Óheiðarleiki eða fáfræði? (grein Frbl.)

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í borgarstjórn liðka ekki fyrir lausnum í leikskólamálum. Grein mín um kerfisbreytingar á þjónustu leikskóla hefur fengið mikla umræðu og ýtt við hugmyndum að lausnum. Einu neikvæðu raddirnar hafa komið frá minnihlutanum en málflutningur þeirra lyktar af óskýrri hugmyndafræði og markmiðum um að færa umræðuna í pólitískt karp. Gagnrýnin einkennist af upphrópunum, sem væri ekki tiltökumál ef málflutningurinn væri ekki óheiðarlegur og misvísandi.

Aldrei hefur orðið einkavæðing verið notað í þessari umræðu nema af minnihlutanum. Vinstri menn virðast ekki geta skilið muninn á einkarekstri og einkavæðingu. Einkarekstur er þegar einstaklingar, félagasamtök eða fyrirtæki taka að sér rekstur að uppfylltum skilyrðum og kröfum um þjónustu fyrir opinberan aðila. Við einkavæðingu er rekstur seldur frá sveitarfélagi til einkaaðila. Tvennt gjörólíkt.

Oddný Sturludóttir vísar í minningar í menntó og að hugmyndir um einkavæðingu séu efni í skólaskemmtanir. Svona málflutningur dæmir sig sjálfur því ljóst er að borgarfulltrúinn er enn þá á skólaskemmtuninni. Skilur Oddný ekki muninn á einkarekstri og einkavæðingu? Svandís Svavarsdóttir talar um stéttaskiptingu ef bankar taka að sér rekstur leikskóla. Hvaða stéttaskipting er í bönkum umfram til dæmis mismun milli hverfa borgarinnar? Vinnur bara hástéttarfólk í bönkum? Síðast þegar ég vissi voru það konur í gjaldkerastörfum og bakvinnslu sem mynda flest störf í bönkum. Sigrún Elsa Smáradóttir heldur sér við sömu einföldun og talar um að rekstur eigi að vera samfélagsleg ábyrgð.

Það hefur alltaf verið skýr sýn meirihlutans að öll börn fái sama stuðning frá borgarsjóði, óháð vali á skóla. Það er einmitt það sem minnihlutinn gerði ekki á síðasta kjörtímabili og afleiðingin varð ósanngjörn skólastefna.

Meirihlutinn í borgarstjórn vill styrkja þjónustu við börn og foreldra og þorir að horfa á nýjar lausnir. Vonandi fer pólitískum skotgrafarhernaði minnihlutans að linna svo hægt verði að vinna að lausn vandans. Foreldrar eiga ekkert minna skilið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband