Norðlingaölduveita

Mér þætti gaman að vita hversu margir vita hvað Norðlingaölduveita er. Vita allir að ekki er um að ræða virkjun heldur veitu? Veita er í raun gerð til að bæta nýtingu núverandi virkjunar. Vel getur verið að allir kjörnir fulltrúar séu búnir að kynna sér málið vel en það sætir furðu hversu stóran hring Framsóknarflokkurinn hefur farið í þessu máli.

Mér finnst þetta mál lykta ansi mikið af pólitískri hræðslu og af tilfinningarökum en eins og Guðlaugur Þór sagði skipta þau rök máli. Málið er ekki hápólitískt nema helst hjá Vinstri-grænum. Mér finnst þó sérstaklega merkilegt að forseti borgarstjórnar, Alfreð Þorsteinsson og allir í R-listanum sáluga, skuli geta tekið þátt í bókun í borgarstjórn Reykjavíkur gegn Norðlingaölduveitu og hvatt Landsvirkjun til að fara út í gufuaflsvirkjunum. Mikilvægt er að nefna hér að OR hefur yfirráð yfir flestum ef ekki öllum gufuaflssvæðum á SV-horninu.

Minna þarf á að Orkuveita Reykjavíkur er í mikilli samkeppni við Landsvirkjun um orku til stórnotenda. Reykjavíkurborg sem á í báðum fyrirtækjum (45% í Landsvirkjun og 96% í OR) er því mjög hlutdræg í afstöðu sinni til þessa máls. Bein samkeppni er til að mynda um orkusölu til Alcan í Straumsvík til framtíðar og ef fallið er frá Norðlingaölduveitu er Orkuveitan í sterkari stöðu til að framleiða orku fyrir Alcan en Landsvirkjun. Það er líka sérstaklega áhugavert að ekkert má ræða málefni Orkuveitunnar í borgarstjórn þar sem það er ekki talið með í borgarsjóði en nú virðist vera hægt að álykta um Landsvirkjun þegar pólitískt landslag liggur svo.

Það er því mikilvægt að þegar borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna tekur til starfa sé hlutur borgarinnar í Landsvirkjun seldur fyrir gott verð hið allra fyrsta.

Hér eru svo upplýsingar um Norðlingaölduveitu:
Með Norðlingaölduveitu yrði vatni veitt úr Þjórsá við Norðlingaöldu um jarðgöng og skurði til Þórisvatns, sem er miðlunarlónið á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár. Með veitunni verður vatni dælt upp um ca. 24 m. Aukning orkuvinnslugetu Landsvirkjunar með tilkomu Norðlingaölduveitu er áætluð um 610 GWh/ári auk þess sem orkugeta Búðarhálsvirkjunar vex um 110 GWh/a eftir Norðlingaölduveitu (úr 545 í 655 GWh/ári). Norðlingaölduveita mun því auka orkugetu virkjana Landsvirkjunar um 720 GWh/ári að meðtöldum áhrifum hennar á Búðarhálsvirkjun.

Stofnkostnaður við byggingu Norðlingaölduveitu er áætlaður um 9.500 Mkr á verðlagi í janúar 2005, þar af er bókfærður áfallinn kostnaður um 630 Mkr. Áfallinn kostnaður fram til ársins 1996 hefur þegar verið afskrifaður en þar er um verulegar fjárhæðir að ræða, enda hófust rannsóknir á svæðinu á vegum Landsvirkjunar á árinu 1969. Athugað hefur verið hve mikið það myndi kosta Landsvirkjun að afla 720 GWh/ári með öðrum bhætti á Suðurlandi ef ekki yrði ráðist í Norðlingaölduveitu. Er þá horft til þeirra virkjunarkosta sem Landsvirkjun hefur heimildir fyrir eða líklegt er talið að heimildir fáist til. Um er að ræða virkjunarkosti í Tungnaá og Neðri-Þjórsá sem eru Búðarháls-, Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun. Stofnkostnaður við öflun 720 GWh/ári með þeim virkjunum er um 5.310 Mkr. meiri en með Norðlingaölduveitu. Auk þess þyrfti fyrirtækið væntanlega að afskrifa um 630 Mkr í þegar áfallinn undirbúningskostnað. Samtals eru þetta því um 5.940 Mkr sem myndu tapast fyrirtækinu. Auk þess sem áður er talið þá hefur Norðlingaölduveita jákvæð miðlunaráhrif á virkjanir í NeðriÞjórsá þar eð vatn frá veitunni fer í gegnum Þórisvatnsmiðlun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og þrettán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband