Siglfirðingar framhald

Ég fékk tölvupóst í gegnum föður minn frá áhugamanni um ættfræði Siglfirðinga.   Það hefur einhver tekið að sér að skoða borgarfulltrúana líka, kannski vegna færslu minnar um daginn.  Birti tölvupóstinn hér að neðan en enn vantar upplýsingar um Sóleyju Tómasdóttur.

Pabbi er að vísu fæddur í Reykjavík en flutti nokkurra vikna norður.  Afi er ættaður úr Fljótunum en amma var frá Vestmannaeyjum og hitti afa fyrir norðan.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og borgarstjóri, er sonur Eggerts Gunnarssonar dýralæknis og Bergþóru Jónsdóttur lífefnafræðings. Bergþóra er fædd á Siglufirði, dóttir Jóns Hjaltalíns Gunnlaugssonar, sem var heimilislæknir þar frá 1947 til 1955.

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er dóttir Þórunnar Jensen og Frímanns Gústafssonar trésmiðs, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði, sonur Gústafs Guðnasonar olíubifreiðastjóra og Jórunnar Frímannsdóttur sem býr á Siglufirði.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er dóttir Vigfúsar Árnasonar endurskoðanda, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði, sonur Helgu Hjálmarsdóttur og Árna Friðjónssonar síldarsaltanda (bróður Vigfúsar Friðjónssonar). Móðir Þorbjargar Helgu er Ólöf G. Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur. Afi hennar var Sveinbjörn Jónsson byggingameistari, framkvæmdastjóri Ofnasmiðjunnar, en hann var oft á Siglufirði á fyrri hluta tuttugustu aldar.

 

Þá má geta þess að Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, á mikið af skyldfólki á Siglufirði. Afi hennar í móðurætt er Benedikt Kristinn Franklínsson, bróðir Guðbjargar, Guðborgar, Margrétar og Nönnu Franklínsdætra. Afabróðir Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, var Ólafur Ragnars síldarsaltandi á Siglufirði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fannst alltaf skrítið í den Þorbjörg að móðursystir mín,þ.e. föðuramma þín ætti heima á Siglufirði en var samt Vestmannaeyingur.Svo þegar maður hitti hana ´þá talaði hún líka með þessum sterka norðlenska hreim.Kveðja til ykkar úr Eyjum.

RagnaB (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 15:09

2 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Þetta er að verða svolítið eins og þegar Jón Gnarr og Davíð Þór voru með pistlana um loftskeytamennina sem voru að þeirra sögn helsta ógn mannkyns og staðráðnir í að taka yfir heiminn.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 23.10.2007 kl. 15:34

3 identicon

Þorbjörg þú hefðir átt að fá skáldið í Hrísey til að lesa þessa samninga en ekki láta sjónvarps álfinn spila með þig kv Adolf

ADOLF (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 20:50

4 identicon

ja hérna - þetta er nú bara skemmtilegt hvað Ísland er alltaf mikið frímerki - mér finnst eyjan okkar alltaf minnka meir og meir með árunum - eins og barninu fannst landið stórt og mikið séð frá sveitinni minni á vestfjarðakjálkanum í uppvextinum.

Ása (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 23:18

5 Smámynd: Tómas Jónsson

Ánægjuleg tengsl við Siglufjörð

Ég, pabbi Sóleyjar fæddist og ólst upp til 10 ára aldurs á Siglufirði.  Bjó qð Grundargötu 19 í húsi sem nefnt var Visnes.  Foreldrar mínir Sigurpála og Jón og bræður föður míns voru alltaf kenndir við Visnes, Visnesbræður.  Þeir voru m.a. Jón í Visnesi Sigurðsson, Bjarni Sigurðsson, faðir Kristjáns Bjarnasonar, skipstjóra á Siglufirði, og Tómas Sigurðsson.  Heimurinn er lítill, því ég held að báðir foreldrar mínir hafi unnið á síldarplani Vigfúsar og Árna Friðjóns og þekktust vel.  Ég er jafnvel ekki frá því að ég hafi stundum verið á skíðum með föður þínum Þorbjörg Helga.  Þessi tengsl styrkja vonandi samstarf ykkar Sóleyjar, hún hefur allt gott til brunns að bera eins og flestir afkomendur Siglfirðinga.    

Tómas Jónsson, 26.10.2007 kl. 11:58

6 identicon

Þar hefurðu það Tobba mín! Pabbi veit sínu viti...

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 14:03

7 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já við Siglfirðingarnir .

Herdís Sigurjónsdóttir, 27.10.2007 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband