Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Foreldrar ósparir á lofið

Þetta eru frábærar niðurstöður og ég vona að leikskólakennarar og starfsmenn taki þetta til sín sem miklu hrósi fyrir faglegt og gott starf í skólunum.

Ég er sérstaklega ánægð að sjá ánægju foreldra sem eiga börn sem þurfa á sérþjónustu að halda inni í skólunum.   Það er mikilvægt að halda því til haga að hugmyndafræði leikskóla borgarinnar í sérkennslumálum er snemmtæk íhlutun og um leið og upp kemur grunur um að barn þurfi sértæka þjónustu fer ferli í gang hjá starfsmönnum skóla og sérfræðingum á þjónustumiðstöðvum borgarinnar.   Þannig fær barn þjónustu eins fljótt og auðið er.  

Það er mikilvægt að þetta sé skýrt þar sem að undanfarin misseri hafa verið uppi háværar raddir um að biðlistar séu langir á BUGL og Greiningarstöð Ríkisins.  Biðlistarnir eru vissulega of langir og efla þarf þessar stofnanir til muna.  En halda þarf til haga að í Reykjavík er strax gripið inn í hjá hverju og einu barni og það fær þjónustu hjá borginni eins og kostur er á.

Almennt þykir mér vera kominn tími á að endurskoða sérkennslumál þjóðarinnar í heild og vænti mikils af nýrri ríkisstjórn í þeim efnum.   Þegar skólamálin voru flutt frá ríki til sveitarfélaga fylgdi lítið af ferlum og ekkert fé og sum sveitarfélög hafa enga burði til að mæta þörfum allra barna.   Þetta þarf að skoða vel.   Í ferð okkar til Danmerkur í maí var áhugavert að sjá að fjölskyldumálaráðuneytið þar hafði sett fram stefnu í þjónustu við fyrirbura.  Þar er snemmtæk íhlutun lögð til grundvallar og unnið í fyrirbyggjandi aðgerðum þar sem hærri líkur eru á að fyrirburar þurfi einhvern stuðning í framtíðinni.   Þessar fyrirbyggjandi aðgerðir skila sér í heilbrigðari einstaklingi, miklu betri upplýsingagjöf til foreldra og forráðamanna og síðan lægri sérkennslukostnaði í gegnum allt skólakerfið.


mbl.is Foreldrar ánægðir með þjónustu leikskólanna í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deilt um sjálfstætt rekna leikskóla

Í borgarstjórn í dag var tekist á um grundvallarhugmyndir um sjálfsætt rekna skóla í borginni.   Hér fyrir neðan er ræða mín við umfjöllun ákvörðunar meirihluta leikskólaráðs og borgarráðs um að Hjallastefnan ehf. taki við rekstri Laufásborgar.

Í umræðunni var hægt að greina hugmyndafræðilegan ágreining.  Þrátt fyrir veikar tilraunir til að segjast vilja jafnræði milli rekstrarforma segir sagan annað.   Öllum tillögum Sjálfstæðisflokksins um aukið fé og jafnræði milli rekstrarforma fengu aldrei framgang á síðasta kjörtímabili.  Á þessu kjörtímabili hefur minnihlutinn mótmælt þeim skrefum sem hafa verið stigin í þessa átt, m.a. þegar lagt var til að hin svokallaða ,,fimm hagkvæmustu skólarnir" reglan væri afnumin.   Miðað við sum ummæli sem féllu í dag má marka breytingu á þessu neikvæða hugarfari.   Við sjáum til, því nóg verður gert í þessa átt á þessu kjörtímabili. 

Ræða (óritskoðuð)

Forseti ágætu borgarfulltrúar.Hér er til umræðu fundargerð leikskólaráðs þar sem meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna staðfestu samning leikskólaráðs við Hjallastefnuna ehf. vegna reksturs Laufásborgar. Fyrst þykir mér mikilvægt að óska Reykvíkingum til hamingju með að nú sé starfræktur Hjallaskóli í borginni.   Starfsmönnum og foreldrum óska ég sérstaklega til hamingju með daginn og óska þeim velfarnaðar.   Bæði starfsmenn og foreldrar hafa óskað eftir að Hjallastefnan ræki Laufásborg í mörg ár, frá því á síðasta kjörtímabili.   Þess fyrir utan er sérstaklega gaman að samningurinn sé til umræðu í dag 19. júní, kvennréttindadeginum, þar sem að hugmyndafræði Hjallastefnunnar grundvallast á hugmyndum um jafnréttisuppeldi.  Það er hins vegar skuggi á málið að minnihlutinn í borgarstjórn ætli að kjósa gegn rekstrarformi Laufásborgar í dag. Bókanir bæði minnihluta og meirihluta endurspegla skoðanir borgarfulltrúa ágætlega.  Ljóst er að það er vilji Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að halda áfram að jafna stöðu sjálfstætt rekinna skóla á forsendum þess að foreldrar hafi fullkomið valfrelsi þegar kemur að því að velja þá þjónustu sem hentar börnum þeirra best.  Í bókun meirihluta leikskólaráðs kemur skýrt fram að stefnt er að því að tryggja jafna stöðu skóla áfram á kjörtímabilinu með það að markmiði að skólaskjöld séu þau sömu í öllum skólum borgarinnar.   Það er að mínu mati ljóst að þrátt fyrir fögur orð um Hjallastefnuna sé minnihlutinn á móti stjálfstætt reknum skólum.   Ég segi þetta því að gagnrýni þeirra á núverandi samning felur í sér gagnrýni á fyrirkomulag sem þeir sjálfir, í fyrrverandi meirihluta, ákváðu og höfðu alla burði til að breyta, þ.e. að í samningum við sjálfstætt rekna skóla sé leyfilegt að hafa 15% hærri gjaldskrá.    Fjölmörg ár og fjölmörg tækifæri voru til staðar fyrir fyrrverandi meirihluta til að jafna þann mun sem er á milli sjálfstætt rekinna leikskóla og borgarrekinna leikskóla.   Og í boði er að fylgja meirihlutanum í ákvörðunum sínum á þessu kjörtímabili – ef minnihlutanum er alvara í þegar þeir segja að fylgja þurfi jafnræðisreglu.    En minnihlutinn núverandi sat hjá þegar samþykkt var að afnema hina svokölluðu og sérsmíðuðu fimm hagkvæmustu reglu sem þýddi að þá tók gildi sama reikniregla fyrir alla leikskóla hvað þetta varðar.  Hvar var jafnræðishugsun minnihlutans þegar þetta var samþykkt?   Ég minni líka á að í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram þá tillögu þess efnis að gengið yrði til samninga við fulltrúa sjálfstætt rekinna leikskóla.   Í tillögunni fólst m.a. að borgarstjórn tryggi raunverulegt frelsi og tryggt yrði að allir nemendur njóti sama stuðnings óháð því rekstrarformi sem ríkir í einstaka skólum.   Það kemur ekki á óvart að tillögunni var vísað frá á þeim forsendum að viðræður stæðu yfir.  Ýmis áhugaverð ummæli féllu í þessari umræðu og meðal annars sagði borgarfulltrúi Stefán Jón Hafstein eftirfarandi sem endurspeglar og staðfestir skoðun núverandi minnihluta og þáverandi meirihluta á skólagjöldum.  Með leyfi forseta  “Með framlögum borgarinnar og skólagjöldum hefðu skólarnir tekjur á hvern nemanda sem væru ríflegar meðalgreiðslur á nemanda í almenna kerfinu.”.   Í þessum orðum endurspeglast að það var aldrei vilji fyrrverandi meirihluta að greiða meira til skólanna til að stefna að lægri eða engum skólagjöldum.    Enn fleiri tækifæri voru til staðar.  Til dæmis var ekkert hlustað á sjálfstætt reknu skólana til dæmis er varðar hærri greiðslur miðað við fjölda fagfólks.     Hvar var jafnræðishugsun minnihlutans þegar þegar þessu var vísað frá?  Samningarnir eru allir mjög ólíkir og misgóðir og eru alls ekki gerðir til að tryggja jafnræði.  Nú mun nýr meirihluti fara í að semja við alla hina skólana á grundvelli samnings við Laufásborg, einmitt til að tryggja sjálfstætt reknu skólanum fullan aðgang að sjóðum borgarinnar til jafns við aðra skóla og til að hvetja nýja og gamla rekstraraðila til að hugsa til framtíðar varðandi nýjan rekstur.  Minnihlutinn núverandi opinberað áhugaleysi sitt aftur og aftur á fyrri kjörtímabilum og heldur því áfram í dag.   Minnihlutinn er á móti einkaframtakinu í skólakerfinu og mér þætti það heiðarlegra í alla staði ef minnihlutinn kæmi hreint fram og segði eins og er.

 


Reykjavík heldur sínu striki

Það hefur verið mikið rætt um ýmsa þætti varðandi Strætó undanfarið, leiðakerfið, fjármál og verkefni borgarstjórnarmeirihlutans frítt í Strætó fyrir nemendur.   Stjórn Strætó hefur unnið þétt saman að ýmsum mjög erfiðum verkefnum til að ná endum saman vegna vanáætlaðra fjárhagsáætlana og ýmissra umbótaverkefna.   Stjórnarmenn hafa náð vel saman og verið sammála í flestum málum.

Ég sem fulltrúi borgarinnar hef upplýst stjórnina reglulega um stöðu verkefnisins ,,frítt í Strætó" og sagt þeim að um sé að ræða tilraun á grundvelli málefnasamnings nýs meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Um er að ræða verkefni þar sem nemendur í framhaldsskóla og háskóla fá á nemendaskirteini sín merki sem staðfestir að þau fái frítt í Strætó.  Yfirleitt er skólakortið á kr. 29.000 kr.  (Sjá nánar á www.bus.is).   Á sama tíma ætlar Reykjavíkurborg að telja hvort um verði að ræða fjölgun farþega og fækkun bíla því verkefnið er fyrst og fremst til að létta á umferðarþunga í borginni um leið og við kynnum fyrir nemendum að Strætó er raunverulegur valkostur.

Á síðustu stjórnarfundum hafa sveitarfélögin verið að fá upplýsingar um útfærslu málsins hjá Reykjavíkurborg og eðlilega sýnist sitt hverjum.   Sveitarfélögin vildu vita kostnaðinn við verkefnið og voru að velta fyrir sér hvort þeir ætluðu að taka þátt í verkefninu.  Það var hins vegar alltaf ljóst að Reykjavíkurborg greiðir fyrir það tekjutap sem verður þegar verkefnið hefst í ágúst.  Það kom mér sem stjórnarmanni hins vegar á óvart að Kópavogur skyldi ákveða að ganga enn lengra, sérstaklega þar sem gagnrýnin á verkefni Reykjavíkurborgar var hvað mest þaðan. 

Ég velti fyrir mér af hverju þessi ákvörðun sé tekin en mér sýnist hún fyrst og fremst varða peninga.   Mér finnst að svona ákvarðanir eigi fyrst og fremst að vera teknar út frá umhverfslegu sjónarmiði og útfrá þeirri staðreynd að Íslendingar eru að nálgast met í bílaeign.   Að auki þarf að leiðrétta tvennt.   Annars vegar hefur Reynir Jónsson framkvæmdastjóri Strætó sagt að það sé rangt að innheimta gjalda sé svona dýr eins og bæjarstjóri Kópavogs vill meina.   Hins vegar verður að benda á þá staðreynd að þrátt fyrir að nú sé ekki verið að innheimta miklar tekjur hjá Strætó þá er tekjustreymið í beinu samhengi við fjölda farþega.    Ýmislegt er hægt að gera í víðara samhengi til að fjölga farþegum og ef það gerist þá hækka tekjur í hlutfalli við gjöld.   Það heldur ekki einsýnt að frítt í Strætó þýði að útgjöldin standi í stað!

En hvað sem önnur sveitarfélög gera varðandi almenningssamgöngur þá veit ég að við í Reykjavík höldum okkar striki með verkefnið næsta haust.  Ég veit að verkefnið muni skila bættri meðvitund um almenningssamgöngur, vonandi munu fleiri ungmenni fresta kaupum á bíl og prófa að spara aurinn og annan vetur verður vonandi hægt að koma til móts við nemendur um lægri gjöld í vagninn ef verkefnið gengur vel.


mbl.is Gagnrýna að ekki sé meira samráð milli sveitarfélaga um gjaldtöku í strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mennt er máttur

Það er að mínu mati afar mikilvægt að tillögur í þessari skýrslu fari í formlegan farveg, sumar strax hjá mér og mínu fólki á Leikskólasviði og aðrar á öðrum vettvangi.   Við sem samfélag höfum ekki einbeitt okkur nægilega mikið af því að hvetja starfsmenn í háskólamenntun í leikskólafræðum eða uppeldisfræðum til að vinna í leikskólum.  Þegar grunnskólinn var einsettur voru gríðarlegar upphæðir settar í að fjölga grunnskólakennurum og kenna ófaglærðum fræðin.   Ekkert slíkt hefur verið gert þrátt fyrir að leikskólinn sé nú fyrsta skólastigið í lögum og fjölgun barna á leikskólum verið stjarnfræðileg.

Í þessari skýrslu eru nokkrir fastir mælikvarðar sem mikilvægt er að minnast á.   Þarna kemur fram starfsmannavelta, fjöldi nýráðninga (sem er mikilvæg eining því að starfsmannavelta endurspeglar ekki veltu sem á sér stað á miðju ári) og hlutföll ófaglærðra og faglærðra.   Reykjavík er nú með 42% starfsfólk leikskólakennara eða annarra uppeldisfræðimenntaðra starfsmanna.   Allar þessar tölur þurfa að breytast markvisst í betri átt, starfsmannavelta lækki og fagfólki fjölgi.   Hugmyndafræðilegt starf og menntun barna mun eflast til muna þegar við sjáum tölurnar breytast.

Á vegferð starfshópsins fóru strax nokkur mál af stað.  Eftir greiningar á fjölda starfsmanna með stúdentspróf var öllum boðið á kynningarfund á leikskólakennaranámi við KHÍ og HA.  Sjötíu starfsmenn komu á fundinn sem var fjöldi langt fram úr okkar björtustu vonum.   Vonandi skila sér einhver hópur í námið.   Annað mál fór í farveg þegar ég bar upp tillögu í háskólaráði KHÍ um samstarfshóp um fjölgun námsleiða við KHÍ fyrir starfsfólk leikskóla.   Okkar skoðun er að diplomanámið hafi sannað sig og að KHÍ geti mögulega mætt sveitarfélögunum með námsleiðum með vinnu.   Tvennt annað átti sér stað, annars vegar fóru fram hvatningarverðlaun leikskóla sem voru veitt skólum með framúrskarandi starf eða verkefni og hins vegar var sett á laggirnar Rannsóknarstofa í menntunarfræðum yngri barna við KHÍ.   Öll þessi verkefni miða að því að kynna þá staðreynd að leikskólar krefjast menntaðs starfsfólks.

Í leikskólunum er stór hópur gríðarlega mikilvægra starfsmanna sem eru búnir að vinna lengi í leikskólum og með börnum.  Þessi hópur er ekki endilega með háskólamenntun á bakinu en búinn að fara á fjölda námskeiða og umfram allt búinn að eignast dýrmæta reynslu.    Þetta er hópur sem viljum líka einbeita okkur að og bjóða upp á ólíkar leiðir til fagmenntunar.   Leikskólaliðabraut Eflingar er lifandi dæmi um hvernig er hægt að stórefla frábæra starfsmenn með því að bjóða þeim hagnýtt nám sem sýnir þeim og staðfestir að störf þeirra í gegnum tíðina hafa verið staðfest með rannsóknum og fræðum.   Leikskólaliðarnir sem ég spjallaði við í útskriftinni í maí sl. voru eins og blóm í eggi og sögðu allir að sjálfstraust þeirra og fagleg vitund hefði aukist gífurlega í þessu mjög svo áhugaverða námi.

Það er af nógu að taka og ekki seinna vænna að hefja þetta starf.   Mennt er máttur en tekur tíma og það þarf að setja raunhæf markmið um fjölgun starfsfólks í leikskólum borgarinnar.   Á fundinum í dag samþykkti leikskólaráð líka tillögu um aðgerðir sem lúta að skammtímaverkefnum, þ.e. stuðning við leikskólakennara og starfsmenn strax í haust.    Að mínu mati er þó alveg ljóst að við tryggjum ekki faglegt starf og minni starfsmannaveltu fyrr en við getum fjölgað fagfólki í leikskólunum.


mbl.is Vilja auðvelda starfsfólki á leikskólum að ljúka fagnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjalli til Reykjavíkur

Leikskólaráð samþykkti í dag samning Leikskólasvið við Hjallastefnuna ehf. um að hún taki við rekstri leikskólans Laufásborgar. Þetta er í fyrsta sinn sem Hjallaskóli tekur til starfa í Reykjavík.  Leikskólasvið Reykjavíkurborgar mun samkvæmt þjónustusamningi greiða Hjallastefnunni rekstrarstyrk vegna reykvískra barna frá 18 mánaða aldri. Kveðið er á um að gjaldskrá leikskólans skuli vera sem sambærilegust gjaldskrá Leikskólasviðs og aldrei hærri en sem nemur 15% .

Meirihluti leikskólaráðs óskaði á fundinum Reykvíkingum til hamingju með að hafa fengið Hjallaleikskóla til borgarinnar.   Laufásborg hefur árum saman starfað með hugmyndafræði Hjallastefnunnar að leiðarljósi með góðum árangri.  Með ákvörðun leikskólaráðs í dag að gera Laufásborg að sjálfstætt reknum skóla er búið að stíga fullnaðarskref að því markmiði að Laufásborg verði Hjallaskóli að öllu leyti.  Með því er búið að tryggja í sessi hugmyndafræði Hjallastefnunnar samhliða rekstrarformi til að auka sjálfstæði skólans til aukinnar þróunar og nýbreytni.

Með þessu skrefi er meirihluti leikskólaráðs að marka tímamót því að nú liggur fyrir ný tegund af samningi við sjálfstætt rekinn leikskóla sem að verður lagður til grundvallar við nýja samninga við aðra sjálftætt rekna skóla.   Í samningnum er leitast við að tryggja sem best jafnrétti barna til leikskólanáms og að fjármagnið sé það sama óháð vali á leikskóla.   Nú þegar er búið að tryggja að sömu rekstrarstyrkir færu til allra rekstrarforma en í þessum samningi er aðgangur sjálfstætt rekinna leikskóla tryggður að ýmsri sérþjónustu sem er miðlæg hjá borginni.   Markmiðið er að tryggja foreldrum val um leikskóla fyrir öll börn.

 

Meirihluti leikskólaráðs stefnir að því að í framtíðinni greiði foreldrar sömu gjöld fyrir þjónustu óháð rekstrarformi.  Til að ná því markmiði þarf smátt og smátt að auka fjárframlög til leikskólasviðs og því mun þetta markmið nást í skrefum. Þau börn sem eru nú í Laufásborg munu áfram greiða leikskólagjöld í samræmi við gjaldskrá borgarinnar en Hjallastefnan ehf. getur sett fram gjaldskrá allt 15% hærri fyrir ný börn sem sækjast eftir plássi á Laufásborg ef hún kýs.


mbl.is Hjallastefnan tekur við rekstri leikskólans Laufásborgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umsóknir í Kennaraháskóla Íslands

Nú er alveg að koma að lokadagsetningu móttöku umsókna í KHÍ.   5. júní nk. rennur út sá tími sem stúdentar og aðrir áhugasamir hafa til að skila inn umsóknum í grunnnám.  Vefurinn er ekki alveg nógu spennandi verð ég að viðurkenna, en ég hvet umsækjendur til að hringja á skrifstofu skólans og fá upplýsingar um námsleiðirnar.

Ég vil hvetja alla sem eru að hugsa um að sækja um nám í einhverjum háskóla að kynna sér námið við KHÍ.   Það er nýbúið að breyta verulega kennslunámskrá skólans þannig að valið hefur aukist og með því fylgir ný hugsun um kennaranám og framtíðarnámsmöguleika kennara. 

Ég bendi sérstaklega á nýtt kennaranám fyrir yngstu börnin.   KHÍ mun eflast mikið spái ég í kennslufræði fyrir yngstu börnin á næstu árum enda eru rannsóknir alltaf að sýna okkur meira og meira fram á mikilvægi þessa fyrstu ára barna okkar varðandi tengslamyndun, máltöku og námshæfni.   Það eru margar spennandi rannsóknir til um þroska barna og ekki er síður skemmtilegt að nota hugvitið til að hugsa hvernig eigi að rannsaka þessu litlu kríli okkar til að fá fram hvernig þau hugsa og læra.

Einn prófessorinn minn í Seattle er sé ég ennþá á fullu að rannsaka getu þeirra yngstu.  Áhugasamir geta skoðað af heimasíðu hans ýmsar nýjar birtingar og umfjallanir um þær.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband