Leikskólastjórar boða til fundar

Í gær fór fram fjölmennur fundur í ráðhúsinu í Reykjavík þar sem fjallað var um breytingar á menntaráði. Þetta var gott framtak hjá leikskólastjórum en ég hefði viljað sjá þennan fund þróast á annan hátt. Það var alltof neikvæður andi á fundinum til þess að samræður um fagmennsku og framtíðarhugsun í skólamálum gætu farið fram. Ég er ekki viss um að ég taki þátt í fundi aftur með þessari uppsetningu. Blaðamenn stóðu sig sömuleiðis illa í að leita eftir mismunandi sjónarhornum.

Áhugasamir geta lesið ávarpið mitt hér að neðan:

Kæri fundarstjóri, fundargestir, borgarfulltrúar,

Ég vil byrja á því að þakka fyrir framtak leikskólastjóra og ég hlakka til að heyra sjónarmið ykkar allra. Þau skilaboð sem ég vil helst að þið farið með héðan út í dag frá mér eru þau að starfsemi leikskóla í Reykjavík hefur gengið afar vel. Þjónustan er mjög góð, starfsfólkið metnaðargjarnt og öflugt og foreldrar farnir að gera miklar kröfur til skólastigsins. Öflugt starfsfólk Menntasviðs sinnir vel verkefnum sínum þrátt fyrir að vera of fáliðað. Leikskólinn blómstrar og er til dæmis sú einstaka stofnun í mínu lífi sem hefur komið mér á þann stað sem ég er á í dag, hann hefur veitt mér tækifæri til að leita mér menntunar, velja mér starf og veita mér þá ómældu lífsfyllingu að eiga tvö heilbrigð og hamingjusöm börn.

Leikskólinn er í augum nýs meirihluta í borgarstjórn eitt mikilvægasta verkefni borgarstjórnar. Kosningabaráttan í vor snerist að miklu til um verkefni er tengdust ungum börnum og þjónustu við þau. Mörg málin tengdust uppbyggingu þessa góða skólastigs og önnur þjónustu við foreldra. Í ljósi þessa og skoðana okkar á allt of stóru og þunglamalegu menntaráði, sem er stærra en borgarstjórn, var ákveðið að búa til leikskólaráð samhliða menntaráði.

Fyrrverandi meirihluti í Reykjavíkurborg setti af stað miklar kerfisbreytingar á stjórnskipulagi Reykjavíkurborgar. Sumar breytingarnar hafa borið árangur, sumar eru enn óskýrar og enn aðrar eru alls ekki að ganga nægilega vel. Núverandi meirihluti gagnrýndi margar af þessum breytingum í þessu ferli. Okkar tillögur nú og áherslur um tvö ráð eru til að efla leikskólann sem fyrsta skólastigið, auka sveigjanleg skil skólastiga og auka skilvirkni í þjónustu við skólana og þróunarverkefni. Nú þegar hefur verið tilkynnt um að systkinaafsláttur verði 100% og að kennslugjald lækki um 25% frá 1. september. Unnið verður að því að leikskólaráð hafa yfirsýn yfir gæsluvelli og leikvelli borgarinnar enda verðugt verkefni að efla útvistartæki borgarinnar fyrir yngstu börnin. Settar verða af stað ungbarnadeildir fyrir börn yngri en 18 mánaða við leikskóla í borginni. Gæðastarf og námsmat verður eflt. Menntastefna borgarinnar fyrir bæði skólastigin verður unnin með fulltrúm beggja ráða, verðlaunanefndir stofnaðar fyrir leikskóla líkt og grunnskóla og ákveðnar hugmyndir unnar varðandi starfsmannamál leikskólanna. Starfshópar verða áfram skipaðir fulltrúm beggja skólastiga til að uppfylla og auka fagleg tengsl menntastefnu. Hér hef ég aðeins nefnt nokkur mál sem við munum ráðast í á næstu mánuðum. Ég hlakka til og hvet ykkur öll til að taka þátt í þessum verkefnum.

Yngri sonur minn kom með mér í vinnuna í morgun. Ég byrjaði á því að kynna hann fyrir Úlfhildi sem er ritari okkar borgarfulltrúa og ég skýrði henni frá því að hann væri svona á milli sumarfría og skóla og myndi þvælast með mér eitthvað á fundi. Úlfhildur spurði son minn hvaða skóla hann væri að fara í og hann skýrði stoltur frá því að hann væri að fara í Fossvogsskóla. Síðan horfði hann kumpánlegur á hana og sagði enn stoltari, ?fyrsti skólinn minn var Kvistaborg. Þar var ég sko í skóla alveg frá 2. ára.? Sonur minn eins og ég og við öll vitum að engan þarf að sannfæra um að leikskólinn er fyrsta skólastigið. Og það bíða draumar og hugmyndir enn sem hrinda þarf í framkvæmd.

Sonur minn fer í gegnum breytingar sem marka ákveðin tímamót í hans lífi. Hann færist frá einu skólastigi til annars. Skólastig sem mega læra margt af hvoru öðru. Stofnun leikskólaráðs marka líka tímamót því með þessu fjölgum við tækifærunum til að vinna að áframhaldandi uppbyggingu skólastigsins án þess að draga úr þeim áherslum að tengja skólastigin tvö saman. Stjórnsýslubreytingar sem þessar taka ávallt á og ég dreg ekki úr þeirri vinnu sem er framundan. Ég mun leitast við að hitta leikskólastjóra og leikskólakennara á næstu vikum og hlusta á ykkar skoðanir fyrir þetta ferli. Þessar breytingar verða í miklu samstarfi við ykkur og starfsmenn menntasviðs og verður unnið að því markmiði að auka sýnileika og faglega umræðu um leikskólann til muna og að tryggja að fagleg yfirsýn yfir menntastefnu borgarinnar sýnilegri og tryggð með samstarfi allrar þeirrar skólaþjónustu er borgin stýrir.

Stórkallalegar yfirlýsingar um eyðileggingu menntaráðs eru pólitískar keilur sem skaða umræðu um leikskólana frekar en að styrkja.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fjórtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband