Strætófargjöld

Í fjölmiðlum og á vettvangi umhverfisráðs borgarinnar hefur hækkun á fargjöldum Strætó bs. verið gagnrýnd. Ekkert hefur verið sagt um þá mikilvægu stefnubreytingu og lækkun sem átti sér stað á sama tíma sem felst í því að nú borga börn undir 16 ára aldri aðeins 100 kr. staðgreitt í vagnana. Í þessari aðgerð eru þrjú markmið, í fyrsta lagi að lækka svokallað ungmennagjald um 60%, í öðru lagi að einfalda gjaldskrá þannig að öll börn þurfi aðeins að greiða einn pening og í þriðja lagi sem grundvöllur markvissrar kynningar á nýju leiðakerfi á einfaldan hátt.

Ég skil vel að þeir sem tala fyrir því að frítt eigi að vera í Strætó séu ósáttir en það er hins vegar umræða sem verður að fara fram á ábyrgan hátt því rúmlega 800 milljónir af tekjum Strætó bs. koma frá fargjöldum. Ef að Strætó bs. ætti að gefa frítt í Strætó þarf töluvert hærri framlög frá sveitarfélögunum og þar með hærri skattheimtu. Miðað við síðustu fjárhagsáætlun er alveg skýrt að það er ekki til umræðu í neinu af þeim 7 sveitarfélögum sem eiga aðild að félaginu. Á meðan svo er og engar ákvarðanir teknar um annað fylgja strætófargjöld verðlagsþróun eins og allt annað. Benda má á að verðlag þeirra þátta er tengjast rekstri Strætó og bifreiða hafa hækkað mun meira en annað auk þess sem olíugjald leggst á fyrirtækið nú en ekki áður.

Það er mikilvægt í þessu samhengi að minna á að skólakort í Strætó bs. (sem dugar allan veturinn og er fyrir alla, ekki bara skólafólk) er jafndýrt og rekstur eins bíls í einn mánuð. Staðgreiðslufargjald í Strætó er jafnhátt gjald og tekið er fyrir einn cafe latte á kaffihúsum borgarinnar og Græna kortið (mánaðarkort) fyrir þann sem notar strætó daglega til og frá vinnu er sambærilegt í staðgreiðsluverði fyrir eina ferð sem nemur 112 kr.

Hér fylgir bókun Framsóknarmanna og Sjálfstæðsimanna í umhverfisráði sl. mánudag:

?Ný gjaldskrá tók gildi hjá Strætó mánudaginn 22. janúar 2007. Breytingin endurspeglar verðlagshækkanir sl. árs sem og spár um hækkanir á þessu ári sem koma að miklu leyti til vegna hækkana olíuverðs. Veruleg breyting verður á fargjöldum ungmenna frá 12 til 18 ára aldurs. Hingað til hafa 12 ? 18 ára ungmenni þurft að greiða 250 krónur fyrir stakt gjald en með tilkomu staðgreiðslufargjalds barna og ungmenna greiða þau nú aðeins 100 krónur fyrir farið, sem er 60% lækkun. Þessi breyting mun vonandi hafa þau áhrif að fleiri ungmenni nýti sér almenningssamgöngur og kynnist nýju og mikið breyttu leiðakerfi. Flestir viðskiptavina Strætó notfæra sér afsláttarkjör í formi miða og korta. Engin breyting verður á verði fargjaldakorts barna frá 6 til 11 ára aldri sem greiða sem fyrr 37,50 krónur fyrir farið. Þótt það sé alltaf vont að þurfa að hækka fargjöld í strætó, sýna kannanir erlendis frá að lítil fylgni sé milli þess hvað kostar í almenningssamgöngur og hversu margir nota þær. Miklu meiru ræður sú þjónusta sem veitt er og það viðmót sem notendur fá. Það er skýrt markmið meirihlutans í Reykjavík að bæta þjónustu strætó með öllum mögulegum aðgerðum. ?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og sextán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband