalæk 150 metrar


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband