138 biðstöðvar fá nafn á næstunni

Þetta er eitt af grænu skrefum borgarinnar í átt að bættri þjónustu við notendur Strætó.   Ekki síst þykir mér þetta framtak vera gott fyrir foreldra sem vilja mögulega fara að kenna börnum sínum á borgina og hvernig vagnarnir virka.   Við verðum að átta okkur á því að borgin er orðin ansi stór og að sama skapi eru kennileiti í borginni mörg.   Við eigum að nota þau í miklu meira mæli.  Það var skemmtilegt að taka þátt í að keyra um borgina og finna nöfn á öll þessi skýli.   Það er ýmislegt augljóst við nafngiftina (t.d. að Vonarstræti heiti Ráðhús) en annað vekur kannski upp spurningar fyrir suma (Gamla sjónvarpshúsið). 

Því miður verður ekki hægt að nefna allar biðstöðvar með skiltum í borginni fyrr en skýlin endurnýjast en smátt og smátt verður hægt að nefna flest skýli.   Þessi 138 eru þau skýli sem eru á fjölförnustu vegunum og sjást vel.  Á þau mun líka koma nafn á hlið skýlis auk þess sem að númer þeirra vagna sem stöðvast við þetta skýli verður líka við hlið nafnsins á skýlinu.

19. ágúst hefst vetrarleiðakerfi Strætó bs.   Þá verða komnar tímatöflur í öll skýli sem eru lík þeim sem sjá má erlendis og gefa upplýsingar um hvenær vagninn er á þeirri stöð sem viðkomandi er á.   Hingað til hafa notendur leið 18 á Bústaðavegi þurft að áætla komu vagnsins út frá t.d. Mjódd og Borgarsspítala en nú mun á stoppistöðinni Grímsbær standa hvenær vagninn á að mæta á stoppistöðina Grímsbæ.

Nú líður líka að því að frítt í strætó verkefnið okkar hefjist.  Framhaldsskólanemar og háskólanemar í Reykjavík og vonandi í nágrannasveitarfélögunum fá frítt í Strætó í vetur.   Það verður gaman að sjá viðbrögð samfélagsins.  Mikilvægt er að á sama tíma taki skólar og stofnanir sig til og skoða hjá sér hvort þær geti ekki lagt sitt af mörkum, t.d. með gerð samgöngustefnu fyrir fyrirtækið eða með því að setja gjaldskyldu á stæðin sín.   Það kostar fyrirtæki miklu meira að halda úti stæðum fyrir starfsfólk heldur en að styrkja það með strætókorti og ákveðnum fjölda leigubílaferða.


mbl.is Fyrsta strætóstöðin nefnd „Verzló"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Fyrirmyndar framtak en vitanlega þarf að vanda valið á heitunum - kannski mætti setja þau á netið í smátíma áður en ákvörðun er tekin og fá athugasemdir - eða bara í strætó á viðkomandi leið? Tók eftir þessu með setuna í Verzló og fannst undarlegt, en ég er smeykur um að nútímafólki þætti líklegra að biðstöðin Undraland væri við Bústaðaveg. Mér finnst Gamla sjónvarpshúsið gott heiti á biðstöð. Notaði strætó mikið þegar ég bjó í Rvík og nota vagnana oft á ferðum mínum til borgarinnar.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 24.7.2007 kl. 19:39

2 identicon

Þetta er gott framtak og kemur sér einkum vel þegar þarf að segja ókunnugum til vegar. Verður tilkynnt í vögnunum hvaða stoppistöð er næst?

Fyrir okkur sem notum strætó daglega skiptir hins vegar aukin ferðatíðni langmestu máli. Það er alveg ótækt að hafa bara tvo vagna á klukkustund og þurfa þannig að bíða allt að hálftíma eftir tengivagni.

Finnbogi Óskarsson (IP-tala skráð) 25.7.2007 kl. 06:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband