Yfirboð í prófkjörum

Við Sjálfstæðismenn höfum undanfarnar vikur verið mjög montin af frábæru prófkjöri í Reykjavík. Nú hefur hópurinn allur hist tvisvar sinnum og spennandi verkefnavinna framundan. Valhöll stendur alltaf eins og klettur á bak við frambjóðendur sína og ég fullyrði að sú þekking og sú reynsla sem býr í Valhöll er einstök á Íslandi og þó víðar væri leitað. Nú standa yfir tvær aðrar baráttur um sæti í borgarstjórn, í Framsóknarflokknum í Reykjavík og í Samfylkingunni í Reykjavík.

Framsóknarflokkurinn fer alltaf fram eins og þeir séu stærri flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn. Björn Ingi er með prófkjörsskrifstofuna mína (sem reyndis sérlega vel) og auglýsir í sjónvarpi, í blöðum, á flettiskiltum og á mbl.is. Manni finnst alveg ótrúlegt hvernig peningum er kastað út um allt í prófkjörum Framsóknar. Þeim er kannski vorkunn því félagaskráin er lítil og herja þarf á alla Reykvíkinga. Reyndar er það svo að mér skilst að Framsóknarmenn úr öðrum kjördæmum mega líka kjósa framboðslistann til borgarstjórnar í Reykjavík. Það er með undarlegasta móti en kemur líklega ekki á óvart frekar en annað hjá grænu hermönnunum.

Það sem verra er með frammarana að þeir yfirbjóða svo svakalega loforðin sín að flestum þykir nóg um. Nú þegar eru komin fram loforð frá frambjóðendum um frítt í strætó, heimgreiðslur til foreldra, gögn í gegnum Þskjuhlíð og ég veit ekki hvað. Þegar frambjóðendur í prófkjörum fara svona fram er voðinn vís í kosningunum sjálfum. Það er ekkert of langt síðan við sáum auglýsingarnar fyndnu um 90% húsnæðislánin. Og jú, þær virkuðu.

Ég er ekki í stjórnmálum til að kaupa mér atkvæði. Ég stend og fell með því. Ég held að Reykvíkingar séu það hugaðir að þeir horfi til ábyrgra einstaklinga sem kunna að fara með sitt fé og ekki síður annarra. Svona loforðaslagur sýnir manni að ekkert er heilagt þegar kemur að skattpeningum borgarbúa.

Þetta verður ekki búið í janúar þó prófkjör Framsóknar ljúki um mánaðarmót. Þá tekur nefnilega við slagurinn um forystu í Samfylkingunni. Það verður víst heldur betur gósentíð í loforðum, ég lofa því! Fylgist með http://www.tikin.is/ á næstunni þar sem gestapennar verða frambjóðendur í fyrsta sæti fyrir þessa tvo flokka.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband