Er Össur hnakki?

Össur hvatti okkur tíkarpenna til að segja skoðun okkar á því sem hann kallar flatneskju ómengaðar kvenfyrirlitningar. Þarna er Össur að vísa í brandara sem að Geir sagði á opnum fundi í Valhöll um varnarmálin. Á heimasíðu Össurar er eftirfarandi spurning sett fram:

Hvað ætli vinkonur mínar í Tíkunum segi um þetta framlag formanns síns til umræðunnar um stöðu konunnar í Sjálfstæðisflokknum sem stundum geisar einsog eldgos á síðum þeirra? Hvað ætli þær hefðu skrifað marga álnarlanga dálka um mig ef ég hefði látið jafn ótrúleg ummæli um munn fara á opnum stjórnmálafundi?

Í fyrsta lagi finnst mér mjög fyndið að hann Össur setji sig á sama stall og formaður Sjálfstæðisflokksins varðandi ummæli Tíkarpennar um menn og málefni. Össur, þú verður að fara að átta þig á því að þú ert hvorki formaður né varaformaður flokksins þíns.

Í öðru lagi er Geir sá maður sem hefur hvað ötulast talað fyrir framgöngu kvenna í Sjálfstæðisflokknum. Geir er sá karlmaður í Sjálfstæðisflokknum sem hefur sýnt samstarfi kvenna í flokknum hvað mesta athygli enda framsýnn maður með eindæmum. Ég held að allar þær konur sem starfa í flokknum viti þetta af eigin reynslu eða samtölum við Geir.

Í þriðja lagi eru brandarar misvel heppnaðir. Það er alveg eins hægt að vísa í sárindi Össurar yfir yfirlýsingum Hallgríms Helgasonar um aldur Styrmirs Gunnarssonar í Morgunblaðsgrein í dag og segja að það sé ekki fair play að taka brandara úr samhengi eins og gert er við orð Geirs í þessari varnarmálaumræðu. Maður leggst bara ekki svona lágt.

Í fjórða lagi eru Tíkur ekki sammála því að ekki megi gera grín af konum eins og konur gera grín af körlum. Að minnsta kosti er ég orðin dauðleið á þeim pólitíska réttrúnaði að ekki megi gera grín af konum. Ég tel það ala á ójafnræði kynjanna sem fyrirsláttur um að konum þurfi að sýna einhverja vægð. Ef kona hefði sagt þennan brandara hefði hún líklega aldrei fengið þessa umfjöllun.

Það væri til dæmis lítið mál fyrir hvern og einn að fara að rýna í öll misheppnuðu kommentin hjá Össuri eftir að hann tapaði formannsslagnum. Þau mættu jafnvel teljast sem einn allsherjar brandari.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og fimmtán?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband