Að loknum kosningum

Það eru miklar breytingar í vændum þegar svona margir nýir þingmenn koma til starfa.   Það er vonandi að á Alþingi verði nýtt fólk til þess að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem þar fer fram og almenningur öðlist aukið traust á þingstörfum í kjölfarið. 

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir eru sigurvegarar alþingiskosninga 2007.  Geir H. Haarde hefur náð á stuttum tíma að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins síðan að ríkisstjórnin lenti í miklum hremmingum vegna forystuvanda Framsóknarflokksins.   Hann hefur traust Íslendinga og mun leiða áfram næstu ríkisstjórn.   Ég trúi því að fljótlega verði ljóst hvernig ný ríkisstjórn verður skipuð og hugsuð.  Mikilvægast er að málefni Sjálfstæðismanna, sem mörg hafa ekki fengið brautargengi enn, liggi til grundvallar í viðræðu.  Sjálfstæðisflokkurinn er í góðri samningsstöðu og á að nýta hana til að ná fram breytingum á velferðarkerfinu okkar og landbúnaðarkerfinu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins er án efa einstakur sigurvegari þessara kosninga.   Hún fékk mikinn stuðning í prófkjöri og á listanum er mikið af nýju og öflugu fólki.  42,6% fylgi í kosningunum sýnir að haldið hefur verið vel á spöðunum í Suðvestur kjördæmi þrátt fyrir gríðarlega fólksfjölgun á undanförnum fjórum árum.   Að mínu mati hefur menntamálaráðherra styrkt sig verulega og á tilkall til áhrifamikilla embætta í nýrri ríkisstjórn. 

Framsóknarflokkurinn tapar stórt og margir hafa greint ástæðurnar í dag í fjölmörgum fréttaþáttum og spjallþáttum.  Að mínu mati eru án efa mjög margir þættir að hafa áhrif og atburðarrás sem Framsóknarmenn sjálfir þurfa að greina sjálfir.   Hins vegar tel ég að í grunninn þurfi að byggja upp innra starfið og málefnalega vinnu til að styðja við þá valdamiklu menn og konur sem hafa verið að sinna störfum fyrir samfélagið á þingi og í bæjarstjórnum.   Afleiðing takmarkaðs baklands í innra starfi eru skammtímalausnir og óstjórn á málaflokkum.  Það er óþolandi þegar sagt er að Framsókn sé í sárum vegna samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.  Ég get ekki betur séð að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í mörgum málum þurft að gefa mjög eftir vegna afstöðu Framsóknarflokksins í hinum ýmsu málum.   Til að mynda í landbúnaðarmálum, félagsmálum og heilbrigðismálum.  Ekki myndi neinn hlusta á svona afsakanir ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði misst fylgi nú.

Rúsínan í pylsuendanum var að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi auka svona fjölda kvenna á þingi í þessum kosningum.   Nú eru 8 konur á þingi fyrir flokkinn, þrátt fyrir að Sólveig og Sigríður Anna hafi hætt störfum.  Sjálfstæðisflokkurinn bætti stöðu sína á meðan að konum fækkar um 3 hjá Samfylkingu.  

Að lokum óska ég öllum þessum nýju þingmönnum til hamingju með nýtt starf og þakka öllum þeim Sjálfstæðismönnum óbilandi áhuga og óþrjótandi kraft í þessari baráttu eins og öðrum.


mbl.is 24 nýir þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband