Strætó fyrir hverja?

Við hjónin eigum einn 10 ára strák sem er farinn að flakka um borgina til að heimsækja vini og vandamenn. Í gær hjólaði hann til vinar síns í Laugardalnum í ótrúlegum umferðarþunga og svifryki yfir hættumörkum sem fræðingar segja að stytti líf manns um 60 daga.

Og er þetta ekki eðlilegt? Jú, líklega en mér finnst þetta ekki besta leiðin fyrir hann að ferðast. Ég vil að Strætó (www.bus.is) sé notaður á dögum eins og þessum, þegar það er kalt og skítugt. Ég vil að Strætó virki sérstaklega vel fyrir þarfir þeirra sem ekki geta keyrt, þ.e. yngri og eldri Reykvíkinga.

Gott og vel. Kíkjum á heimasíðu Strætó og skoðum hvernig hann kemst í Laugardalinn. Fyrsta tillagan er hér að neðan, 28 mínútur, 2 vagnar, skipti á Hlemmi og samtals tæplega 300 m. ganga. Algjörlega furðulegur ferðamáti. Það tekur minni tíma fyrir mig að skutlast heim úr miðbænum og koma honum í Laugardalinn og fara aftur í vinnuna. Þetta getur ekki verið.

Skoðum þetta nánar, hann hlýtur að geta farið án þess að skipta um vagn og fara niður á Hlemm.

Önnur tillagan er líka hér að neðan, en hún er valin af korti eftir stærri götum en áður. Til þess að finna þetta notaði ég mjög flott kerfi á heimasíðunni, í raun flottara en leiðakerfið sjálft. Þessi leið gerir ráð fyrir að sonur minn gangi rúmlega 700 metra til og frá stoppistöðvum (að lágmarki). Hann þarf t.d. að ganga frá Bústaðakirkju og næstum að Borgarspítla á þessa stoppistöð.

Þessi leið gæti vel gengið (og ekki þarf 10 ára barn að kvarta yfir hreyfingunni sem af þessu hlýst) en þegar skoðað er hversu lítið þétt þetta strætisvagnanet er eftir mörg hundruð milljóna króna breytingar verður maður ansi pirraður útsvarsgreiðandi. Og í þokkabót er komið fargjald fyrir ungmenni (12-18 ára). Hefði ekki verið betra að þétta betur grindina í Reykjavík en að setja allt fjármagn Reykjavíkur í uppbyggingu kerfisins í nágrannasveitarfélögunum?

Ljóst er að markmiðið með breyttu strætókerfi er að keyra alla niður í bæ. Ekki er gert ráð fyrir að fólk þurfi að fara mikið til vina og ættingja eða þá í vinnu í öðrum bæjarhlutum, nema jú þú búir niður í bæ. Þetta er kannski stefnan, að sem flestir búi niðri í bæ og vinni í úthverfum eða búi í úthverfum og vinni niðri í bæ.

Tillaga 1: Vagnar 11 og 14
28 mínútur
Kjalarland: Gengið 170 metra
Bústaðavegur 22:09 Leið 11
Hlemmur (bið 5 mínútur) 22:28 Leið 14
Sundlaugavegur v/Laugardalslaug 22:33 Gengið 90 metra að Laugalæk

Tillaga 2: Vagn 14
18 mínútur
Kjalarland gengið að Eyrarlandi 500 metrar
Bústaðavegur 15:59 Leið 14
Sundlaugavegur v/Laugardalslaug 16:15 Gengið að Laugalæk 150 metrar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband