Tækifærin sem enginn velur að sjá

Steinar Ólafsson skrifaði grein á Hugsjónir.is 27. mars sl. um áætlanir ríkisstjórnarinnar um að breytta námsskipan til stúdentsprófs. Ég get ekki setið hljóð hjá þegar hægri menn, félagar mínir, skrifa með þessum hætti. Mér þykir miður þegar að einstaklingar skrifa greinar án þess að kynna sér málin að minnsta kosti að einhverju leyti. Ég geri því hér tilraun til að upplýsa og leiðrétta félaga mína á þessu fína vefriti.

Sú grunnhugmyndafræði sem við hægri menn aðhyllumst er lögð til grundvallar í öllum verkefnum í menntamálaráðuneytinu undir styrkri stjórn ráðherrans, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Leiðarljós allra verkefna eru hugtökin valfrelsi, einkarekstur, fjölbreytni, árangur og sjálfstæðir skólar. Það er algjör firra að tala um forræðishyggju, ríkisrekstur og einsleitni þegar rætt er um verkefni menntamálaráðherra.

Ákvörðun um breytta námsskipan til stúdentsprófs á sér 10 ára aðdraganda. Nefnd um mótun menntastefnu lagði til 1994 að námsárum til stúdentsprófs yrði fækkað um eitt ár og árlegur kennslutími grunn- og framhaldsskóla lengdur. Nefndin taldi nauðsynlegt að lenging skólatíma grunnskólans yrði komin að fullu til framkvæmda og reynsla komin af nýrri aðalnámskrá (frá 1999) áður en að til styttingar kæmi. Í kjölfarið hafa margar skýrslur komið út og mikil umræða farið fram og mikið vatn runnið til sjávar. Næstum allir eru sammála um að nýta megi tímann betur í skólakerfinu. Nú sem fyrr er leitast við að nálgast verkefnið þannig að sjónarmið okkar hægri manna fái að njóta sín enda ráðuneytið búið að vera undir styrkri stjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1991.

Tíminn. Af hverju þarf að nýta tímann betur, eru nemendur ekki sveittir við nám í öllum skólum landsins alla daga? Jú, aukning skólatíma bæði í grunn- og framhaldsskóla sem lögð var til 1994 er nú komin til framkvæmda og hefur kennslustundum fjölgað um 2.310 í grunnskóla og í framhaldsskóla um 400 frá árinu 1994. Þessi fjölgun kennslustunda er staðreynd og flestir eins og sagði áðan sammála um að þétta þurfi kerfið, þ.e. færa kennsluefni til að nýta þann tíma sem kominn er inn í kerfið. Þessi fjölgun gerir okkur Íslendinga líka methafa í kennslustundum hjá OECD en alls ekki methafa hvað varðar gæði kerfisins.

Þá situr eftir spurningin um hvernig eigi að framkvæma verkefnið að breyta námstímanum. Það er eðilegt að skiptar skoðanir séu um aðferðina. Sumir segja styttum grunnskólann. Aðrir segja styttum framhaldsskólann. Enn aðrir segja búum til gamla landsprófið og röðum í bekki og flýtum þannig sumum en öðrum ekki. Allir hafa eitthvað til málana að leggja og hægt er að samþykkja rök í öllum tillögum. Margir fagmenn hafa komið að málinu undanfarin 10 ár og þegar fyrir lá að breyta námstíma til stúdentspróf úr 14 árum í 13 var ákveðið út frá sterkum rökum að betra væri að breyta framhaldsskólanum en grunnskólanum.

Nú veit ég ekki hvort ég hafi tapað lesendum frá skjánum við þessa tæknilegu útlistun en því miður er málið umfangsmikið og það tekur töluvert á að sýna fram á markmiðin í málinu. Ég vil þó núna víkja að fullyrðingum Steinars sem segir að Þorgerður Katrín sé að ráðskast með framhaldsskóla landsins. Ég bið hann um að byrja á því að kíkja á lög um framhaldsskóla, lög um grunnskóla, lög um framhaldsskóla og aðalnámskrár þessara skólastiga og hefja umræðuna þar. Sem alvöru frjálshyggjumaður ætti hann fyrst og fremst miðað við skoðanir hans í umræddri grein að leggja til að þessi lög öll verði lögð niður. Er það ekki alvöru frjálshyggja? Er það ekki alvöru einkavæðing á menntakerfinu? Engar námskrár til að breyta, engin skilyrði til að uppfylla, ,,back to basics?.

Ef hann er sammála mér um að gott menntakerfi sé allri þjóðinni til heilla og að hann vilji ekki að foreldrar hans borgi himinhá skólagjöld frá leikskóla að framhaldsskóla þá verður hann að vera sammála því að löggjafinn hlýtur að setja skólakerfinu einhvern ramma. Og þá, ef breytingar eiga sér stað, þarf að breyta rammanum. Ramminn hins vegar er eitthvað sem við, hægri menn, vinnum að jafnt og þétt að losa sem mest án þess að víkja frá gildum um jafnan rétt til náms. Einkarekstur er til staðar í framhaldsskólakerfinu, skólameistarar hafa mikinn sveigjanleika og reka skólana eins og fyrirtæki, samkeppni er mikil á milli framhaldsskóla og kennsluaðferðir og menning skólanna ólík. Í breyttri námsskipan til stúdentsprófs felast mörg frábær tækifæri til að losa áfram ramma, auka fjölbreytni og bjóða nemendum upp á meira val.

Og að lokum. Ef skólakerfið í heild sinni væri einkavætt þá væri fyrst tryggt, kæri Steinar að nám yrði stytt!

Birt á vefritinu www.hugsjonir.is í dag 30. mars.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og sautján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband