Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Fyrsta bloggfærsla

 

 


Dagforeldrar og gjaldskrár

Ég er mikill stuðningsmaður dagforeldrakerfisins sem öflugs valkostar fyrir foreldra. Ég er þessa dagana að berjast fyrir því að dagforeldrar fái hærri niðurgreiðslur á næsta ári svo að fleiri haldi áfram sínu góða starfi og til að gjöld á foreldra lækki eitthvað. Það er hins vegar vandasamt og flókið að fylgja því eftir að niðurgreiðslur lækki kostnað á foreldra því gjaldskrár eru frjálsar eins og hjá hverjum þeim öðrum sem er i samkeppnisrekstri. Dagforeldrar voru aldrei ánægðir með þennan úrskurð og hafa sumir nú jafnvel ómeðvitað unnið gegn eðlilegri samkeppni eins og kom fram í Kompás á sunnudaginn með því að leyna verðskrá. Þar kom fram að fæstir foreldrar fá uppgefið verð í síma og sumir ekki fyrr en þeir þiggja plássið. Þetta er óeðlilegur markaður og hægt að líkja við prúttmarkað eins og við þekkjum hann erlendis.

Miðað við þær upplýsingar sem komu fram í Kompás er líklegt að dagforeldrar misskilji mikilvægi þess að verð og gæði þjónustu þeirra sé gegnsæ. Ekki aðeins er gegnsæi mikilvægt til þess að foreldrar fái góðar og nýtanlegar upplýsingar heldur einnig til þess að það sé sýnilegur sá munur sem að niðurgreiðslur til dagforeldra miðað við niðurgreiðslur til leikskólabarna.

Eru foreldrar alvondir? : Grein í Fréttablaðinu 19.11.06

Könnunin sýndi að börnin eru að meðaltali 7,4 klst. á dag í skólunum en að foreldrar greiða fyrir dvalartíma sem nemur 8,2 klst. á dag.

Sérfræðingar og jafnvel afar og ömmur hafa að undanförnu viðrað þær skoðanir sínar að íslensk börn séu undir of miklu álagi, foreldrar gefi sér ekki tíma til að sinna þeim og að Ísland sé ekki nægilega barnvænt samfélag. Sitt sýnist hverjum en töluvert skortir á að umræðan sé byggð á staðreyndum eða á reynsluheimi foreldra. Til dæmis er mikið vísað í tölur um að tæplega 90% barna dvelji 8 tíma eða lengur á leikskóla á dag. Leikskólaskrifstofa Reykjavíkurborgar kannaði nýlega í öllum hverfum borgarinnar raunverulegan vistunartíma í leikskólum. Könnunin sýndi að börnin eru að meðaltali 7,4 klst. á dag í skólunum en að foreldrar greiða fyrir dvalartíma sem nemur 8,2 klst. á dag. Engin munur var á vistunartíma eftir aldri og aðeins 3% barna voru í vistun eftir kl. 17. Líklega liggur munurinn á rauntíma og samningstíma í að foreldrar vilji eiga borð fyrir báru með tímann sinn og vilji ekki að leikskólakennarar þurfi ekki að vinna lengur ef eitthvað kemur upp á. Með þessari könnun fengu margir foreldrar sem leggja sig hart fram við uppeldið uppreisn æru enda nær þorri foreldra að samræma ágætlega fjölskyldulíf og starf.

Dvalartími barna í leikskólum hefur vissulega breyst mikið undanfarin ár. Til að mynda voru tæplega 60% barna í heilsdagsvistun árið 1999 en 90% árið 2005. Þessi breyting skýrist ekki nema að litlu leyti af fjölgun barna heldur jókst dvalartími barna samfara auknu framboði heilsdagsplássa. Á tímabilinu 1999-2005 fjölgaði börnum sem sækja leikskóla um 800 þrátt fyrir að íbúum með ung börn í Reykjavík fækki. Við fyrstu sýn virðast þessar tölur skýra vel umræðuna um aukið álag á börnin en ef nánar er rýnt kemur í ljós að á sama tímabili hefur vinnumarkaðurinn ekki breyst mikið. Tölur Hagstofu sýna að atvinnuþátttaka kvenna og karla er sú sama og vinnustundir eru eins hjá konum og aðeins færri hjá körlum. Þær tölur gefa til kynna að einhvers staðar hafi börnin verið í vistun áður en plássum fjölgaði og að jafnvel felist breytingin í að nú sé sýnilegri eða teljanlegri sá tími sem börn eru frá heimili. Hér er þó ekki lagður dómur á hvað sé hinn rétti vistunartími barns í leikskóla eða í vistun enda eru þær ákvarðanir teknar af foreldrunum sjálfum. Í þessu samhengi er þó mikilvægt að nefna að á þessum tíma hefur fagfólki leikskóla fjölgað og umræðan um fagmennsku og menntun í leikskólum blómstrað sem aldrei fyrr. Foreldrar treysta vel gæðum þeirrar umönnunar og menntunar sem er í boði og taka í auknum mæli upplýstar ákvarðanir um þarfir barna sinna út frá hugmyndafræði og fagmennsku skólanna.

Frétt úr Morgunblaðinu - viðvera leikskólabarna

Kannar viðveru á leikskólum
Börn dvelja að meðaltali í 7,4 klukkustundir í leikskólanum en foreldrar greiða fyrir 8,3

SAMKVÆMT könnun leikskólasviðs Reykjavíkur eru börn að meðaltali 7,4 klukkustundir á dag á leikskólum en foreldrar greiða á hinn bóginn að meðaltali fyrir 8,3 klukkustundir. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs, segir að skýringin á þessum mun sé væntanlega sú að foreldrar vilji hafa vaðið fyrir neðan sig. Þá sé ekki endilega víst að börn séu lengur í dagvistun nú en fyrir um 15?20 árum. Í samtali við Morgunblaðið sagði Þorbjörg að kveikjan að könnuninni hefði verið greinaflokkur í Morgunblaðinu þar sem spurt var hvort Ísland væri barnvænt samfélag en þar hefði verið rætt um að margir foreldrar væru of uppteknir og hefðu ekki nægan tíma fyrir börnin sín. Einn viðmælandi blaðsins í þessum greinaflokki vitnaði m.a. í tölur frá Hagstofu Íslands um að 71% barna dveldi í átta klukkustundir eða lengur á leikskóla á dag. Þorbjörg sagði að sér hefði fundist undarlegt ef það væri rétt að börn væru svo lengi í leikskóla því henni virtist sem foreldrar reyndu sitt besta til að sækja börnin sem fyrst á leikskóla. Í kjölfarið hefði hún látið gera könnun á raunverulegum dvalartíma leikskólabarna en þær upplýsingar er að finna í viðveruskrám skólanna. Könnunin náði til 11 leikskóla, af ýmsum stærðum, í öllum hverfum borgarinnar og alls til um 10% reykvískra leikskólabarna. Niðurstaðan var sú að á árunum 2001?2005 var dvalartíminn að meðaltali 7,4 klukkustundir. Foreldrar greiddu á hinn bóginn að meðaltali fyrir 8,3 klukkustundir. Þorbjörg telur að skýringin á þessum mun sé einkum tvíþætt, annars vegar geti verið að foreldrar þurfi endrum og sinnum að láta börnin sín vera lengur í skólanum en venjulega, hins vegar að foreldrar vilji hafa vaðið fyrir neðan sig ef þeim skyldi seinka, frekar en fara yfir tímann sem þeir hafa greitt fyrir en slíku mæti ekki velvild.

Voru áður á tveimur stöðum
Þorbjörg sagði að upplýsingar um raunverulegan dvalartíma væru mikilvægartil að hægt væri að ræða um dvöl barna á leikskólum á réttum forsendum. Hún bætti við að gjarnan væri talað um að stökkbreyting hefði orðið í þessum málum á undanförnum árum og að nú væru börnin miklu lengur í dagvistun en áður. Þorbjörg telur ekki víst að breytingin sé í raun svo mikil því á meðan leikskólavist hafi aðeins verið í boði hálfan daginn hafi börnin gjarnan verið í dagvistun á tveimur stöðum. Þá mætti heldur ekki gleyma því að leikskólar væru öflugar og faglegar menntastofnanir þar sem vel væri hugsað um börnin. Ennfremur yrði að nefna hlutverk leikskóla í jafnréttismálum en enn væri það þannig að konur drægju frekar úr vinnu en karlar til að annast börnin og gæfu frekar eftir í sínum störfum. Þetta væri ekki endilega neikvætt en það yrði á hinn bóginn að gefa konum kost á vali og þær ættu ekki að fá samviskubit þó þær yrðu að fá vistun fyrir börnin sín í átta eða átta og hálfan tíma. Hvergi væri atvinnuþátttaka kvenna meiri en hér á landi og það gengi ekki að tala leikskólana niður en hvetja um leið konur til að sækjast eftir meiri ábyrgð og vinnu.


Góðar fréttir fyrir Víkinga og Fossvogsbúa

Loksins sér fyrir endann á tímafreku ferli deiliskipulags í Traðarlandi á íþróttsvæði Víkings. Um er að ræða gervigrasæfingarsvæði. Tillagan er nú í kynningu en hún felur í sér að Kópavogur leigi borginni land til þess að flóðljósin sem tengjast svona velli trufli ekki íbúa í Traðarlandi. Að auki er komið til móts við íbúa varðandi bílastæði því gert er ráð fyrir 85 nýjum álagsstæðum á opnu svæði norð-austan við núverandi íþróttahús. Ég vona fyrir hönd Víkinga að þetta verði samþykkt og hægt sé að tímasetja vígslu nýs vallar í Fossvogsdal.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband