Grunnnet Símans

Það fer um mann aumingjahrollur yfir vinnubrögðunum í tengslum við hugsanleg kaup Orkuveitu Reykjavíkur á grunnneti Símans. Það er eitthvað svo ófaglegt að vera í viðræðum um svona stóra fjárfestingu án þess að nokkur af þeim sem taka ákvarðanir um málið viti neitt um stefnuna, arðsemiskröfuna eða stöðu mála.

Nú eru liðnar 4-5 vikur síðan að þessar viðræður hófust og enn hafa ekki komið neinar upplýsingar um málið til stjórnar. Í fréttum í kvöld voru allir oddvitar flokkanna í borginni beðnir um álit sitt á málinu. Það var greinilegt að sumir höfðu meiri upplýsingar en aðrir. Björn Ingi hafði að vísu sagt í Morgunblaðinu í dag að hann hefði fengið kynningu á málinu hjá stjórnarformanni Orkuveitunnar (Alfreð Þorsteinssyni). Það er gott að vita til þess að Björn Ingi hafi betri upplýsingar en ég sem stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur fyrir Reykvíkinga.

Það er margt sem er óljóst í þessu máli. Fyrst og fremst hef ég ekki heyrt neina ástæðu fyrir því að þetta sé góð hugmynd fyrir Orkuveituna. Enginn hefur komið með skýra sýn um hvers vegna OR ætti að fara að leggja kopar í uppsveitum og á landsbyggðinni. Annað hvort er þetta endalaus forræðishyggja stjórnmálamanna eða að stjórnendur borgarinnar telji sig hafa rétt til þess að fara í stórkostlega áhættufjárfestingu með fjármuni Reykvíkinga. Kannski bæði.

Nokkur atriði sem mér finnst þurfa að koma fram í þessu samhengi.

Samningur upp á 20 milljarða korteri fyrir kosningar er náttúrulega móðgun við íbúa í borginni. Nýr borgarstjórarmeirihluti má að mínu mati vel skoða málið frá öllum hliðum eftir 27. maí nk. Það er gífurlega óábyrgt að svo stór samningur sé gerður þegar við blasir að nýtt fólk og nýjir listar taki við borginni. Það er tími til fyrir kjósendur að huga að breytingum í borgarstjórn, sérstaklega þegar fé borgarbúa er notað í áhættufjárfestingar.

Orkuveitan er skuldsett vegna mikilla framkvæmda framundan, Hellishæði og stækkun hennar og mögulega framkvæmda í Helguvik. Ekki þarf að minnast á næstum 10 milljarða króna framkvæmdir við lagningu ljósleiðara. Að mínu mati eru þær áætlanir að auki stórkostlega vanmetnar. Kaupin á grunnnetinu kosta meira en ársvelta félagsins.

Nokkrir hafa velt því upp af hverju Síminn kaupi ekki ljósleiðaranetið af OR. Ástæðan er skýr, Síminn á ekki fé og getur ekki fjármagnað lán fyrir þessum fjárfestingum á borgartryggðu láni eins og OR. Síminn er með þessu (eins og kom réttilega fram í Staksteinum í dag) að fjármagna kaup Excista á félaginu með því að láta opinbert fyrirtæki niðurgreiða kaupin. Skattgreiðendur munið að fjármögnun opinberra félaga er ódýrari en einkafyrirtækja vegna borgar- og eða ríkisábyrgða.

Að lokum. Grunnnetið er mjög flókið fyrirbæri og erfitt hefur reynst hingað til að skilgreina það. Það felur í sér breiðband, ljósleiðara og kopar. Að undanförnu hafa tækninýjungar gert okkur kleift að hringja frítt í gegnum tölvur og því einsýnt að kopar er að hverfa. Ríkisvaldið gerir hins vegar kröfur um að allir hafi aðgang að koparkerfinu þrátt fyrir breytingarnar sem nú eru á símakerfum. Sko er dæmi um breytingar á símaþjónustu, þjónustan hjá þeim er að mestu yfir netið og símtölin líka. Ætlar OR að kaupa koparkerfi dýrum dómum til að Síminn geti valið nýjar leiðir í gegnum netið?

Ég vona að flokksbrot R-listans sjái sóma sinn í að leyfa nýjum borgarstjórnarmeirihluta að taka þessa ákvörðun.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og einum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband