Framhaldsskólinn til sveitarfélaga ?

Ég er búin að vera að hugleiða þessa stefnu Samfylkingarinnar um að flytja framhaldsskólann til sveitarfélaganna. Að vísu bjóst ég við að Dagur myndi setja þetta í stefnuskrá sína sem var kynnt á síðasta vetrardegi en þar kom lítið nýtt fram. En þessi hugmynd á eftir að skjótast aftur upp í umræðum hjá honum og Stefáni Jóni og Björgvini og fleirum á næstu vikum.

Það er tvennt sem Samfylkingarfólk grundvallar skoðun sína á. Annars vegar að grunnskólinn sé svo frábær og hafi orðið mun betri eftir flutninginn til sveitarfélaga. Hins vegar að brottfall sé svo mikið í framhaldsskólunum og það sé svo af því að ríkið reki framhaldsskólana. Báðar þessar rökfærslur eru nokkuð sannfærandi við fyrstu sýn en þurfa ítarlegri skoðun.

Grunnskólinn hefur nú verið hjá sveitarfélögunum í 10 ár. Það er alveg ljóst að hann hefur eflst og nærþjónusta og tengsl heimila og skóla batnað til muna. En er grunnskólinn betri? Við vitum að hann er dýrari, og svo dýr að við erum með dýrasta grunnskólakerfi OECD landanna. Því er vert að spyrja, hafa gæðin fylgt með þessu aukna fjárframlagi? Þetta er voða vond spurning finnst vinstra fólkinu en hún er afar eðlileg. Hærri framlög til menntamála eru ekki góð nema þau skili sér í betri menntun. Það er enginn sem hefur getað sýnt fram á að menntunin sé betri er það. Það er kjarni málsins, það verður að meta hvort gæðin hafi aukist við flutninginn. Við höfum séð í alþjóðlegum könnunum (PISA) að íslenskir nemendur standa sig ágætlega, en við höfum ekki séð marktækan mun á árangri frá fyrri könnunum. Skoðum þetta nú betur áður en við fullyrðum að grunnskólinn hafi lagast við flutninginn.

Brottfall í framhaldsskólum er mál sem við Íslendingar höfum alltaf verið að kljást við. Brottfall er fyrirbæri sem ekki er hægt að skýra með einni ástæðu heldur er ástæða brottfalls nemenda mjög fjölbreytt. Persónulegar ástæður, námsleiði, fæðingarorlof, vinnutækfæri og ferðalög eru til dæmis allt áhrifaþættir á brottfall.

Brottfall á framhaldsskólastigi er óvíða jafnmikið í Evrópu og hér á landi. Íslendingar eru þar í hópi með Spánverjum, Portúgölum og Maltverjum. Það sem Íslendingar virðist helst eiga sameiginlegt með þessum Suður- Evrópuþjóðum er atvinnuþátttaka ungs fólks. Í nýlegri skýrslu sem var farið yfir þessi mál og Evrópuþjóðir bornar saman. Sérstaklega var skoðað hvað einkennir þau ungmenni sem hætta snemma í námi, hvernig þeim vegnar á vinnumarkaðnum og hvaða möguleika þau hafa á því að snúa aftur í skóla síðar. Sérstaða Íslands virðist einkum felast í miklum atvinnumöguleikum og þátttöku ungs fólks í atvinnulífinu og að hvergi í Evrópu séu atvinnumöguleikar ungs fólks meiri en hér. Auk þess eru atvinnumöguleikar íslenskra ungmenna sem hafa lágmarksmenntun og hætta snemma í námi ekki síðri en þeirra sem ljúka framhaldsskólanámi. Opinn vinnumarkaður hér á landi virðist vera að soga til sín ódýrt vinnuafl úr framhaldsskólunum. Í Ungt fólk 2004 skýrslunni má t.d. sjá að 54% stúlkna og 36% pilta stunda atvinnu samhliða námi. Um 36% stúlkna og tæplega 30% pilta vinna 10 klukkustundir eða meira á viku.

Ráðuneyti eða sveitarfélög standa frammi fyrir sama vanda að þessu leyti. Það er erfitt að segja að það sé mjög neikvætt að atvinnumarkaður á Íslandi sé svona opinn eða að það sé neikvætt að skólakerfið sé svo sveigjanlegt og opið að nemendur geta flakkað úr vinnu og í skóla án mikillar fyrirhafnar. Brottfall sem ástæða flutnings framhaldsskólans til sveitarfélaga eru því ekki góð ástæða nema að takmörkuðu leyti.

Aðrir þættir þurfa einnig að koma til álita í þessu samhengi. Framhaldsskólastiginu er ekki skipt upp í skólahverfi og því er landið allt eitt skólasvæði. Nemendur hafa þannig aðgang að hvaða skóla sem þau óska eftir. Þetta þarf að hafa í huga því að það eru 79 sveitarfélög en aðeins 31 framhaldsskóli. Að mínu mati býður þetta upp á misrétti við lítil sveitarfélög því eðlilegt er að framhaldsskóli sem rekinn er af sveitarfélagi forgangsraði sínum nemendum inn í skóla í sínu sveitarfélagi. Annað er ólíklegt þar sem að aldrei verður sátt um að forgangsraða í skóla eingöngu út frá hæfnismati skv. lögum eða reglugerðum.

Möguleikar lítilla skóla á fjölbreyttu námi eru miklu takmarkaðri en stærri skólanna bæði vegna hóp- eða bekkjastærða og búnaðar sem þarf til starfsnáms, einkum hins tæknivædda náms sem sívaxandi kröfur eru um. Það þarf að hafa í huga að ógerningur er að bjóða upp á 84 starfsnámsbrautir í öllum sveitarfélögum. Erfitt er að sjá hvernig einstakir heimaskólar næðu að standa undir þeim kröfum um fjölbreytt nám sem er á höndum framhaldsskólans. Eins og skipan sveitarfélaga er háttað nú er ljóst að mörg þeirra eru of smá til að þau geti annast rekstur framhaldsskóla.

Þrátt fyrir alla þessa varnagla tel ég að sveitarfélög geti verið leiðandi í málefnum framhaldsskóla og þannig er málum háttað í minni bæjarfélögum. Stærri bæjarfélög, og helst Reykjavík hefur minna frumkvæði um skipulag mála framhaldsskólans, líklega vegna fjölda skóla í borginni. Reykjavík getur haft miklu meira frumkvæði og unnið í meira samstarfi við ríkið í þessum málum sem öðrum. Ég held að það þurfi ekki mikið annað en samstarfsvilja til að hafa áhrif á betra kerfi. Leiðarljósið á að vera á öflugt, fjölbreytt og dýnamískt skólakerfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fimm?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband